Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsnm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. sjútvrh. er kjaradeilan við háskólamenntaða menn í miklum hnút og maður hlýtur að spyrja að því hvernig á því megi standa að sú mikla harka hefur hlaupið í þá kjaradeilu sem raun ber vitni og er óhjákvæmilegt síðar meir að fara ofan í þau mál og rekja það frá degi til dags, frá einni stund til annarrar hversu það mátti verða að sú mikla tortryggni skyldi hafa risið í hópi opinberra starfsmanna sem veldur því að þessi deila er að verða að einhverri mestu kreppu sem við munum eftir í kjaramálum og, eins og hæstv. sjútvrh. sagði, grípur inn á fjölmörg svið þjóðfélagsins, bæði atvinnumálin en þó miklu fremur, sem er auðvitað miklu alvarlegra, inn á skólamálin og heilbrigðismálin og skal ég ekki gera það að umræðuefni nú þar sem þau mál verða almennt tekin til umræðu á morgun.
    Ég er alveg sammála hæstv. iðnrh. um að það eru hin almennu starfsskilyrði skipasmíðaiðnaðarins sem mestu skipta og auðvitað vitum við að þegar hin almennu starfsskilyrði eru metin er gengisákvörðunin engin afgangsstærð. Það er deginum ljósara. Ég held að það sé líka alveg ljóst að þau almennu starfsskilyrði sem skipasmíðaiðnaðurinn á nú við að búa eru svo þröng að óhugsandi er að iðnaðurinn geti risið undir því að halli þar á ógæfuhliðina. Ef orð hæstv. iðnrh. eru skilin eins og þau voru sögð fela þau það í sér að gengi krónunnar hlýtur að hækka sem svarar launahækkunum á þessum tíma því gengi krónunnar mun hækka um 10% eða svo á samningstímabilinu sem er raunar sú sama niðurstaða og komist er að ef reynt er að meta starfsskilyrði og samkeppnisstöðu sjávarútvegsins.
    Ég skil vel að hæstv. sjútvrh. skuli ekki treysta sér á þessari stundu til að gefa yfirlýsingar um frekari gengisfellingar en þegar hafa verið ákveðnar. Tæp 4% gengisfelling er þegar ákveðin. Það vakti sérstaka athygli mína að hæstv. sjútvrh. skuli meta það svo að ekki hafi verið brotið samkomulag við aðila vinnumarkaðarins með þeim gengisbreytingum sem orðið hafa. Hann rökstuddi það með því og raunar einnig hæstv. iðnrh. að mönnum mátti vera það ljóst að til slíkrar gengisbreytingar hlyti að koma. Þessu get ég verið alveg sammála. En þá vaknar líka spurningin um það, ef svo er, hvort ekki megi rekja þær gengisbreytingar sem gera verður og yfirvofandi eru til þess samnings sem ríkisstjórnin gerði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. hafa í rauninni báðir staðfest með orðum sínum hér áðan að þær gengisbreytingar sem nú eru að ganga yfir í þjóðfélaginu og sú verðhækkunarskriða sem óhjákvæmilega gengur samtímis yfir er bein afleiðing af BSRB-samningnum. Þetta er kjarninn í því sem þessir tveir hæstv. ráðherrar sögðu og skýrir með mörgum hætti þær miklu ógöngur sem við erum nú í, en afsakar með engum hætti utanför hæstv. forsrh. nema, eins og ég sagði áðan, hann verði svo elskulegur þegar heim kemur að gera okkur grein fyrir

því hvaða gagn hann hafi gert þjóðinni með því að skreppa yfir Atlantshafið til vina sinna austan járntjaldsins sem mér skilst að Framsfl. standi í sérstöku vináttusambandi við.
    Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf í sambandi við Verðjöfnunarsjóðinn. Þessi yfirlýsing hans jafngildir því að ekki er ætlunin að Verðjöfnunarsjóðurinn endurgreiði þær 400 millj. sem frv. felur þó í sér að hann skuli taka að láni með ríkisábyrgð. Við höfum frá tíð annarrar vinstri stjórnar í Ríkisábyrgðasjóði annan slíkan minjagrip, það er lán sem tekið var vegna loðnunnar á sínum tíma, og við munum sjá eftir þrjú ár tvær þvílíkar skuldir til viðbótar á mismunandi tíma vegna frysta fisksins og hörpudisksins nema, sem auðvitað væri miklu einfaldara, að þetta lán verði tekið af ríkissjóði sjálfum sem er hinn raunverulegi lántakandi en ekki Verðjöfnunarsjóðurinn.
    Ég get ekki fagnað því að Fiskveiðasjóður skuli ekki gefa svar varðandi Hlutabréfasjóðinn fyrr en í næstu viku. Það er þó betra að sjá fram úr því, það er þó betra að vita að einhver tímasetning er komin á það hvenær Fiskveiðasjóður gefur hlutafjársjóðnum svar. Það er hálfönugt að senda þingið heim áður en fyrir liggur að Hlutabréfasjóðurinn komi yfirleitt að haldi þar sem hann hefur verið þungamiðjan í sjávarútvegsumræðunni undanfarið hjá hæstv. forsrh. og væri þess vegna mjög ánægjulegt fyrir hann ef í ljós kæmi þegar hann slítur þinginu að lögin um Hlutafjársjóðinn skipta einhverju máli. En við sjáum hvað setur í þeim efnum.
    Ég hygg að það hafi verið af vangá sem hæstv. sjútvrh. vék ekki að þeim alvarlegu horfum sem eru í atvinnumálum í ýmsum sjávarplásssum, einkum á hausti komanda, sem auðvitað gefa fullkomið tilefni til þess að tala um atvinnukreppu hér á landi. Sömuleiðis verð ég að segja að það er fullkomin ástæða til að tala um atvinnukreppu þegar maður hugleiðir hvernig ástandið verður í sumar hjá nemendum eftir þeim upplýsingum sem hafa komið fram í fjölmiðlum um ástandið þar. Auðvitað horfum við fram á miklu meiri erfiðleika á næstu mánuðum en við þorum að gera okkur grein fyrir á þessari stundu. Þeir erfiðleikar eiga að sumu leyti rót sína að rekja til efnahagsstefnunnar sjálfrar, rót sína að rekja til þess að t.d. sjávarútvegurinn gefur ekki
jafnmikið af sér og áður, en að sumu leyti eiga þessir erfiðleikar rót sína að rekja til þess að þjóðin treystir ekki þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Þessi ríkisstjórn verkar letjandi á atvinnureksturinn. Menn hafa ekki sama kraft í sér og áður til að grípa til eða fara út í nýjar framkvæmdir, ráðast í ný verkefni eins og glöggt kemur fram ef maður les yfir þær upplýsingar sem komið hafa fram m.a. í fjh.- og viðskn. um lánsbeiðnir í fjárfestingarlánasjóðum t.d. iðnaðarins. Þar er mikil breyting á frá sl. ári og hún verður ekki rakin til annars en þess að það ríkir meiri bölsýni en áður í þeirri atvinnugrein, enda kom það fram hjá Ólafi Davíðssyni á fundum í nefndinni. Aðspurður sagði hann að markaðshlutdeild íslensks iðnaðar færi

enn minnkandi.
    Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þessi mál. Ég skildi hæstv. sjútvrh. svo að sjávarútvegurinn gæti treyst því að það yrðu gerðar ráðstafanir til þess á næstu vikum að sjávarútvegurinn hefði viðunandi samkeppnisstöðu. Það þýðir á mæltu máli að nauðsynlegar lagfæringar á gengi verða gerðar fyrir mitt sumar vil ég segja en ekki fyrir haustdaga þannig að staða sjávarútvegsins verði viðunandi á þessu ári. Ég skildi hæstv. sjútvrh. svo að hann vildi við þetta standa og vonast til þess að hann hafi kraft í sér til að knýja samstarfsflokka sína til þess að fylgja sér eftir.
    Annars er það nú svo um okkar ágæta sjútvrh. að hann gerir oft mjög glögga grein fyrir málefnum sjávarútvegsins í þinginu og maður ætlar af þeim sökum kannski allt of oft að fram undan séu einhverjar þær ráðstafanir sem muni snúa dæminu við, en síðan þegar upplýsingar koma og maður fer að tala við einstaka menn úti í greininni, í fiskvinnslunni eða útgerðinni, eru svörin þau sömu að því miður sé reksturinn áfram fyrir neðan núllið, áfram halli og vafalaust er skammt í að allt eigið fé í sjávarútvegi verði upp urið ef marka má þær stóryrtu yfirlýsingar sem hæstv. forsrh. gaf á Alþingi í febrúarmánuði sl.
    Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess, herra forseti, að ræða þetta mál frekar. Ég hafði pínulítið gaman af því þegar hæstv. viðskrh. talaði um að 3% gengisfellingin í septembermánuði hefði verið heimiluð á grundvelli þeirrar gömlu heimildar sem gamla ríkisstjórnin hefði gefið, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Við töldum það sjálfstæðismenn og ég veit ekki betur en sumir framsóknarmenn hafi talið í þeirri ríkisstjórn að nauðsynlegt hafi verið að sú leiðrétting kæmi miklu fyrr, t.d. í júlímánuði, en einhverra hluta vegna stóð Alþfl. á móti því og í þeim síðustu efnahagstillögum sem Alþfl. lagði fram í þeirri ríkisstjórn var ekki minnst einu einasta orði á nauðsyn gengisbreytingar. (Gripið fram í.) Ég verð að minna hæstv. iðnrh. á að það var Alþfl. sem kom í veg fyrir að sú gengisleiðrétting yrði gerð.
    Það er kannski ástæða til þess að fara ofurlítið ofan í þessi mál. Ég hafði að vísu hugsað mér að gera það ekki fyrr en hæstv. forsrh. kæmi til landsins og skal ekki eyða mjög mörgum orðum í það. Ég hef ekki í mínum höndum af þeim sökum minnisblöð mín í þeirri röð sem rétt væri til þess að svara hæstv. iðnrh.
    Herra forseti. Ég held að hann viti það, hæstv. viðskrh., og ætti a.m.k. að hafa reynslu af því meðan hann var í sínu fyrra starfi, að það getur verið mjög örlagaríkt ef forsrh. lýsir því yfir að gengisfelling sé ákveðin á næstu dögum, hvort sem sú gengisfelling er 3%, eitthvað meiri eða eitthvað minni. Ég hygg að hæstv. viðskrh. hefði ekki látið í ljós ánægju sína yfir því að Þorsteinn Pálsson hefði með þeim hætti skýrt fyrir þjóðinni þann djúpa ágreining sem var milli Sjálfstfl. og Alþfl. í þeirri ríkisstjórn. En aðeins til að sýna þessum ágæta fulltrúa Alþfl. hér við hvers konar menn var að eiga í þeirri ríkisstjórn, hvaða menn það

voru sem við áttum þá í höggi við, skal ég lesa hér upp smákafla úr ræðu þáv. hæstv. fjmrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,,,Það vissu það allir að gengisfelling kallaði á aukna verðbólgu. Ég sagði það skilmerkilega að 15% gengisfelling kallaði á 50% verðbólgu. Var ekki verið að óska eftir gengisfellingu? Nú eru það sömu aðilar sem standa frammi fyrir afleiðingunum og þeir eru strax farnir að óska eftir frekari gengisfellingu,,, sagði Jón Baldvin. Sagði hann að það væru engar töfraformúlur í þessum efnum og ríkisstjórnin væri ekki að ræða neinar sérstakar efnahagsaðgerðir þessa stundina. ,,Verkefni stjórnarinnar er núna að sjá til þess að ríkissjóður sé rekinn með tekjuafgangi og að stunda aðhaldssama peningapólitík, það er strategía gegn verðbólgu,,, sagði ráðherra.``
    Við vitum nú síðan hvernig honum gekk blessuðum að passa ríkiskassann og hvernig ,,strategían`` gekk upp hjá Alþfl. --- Síðan segir enn þá af formanni Alþfl.:
    ,,Sagði hann jafnframt að gengisfellingar væru ekki efnahagsaðgerð heldur dóp eins og sannast hefði við ítrekaðar gengisfellingar á árinu. Nú ættu mörg fyrirtæki í verulegum erfiðleikum vegna gengisfellingarinnar en þó sérstaklega þau sem væru mjög skuldug.``
    Þetta sagði formaður Alþfl. 27. júní. Og hæstv. viðskrh. hefur aldrei svo ég muni gert opinberan ágreining við formann sinn um stefnuna í efnahagsmálum. Það liggur því beint við að ætla að á þessum tíma hafi hæstv. viðskrh. verið sammála formanni sínum um það að gengisfelling væri dóp. En hvað skyldu nú
þessir tveir nafnar hafa fellt gengið oft eftir að þeir mynduðu nýja stjórn og nú með Alþb.? Hann var að rifja það upp áðan, viðskrh., í svari til hv. 8. þm. Reykv. Hvað skyldi það hafa verið oft? Það er búið að fella það fjórum sinnum, er það ekki? Svo er búið að leyfa gengisaðhald einu sinni eða gengissig og svo kalla þeir það aftur gengisaðhald og gengissig núna, það er 2,25% ofan á 1,5. --- Nei, 13,4%. Og hér segir formaður Alþfl. að 15% gengisfelling kalli á 50% verðbólgu.
    Hæstv. viðskrh. segir aftur núna að 3% gengisfellingin í septembermánuði hafi verið gerð á grundvelli samþykktar ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Nú veit hæstv. viðskrh. að þessi orð eru ósönn. Hæstv. viðskrh. veit að Seðlabankinn neitaði að fella gengið um 3% á grundvelli efnahagsstefnu ríkisstjórnar sem var búin að segja af sér. Og hæstv. viðskrh. veit að gengisfellingin í september var gerð á grundvelli samþykktar og samkvæmt stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hann var þá nýsestur í sem viðskrh., sem yfirmaður gengismála. Það getur vel verið að hæstv. viðskrh. þyki gott að geta einhvern veginn deilt ábyrgðinni af þessari 3% gengisfellingu með öðrum vegna þess að hann gaf út það álit fyrir Alþfl. nokkrum dögum áður að óþarfi væri að fella gengið í raun og veru þar sem hann tíundaði þar ýmis atriði í efnahagsmálum þar sem hvergi var minnst á

gengisfellingu og þar sem önnur markmið í þeim efnahagstillögum voru þess eðlis að augljóst var að gengisfelling gæti ekki rúmast innan þeirra. Um þetta er ég reiðubúinn að tala við þennan hæstv. ráðherra lengi nætur.
    Hæstv. ráðherra hefur líka sagt meira í sambandi við gengisfellingar. T.d. ef við förum aftur í gengisfellingarnar í maímánuði. Þá töldum við sjálfstæðismenn að nauðsynlegt væri að gera hliðarráðstafanir vegna þess að svo góð sem gengisfelling er kemur hún ekki að fullum notum án hliðarráðstafana. En hvað sagði hæstv. viðskrh. um það 17. maí? Með leyfi hæstv. forseta, tilvitnun í Morgunblaðið:
    ,,Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að ríkisstjórnin hafi tekið skynsamlega á málum miðað við aðstæður með því að fresta hliðaraðgerðum vegna gengisfellingarinnar og leita eftir viðræðum við aðila vinnumarkaðarins.``
    Í þessu voru m.a. fólgnir erfiðleikar ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, að samstarfsmenn okkar lýstu yfir bara eftir því hvernig lá á þeim hinu og þessu um eðli efnahagsmála, um ástæður í atvinnulífinu og um það hvernig ætti að bregðast við vanda sjávarútvegsins og vanda atvinnulífsins yfir höfuð að tala. Ég fullyrði að ég þurfi ekki aðstoð eða hjálp hæstv. viðskrh. til að finna þau orð eftir honum höfð að gengisfelling ein og sér án hliðarráðstafana sé hálfgert kák. Ég fullyrði að hæstv. viðskrh. hefur látið þau orð falla, lagt áherslu á að einn þáttur í slíkum efnahagsaðgerðum hlyti að vera hliðarráðstafanir. En í maímánuði var því ekki að heilsa að við sjálfstæðismenn gætum fengið einhvern hljómgrunn, einhvern grunn fyrir umræðum af því tagi við Alþfl. Það gekk ekki. En hitt hefur alltaf gengið upp hjá Alþfl. að finna nýjar og nýjar skýringar til að geta kennt öðrum mönnum um. Og auðvitað er það sagt gegn betri vitund af hæstv. viðskrh. hér í deildinni að halda því fram að formaður Sjálfstfl. hafi ekki verið reiðubúinn að leiðrétta gengi krónunnar sumarið 1988 og ég fullyrði og ég skora á hæstv. viðskrh. að viðhafa þessi ummæli í þeirri þingdeild sem formaður Sjálfstfl. á sæti. Það er mjög auðvelt hér í Ed., vegna þess að enginn af fyrrv. ráðherrum Sjálfstfl. á sæti í þessari deild, að koma með alls konar sögur af einkaviðræðum af ríkisstjórnarfundum og af ýmsu öðru í síðustu ríkisstjórn. Það er mjög auðvelt, en það hefur áður komið fyrir hæstv. ráðherra að það hafa verið sagðar sögur af viðskiptum manna þar og upp úr stendur að Sjálfstfl. var á þeim tíma reiðubúinn að taka miklu fyrr á efnahagsmálunum en gert var.
    Hitt er rétt, sem hæstv. viðskrh. sagði, að Sjálfstfl. varð að síðustu að setja það sem tímamark að í efnahagsaðgerðir yrði ráðist ekki síðar en 1. sept. 1988. Það er líka rétt að Sjálfstfl., ég veit ekki hver lagði það til, komst að þeirri niðurstöðu með Alþfl. og Framsfl. að það væri skynsamlegt að skipa nefnd mönnum úr atvinnulífinu til að leggja á ráðin um það hvernig ætti að bregðast við vanda atvinnulífsins. Þetta er rétt. Og ég veit ekki betur en um þetta hafi verið

fullkomið samkomulag milli þeirra stjórnarflokka sem þá voru.
    Það lýsir á hinn bóginn betur en margt annað yfirboðum bæði ráðherra Framsfl. og ráðherra Alþfl. að þeir skuli á sl. hausti hafa þóst gera það að sérstöku stjórnarslitamáli við Sjálfstfl. að Sjálfstfl. væri ekki reiðubúinn að gleypa tillögur forstjóranefndarinnar og ganga að þeim tillögum sem þá voru lagðar fram um niðurfærslur á kaupgjaldi. En hvaða maður var það nú sem fyrstur kvað upp úr um það að ekki væri hægt að ganga að þessum tillögum? Hvaða ráðherra var það sem lýsti því yfir við fulltrúa Alþýðusambandsins að það kæmi til greina að ganga ekki að þeim tillögum? Var það ekki ráðherra Alþfl. sem síðar meir þóttist vera heilagur í þessum efnum? Það hefur raunar verið upplýst af hæstv. forsrh. þó seint sé að hann hafi ekki mátt vera að því að taka alvarlega á málum í septemberbyrjun og lok ágúst sl. vegna þess að
hann hafi þá staðið í stjórnarmyndunarviðræðum nýjum. Og hvar kom þetta fyrst á prent? Það kom fyrst á prent í Alþýðublaðinu. Blaðamaður Alþýðublaðsins lýsti því yfir að ráðherrar Alþfl. hefðu átt í samningamakki við Alþb. um myndun ríkisstjórnar sömu dagana og ráðherrar Alþfl. þóttust vera að tala um það við ráðherra Sjálfstfl. hvernig ætti að bregðast við vandanum. Á þeim tíma, í septembermánuði og í októbermánuði, urðu ýmsir til þess að trúa því að þetta væri ekki satt vegna þess að bæði formaður Alþfl. og formaður Framsfl. lýstu því þá yfir að þetta væru ómagaorð, þvættingur í blaðamanni Alþýðublaðsins. En síðan undir allt, allt öðrum kringumstæðum þegar allt annað mál kom til umræðu, þegar farið var að ræða heræfingar Atlantshafsbandalagsins, kom ljós hjá forsrh. þegar hann sagði: Já, það var þegar ég var byrjaður að mynda nýja ríkisstjórn. --- Það var í lok ágúst þegar hann og kratarnir og kommarnir voru á bak við Sjálfstfl. að mynda þá ríkisstjórn sem nú situr að völdum. Þá þóttist hæstv. viðskrh. vilja fara niðurfærsluleiðina. Rétt áðan reyndi hann að kenna Sjálfstfl. um þá gengisfellingu sem hann gaf fyrirmæli um sem viðskrh. í nýrri ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Ég vildi gengisfellingu, en hæstv. ráðherra sagði að hennar væri ekki þörf og reynir að tala um að aðrir beri á henni ábyrgð. Og hvað gerir hann síðan? Hann fellir gengið. Hann beitir sér fyrir margvíslegum ráðstöfunum um síðustu áramót sem allar lúta að því að hækka vöruverð í landinu, eru verðbólguhvetjandi, hver ráðstöfunin á fætur annarri. Og hvernig er svo þróunin áfram? Hvernig var ástandið í aprílmánuði? Hann lýsti því yfir áðan, hæstv. sjútvrh. lýsti líka yfir áðan, að það hefðu allir átt að sjá það og ekki síst fólkið í útflutningsatvinnuvegunum að samningarnir sem gerðir voru á hinum almenna vinnumarkaði mundu leiða til breytinga á genginu, sögðu það báðir. Sögðu báðir að kjarasamningur Ólafs Ragnars Grímssonar hefði verið kjarasamningur um gengisfellingu, báðir tveir. En hvernig stóð nú á því þegar þeir voru búnir að ná tökunum á

efnahagsmálunum eins og þeir voru alltaf að tala um? Af hverju var ekki gripið til niðurfærslunnar þá í apríl? Af hverju var ekki nú gert eitthvað í þá áttina? Af hverju var ekki vöruverðið lækkað? Af hverju var ekki reynt að koma þeim megin að því núna? Af hverju er aldrei talað um það núna að það komi til greina niðurfærsla? Var engin alvara á bak við það eða stendur á Alþb.? Hefur Alþb. hafnað niðurfærsluleiðinni svona gjörsamlega í þessari ríkisstjórn að hvorki ráðherrar Alþfl. né ráðherrar Framsfl. hafa þorað í eitt einasta skipti allan þennan tíma að segja eitt einasta orð um niðurfærslu, hækka skatta, hækka vörugjald, en hvar er niðurfærslan? Hvergi. Og hvað á að fella gengið oft núna? Hvað var gengissigið mikið eftir gengisfellinguna eftir áramótin? Nú er búið að fella gengið og er ekki gengissigið helmingi meira? Og var ekki iðnrh. að segja áðan að það væru hin almennu starfsskilyrði sem skiptu máli í skipasmíðaiðnaðinum og var hann ekki að lofa hv. 7. þm. Reykn. að það væru batnandi dagar í skipasmíðaiðnaðinum, brosleit framtíð? Og hvernig á að laga almenn starfsskilyrði í skipasmíðaiðnaði nema með því að gera innlenda skipasmíðaiðnaðinn samkeppnisfæran hvað varðar vinnuafl? Að innlendi iðnaðurinn sé ekki of dýru verði keyptur, með öðrum orðum að gengi krónunnar sé rétt skráð. Hvernig er það öðruvísi hægt? Það er auðvitað ekki hægt með neinum öðrum hætti. Og að því gefna tilefni að þessi ágæti ráðherra fór áðan að tala um að Sjálfstfl. hafi á síðasta sumri ekki verið reiðubúinn að gera aðgerðir fyrir sjávarútveginn gegn betri vitund, kemur með það hér í þessa hv. deild, þar sem formaður Sjálfstfl. á ekki sæti, hvernig væri þá í framhaldi af þessu, hæstv. sjútvrh., að ég gangi eftir því og ég spyrji um það: Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við þeim samdrætti í atvinnu sem fyrirsjáanlegur er á næsta hausti í sjávarplássunum víðs vegar um landið? Hvað á að gera? Ég þykist vita að hæstv. sjútvrh. treysti sér ekki til þess að gefa rýmri heimildir fyrir þorskkvóta. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. jafnframt og bið nú afsökunar, hæstv. forseti, að ég gleymdi því áðan, en það er sennilega vegna þess hvað Steingrímur er langt í burtu: Hvað líður vinnu við það að veita sérstakar aukafjárveitingar til verklegra framkvæmda til að halda uppi sumarvinnu og atvinnustigi hér á landi eins og hæstv. forsrh. yfirlýsti að gert yrði í Sþ. fyrir skömmu? Hefur þetta verið rætt í ríkisstjórninni og hvar er þetta mál statt? Kemur t.d. til greina í þeim sjávarplássum þar sem kannski enginn afli eða lítill berst á land fyrirsjáanlega að athuga um það að flýta opinberum framkvæmdum á þvílíkum stöðum? Það væri mjög gott að fá upplýsingar um það hvar þetta mál stendur, mjög hollt og gott.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég veit ekki hvort mér er óhætt að segja það, en ef maður á að taka mark á því að gengisfellingar séu dóp og ef maður verður um leið að viðurkenna að það sé hæstv. viðskrh. sem gefur línuna með gengisfellingarnar og gengissigið, þá hlýtur maður bráðum að fara að velta

því fyrir sér hvort viðskrh. sem þvílíkt gerir sé þá dópisti að mati formanns Alþfl.