Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Það er ekki langt mál sem ég mun flytja hér, en þar sem er þó ekki alveg kominn háttatími og enginn á mælendaskrá langaði mig að segja örfá orð. Það er kannski fyrst og fremst meðfædd forvitni mín að mig langar að frétta af því hvort eitthvað hafi gerst markvert á ríkisstjórnarfundi, sem mér er kunnugt um að hafi verið nú milli 7 og 9 eða svo, formlegur eða óformlegur, hvort þar hafi komið eitthvað nýtt fram í þeim alvarlegu vinnudeilum, t.d. einhver ný úrræði til lausnar á því máli. Ég veit að annar hvor hæstv. ráðherra mun fræða okkur um það ef svo er því að þjóðin öll stendur nú nánast á öndinni, ekki bara vegna kennara og vísindamanna heldur líka vegna ástands á sjúkrahúsum o.s.frv., og allt þjóðfélagið að vona að eitthvað rofi til í þeim málum, hvort nokkuð sé af því að frétta. Það ætti ekki að taka langan tíma að greina okkur frá því.
    Í annan stað langar mig að spyrja hæstv. viðskrh. hve mikil samanlögð gengisfelling í tíð þessarar ríkisstjórnar muni vera orðin með þeirri gengisfellingu sem tilkynnt var í morgun og þá að viðbættum þeim 2% sem væntanleg eru, við getum sjálf lagt þau við að sjálfsögðu og þarf kannski ekki að tíunda það, en heildarupphæðin þegar hver gengisfellingin kemur ofan á aðra, hver hún sé í heild sinni. Hæstv. ráðherra á vafalaust mjög auðvelt með að svara þeirri spurningu.
    Í þriðja lagi langar mig að spyrja annan hvorn ráðherrann um þá spá, nánast fullyrðingu hygg ég, hæstv. fjmrh. í nóvembermánuði sl. að Samband ísl. samvinnufélaga yrði gjaldþrota á 10--14 mánuðum, þ.e. um það bil í lok þessa árs, hvort eitthvað fleira en þá lá fyrir bendi til að svo alvarlegt sé ástandið í stærsta atvinnufyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypu þessa lands að það muni verða orðið gjaldþrota eftir hálft ár eða svo. Væntanlega vita ráðherrarnir tveir sem hér eru jafnmikið um það og hæstv. fjmrh. og ég vænti þess að ekki standi á svörum frá þeim hér og nú um hvaða horfur séu í þessu efni því að vissulega væru það mikil tíðindi í þessu þjóðfélagi ef svo færi að þetta stóra fyrirtæki yrði beinlínis gjaldþrota. Ég hygg að hæstv. fjmrh. hafi ekki verið að tala í neinum hálfkæringi um það. Ég held að þetta hafi verið nokkuð ákveðin fullyrðing gagnstætt því sem ég held að hafi verið með hæstv. forsrh. þegar hann talaði um þjóðargjaldþrot. Það átti hann áreiðanlega ekki við í bókstaflegri merkingu, enda væri það æði einkennilegt ef eitt af ríkustu þjóðlöndum heimsins, Ísland, þótt smátt sé, yrði gjaldþrota í heild sinni.
    Þá langar mig til að spyrja að því hve mikið af þeim kauphækkunum sem nú hafa fengist til 80% launamanna eða um það bil hafi horfið í morgun við þessa tilkynningu um 1% gengisfellingu og væntanleg 2% til viðbótar, hvort það láti nærri, sem ég hygg að hagfræðingur ASÍ hafi sagt í sjónvarpi og útvarpi, að það væru 2% sem gufað hefðu upp af þessum um það bil 10% á árinu. Ég hef ekki orðið var við að boðaðar væru neinar ráðstafanir til að draga úr afleiðingum þessarar gengisfellingar frekar en annarra. Það er allt

kák, smávægilegar skattalækkanir sem verið er að tala um nú þegar allt er skoðað, lagt við það sem ávinnst fyrir fólk með nokkrum skattalækkunum. Þá eru lagðar við skattahækkanir og einhverjir voru að reikna út ásamt reiknimeisturum að nettó væru þetta kannski 300 millj. eða svo á ári eða hvort það var kannski bara á þessu rúma hálfa ári sem eftir er. Um það munar ekki neitt. Í framhaldi af því mundi ég vilja spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé enn þeirrar skoðunar sem hann var í byrjun október árið 1987 þegar stjórnarsáttmáli sá sem þrír flokkar höfðu gert um sumarið var rofinn af ríkisstjórninni með gífurlegum nýjum skattahækkunum sem ákveðnar voru á ríkisstjórnarfundi 8. október, tveim dögum fyrir þingsetningu og tilkynntar í þingflokkunum daginn eftir, matarskattur og annað góðgæti sem dengt var yfir og stjórnarsáttmálinn svikinn þegar hætt var við að framfylgja þeirri stefnu að reyna ekki að ná hallalausum fjárlögum nema þá á þrem árum heldur átti að fylla upp í þriggja milljarða gat með 5 milljörðum og þá átti allt að vera meira en slétt, þá átti að vera tekjuafgangur á fjárlögum árið 1988. Við vitum hver raunin varð. Ég vissi það raunar strax sama daginn og þetta var ákveðið að dæmi þessara reiknimeistara kratanna gat aldrei upp gengið og auðvitað var fjárlagahallinn meiri en nokkurn tíma áður í sögunni. Hann var 7,2 milljarðar. Nú var boðað aftur að með nýjum skattahækkunum núverandi ríkisstjórnar yrði nú aldeilis afgangur á ríkissjóði. Mér skilst að halli sé nú kominn þar kannski í eina 3--4 milljarða strax. Mín spá er sú að hann verði kannski 12--14 milljarðar. Mig langar að vita hvort speki þessara reiknimeistara, sem uppaldir eru í Þjóðhagsstofnun og víðar, sé enn sú hin sama, að þeir haldi að þrátt fyrir þessa kjararýrnun og minnkandi eyðslu verði einhver greiðsluafgangur í ár. Halda menn þetta virkilega enn þá? Halda þeir virkilega enn þá að það verði 600 millj. kr. greiðsluafgangur hjá ríkissjóði, það muni standast í kreppu, stórfelldu atvinnuleysi þegar tekjur ríkissjóðs auðvitað minnka? Eru þessir menn ekki farnir að gera sér grein fyrir því enn þá að það eru tveir dálkar í fjárlögunum, það er nefnilega líka gjaldahlið? Eru þessar kenningar enn svo vitlausar að menn haldi að það verði afgangur á fjárlögum ríkisins í ár? Þetta
eru einfaldar spurningar. Ég veit að hæstv. ráðherra finnast þær barnalegar. En stundum sér barnið betur en fullorðnir eins og við sögðum um nýju fötin keisarans. Ég sé ekki að það séu miklar spjarir utan á þessum kennisetningum. Þær voru það ekki í fyrra og þær verða það ekki í ár.
    En spurningarnar eru fram komnar og ég ætla ekki að tefja þessa umræðu. Menn eru ábyggilega margir þreyttir sem hafa haft andvökunætur út af eðlilegum áhyggjum og við höfum öll áhyggjurnar. En ég vildi úr því að enginn var á mælendaskrá og klukkan þó ekki orðin 11 fá að varpa þessum 4--5 spurningum fram fyrir ráðherrana. Ég vænti þess að þeir svari þeim í lok umræðu.