Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. beindi til mín spurningu um það hvort lántökuskattur yrði tekinn af sérstökum erlendum lánum Byggðastofnunar vegna skipaviðgerða hér á landi. Ég get vel staðfest það enn á ný að ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma eins og hv. þm. er vel kunnugt að þessi skattur yrði ekki á lagður, enda væri um að ræða skipaviðgerðir samkvæmt áætlun þeirri sem ríkisstjórnin og stjórn Byggðastofnunar hafa samþykkt og varðaði þetta ár. Um það ætla ég ekki að segja fleira og furða mig nú reyndar á því að hv. þm. skyldi inna í fjórða sinn eftir sama máli.
    Ég kem þá að spurningum sem hv. 7. þm. Reykn. beindi hér til mín. Það var í fyrsta lagi hvort sú endurskoðun á stimpilgjöldum eða lögum um stimpilgjöld sem ríkisstjórnin ráðgerir og frá er skýrt í bréfi hennar til samtaka vinnuveitenda frá 30. apríl sl. mundi taka til stimpilgjalda af hlutabréfum. Ég tel að sú endurskoðun sem þarna er fram undan eigi að gera það, sérstaklega af því að ég tel að það sé keppikefli til þess að bæta virkni fjármagnsmarkaðarins á Íslandi að greiða fyrir sparnaði í mynd hlutabréfa hjá sem flestum. Eitt af því sem stuðlað gæti að því er að lækka stimpilgjöldin af hlutabréfunum. Það er að vísu smámál í heildardæminu, en þó eitt af því sem vert væri á að líta.
    Í öðru lagi beindi hv. þm. þeirri spurningu til mín hversu lengi Norðmönnum ætti að haldast uppi að borga niður skipasmíðarnar um fimmtung og það væri að ganga af íslenskum skipasmíðaiðnaði dauðum. Ég er að vísu ekki alveg sammála hv. þm. um hvernig spurningin er upp sett. Að vísu get ég alls ekki svarað því hversu lengi Norðmenn munu halda áfram að borga niður skipasmíðarnar. Þeir hafa ítrekað lýst því yfir að þeir ætli að hætta við það. Síðast er það gert í fjárhagsáætlunum norsku stjórnarinnar fyrir þetta ár. Ég hygg að að því dragi senn að þeir láti af því. Hins vegar er ég alls ekki sammála þingmanninum um það að þetta sé orsakavaldurinn um erfiðleika í okkar skipaiðnaði. Hann á sér fyrst og fremst rætur í sveiflum í sjávarútveginum og ég held að það sé nú að rofa til þótt vissulega sé það rétt að við glímum þar við margvíslegan vanda, ekki síst þann að framboð á dráttarbrautaþjónustu til skipaviðgerða er miklu meira en þörfin er fyrir þá þjónustu. Þetta á sér djúpar rætur, fjárfestingu sem teygist yfir langt tímabil. Þetta er kannski það sem er erfiðast. En um þetta er einmitt fjallað í ítarlegri skýrslu um vanda skipaiðnaðarins sem iðnrn. hefur látið semja í samvinnu við samtök iðnaðarins og sjóða hans. Þetta mun senn sent öllum þingmönnum og ég vona að þá verði sumum af þeim spurningum svarað sem hv. 7. þm. Reykn. hefur hér margsinnis hreyft og eiga hér fyllilega rétt á sér, en þar er mjög mikilvægt að menn komi sér niður á sameiginlegan málefnagrundvöll.
    Ég tel það ekki rétta lýsingu hjá hv. þm. að stjórnvöld hafi jafnan sýnt iðnaðinum skilningsleysi. Það er að vísu spurning um hvað sé réttur skilningur

á því hvernig ríkið eigi að standa að því að glæða hér starfsemi, hvort það á að gerast með fyrirgreiðslu án fyrirhyggju eða með almennum starfsskilyrðum sem gerir starfsgreinunum fært að starfa með eðlilegum hætti. Um það geta menn jafnan deilt og ég vona að sú skýrsla sem ég nefndi um skipaiðnaðinn muni einmitt hjálpa okkur að draga þessa markalínu á réttum stað.
    Þá kem ég að spurningum hv. 8. þm. Reykv., þeim sem hann beindi til mín. Ég á von á því að starfandi forsrh. muni svara þeirri almennu spurningu sem til ríkisstjórnarinnar var beint um stöðuna í kjaramálunum og hvað ríkisstjórnin hygðist fyrir í því, enda mun von á sérstakri umræðu um það mál í þinginu nú á næstunni þannig að ég spara mér að tala um það mál. Hv. þm. spurði hversu mikið gengið hefði breyst frá því að sú ríkisstjórn tók við völdum sem nú starfar, en það var 28. september 1988. Svarið er að 28. september var gengið fellt um 3% á grundvelli heimildar til Seðlabankans sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafði samþykkt um vorið. 3. janúar var gengið svo lækkað um 4,9%, 7. febrúar um 2,5 og 10. maí, þ.e. í dag, um 1,5%. Auk þess nýtti Seðlabankinn sér heimild sem hann hafði til gengissigs á tímabilinu frá 15. febr. til 3. mars, samtals 2,25%. Þegar þetta er dregið saman hefur gengið breyst um 13,4% til lækkunar. Ég tel með þessi 3% í byrjun. Þau tel ég reyndar vera arf frá fyrri stjórn þannig að hér er í sléttum tölum um 10% að ræða.
    Ég ætla ekkert að segja fleira um þetta. Raungengið hefur ekki lækkað alveg jafnmikið og þessar tölur benda til. Það er að vísu síbreytileg stærð sem er háð bæði verðbreytingum hér á landi og erlendis, en ég ætla að raungengið hafi breyst á þessu tímabili einhvers staðar á bilinu 6--8%. Það er veruleg breyting og að mínum dómi alveg nauðsynleg breyting og ég ætla ekki að segja fleira um það, bendi þó á að þessar gengisbreytingar í nokkrum áföngum hafa að mínu áliti gefið góða raun og skilað leiðréttingu á starfsskilyrðum útflutnings- og samkeppnisgreina án þess að ýfa verðbólguöldurnar allt of mikið, en um það má náttúrlega lengi deila hvað sé hæfilegt í þessu efni.
    Hv. þm. innti mig líka eftir því hvort tiltekin spá hæstv. fjmrh. um greiðslustöðu og efnahag fyrirtækjasamtaka hér í landinu væri líkleg til að rætast. Ég ætla ekki að hafa um það mörg orð. Ég vil alls ekki gera lítið úr
spádómsgáfu fjmrh. hvorki í þessu efni né öðru en hef ekki forsendur til þess að staðfesta eða hafna þeirri spá. Ég vona reyndar að hún standist ekki.
    Í þriðja lagi spurði hv. þm. hversu mikið hefði verið tekið til baka af umsömdum launabreytingum með gengisbreytingunni í morgun sem var 1,5%. Það er fljótgert að svara því, að kaupið var hækkað um 4,5--5% með 1. maí-samningunum. Líkleg verðbreytingaráhrif af 1,5% gengisbreytingu eru svona 0,5% eftir nokkrar vikur. Ég hygg að fáum hafi komið þetta á óvart og sérstaklega ekki því fólki sem

starfar í undirstöðugreinunum sem veit að það þurfti að tryggja þessum greinum viðunandi stöðu og þetta er skref í þá átt.
    Síðast innti hv. þm. eftir því hvort líkur væru til þess að greiðsluafgangur yrði hjá ríkissjóði á þessu ári og hvort í gildi væru spár um það efni frá því í vetur. Ég býst við því að líkur séu heldur litlar á því að það verði greiðsluafgangur á þessu ári. Þó vil ég alls ekki taka undir það með hv. þm. að ekki hafi verið nauðsyn að styrkja tekjuhlið ríkissjóðs. Þvert á móti tel ég að það hafi verið óhjákvæmilegt. Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þm. að fari svo að að kreppi og úr atvinnu dragi svo að um munar, sem ég sé þó ekki líkur til, er hægt að sætta sig við greiðsluhalla á ríkissjóði. Sem betur fer árar alls ekki á þann hátt sem skilja hefði mátt á orðum hv. þm. þegar hann sagði að nú væri kreppa og stórfellt atvinnuleysi. Það tel ég vera gáleysi í orðavali þegar maður lítur á ástandið á Íslandi eins og það er í dag. Sem betur fer er þetta ekki rétt lýsing á stöðunni í þjóðarbúinu.