Jarðræktarlög
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. landbn. (Jón Helgason):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til l. um breytingu á jarðræktarlögum nr. 56 30. mars 1987 frá landbn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á nokkrum fundum. Nefndin mætti ásamt landbn. Nd. á aukafund búnaðarþings og fylgdist þar með umræðum, en síðan komu á fund landbn. Ed. Bjarni Guðráðsson í Nesi, sem er formaður jarðræktarnefndar búnaðarþings, Magnús Sigurðsson á Gilsbakka, sem er stjórnarmaður Búnaðarfélags Íslands og Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri.
    Að lokinni athugun og viðræðum við áðurgreinda aðila hefur orðið samkomulag í nefndinni um að leggja fram allmiklar breytingar við frv. sem ég mun nú fara lauslega yfir.
    Við 1. gr. frv. er brtt. Í stað þess að jarðræktarframlög skuli greidd 6--7 vikum eftir að úttekt lýkur komi að framlög skuli greidd svo fljótt sem við verður komið eftir að úttekt lýkur. Hafi greiðsla vegna samþykktra framkvæmda eigi farið fram fyrir 1. nóvember á úttektarári skal framlag taka hækkunum mánaðarlega frá þeim tíma samkvæmt byggingarvísitölu. --- Þá segir enn fremur:
    ,,Framlög til grænfóðurræktar, kölkunar og endurræktunar, sem jarðræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands metur nauðsynlega vegna kals eða annarra ræktunaráfalla af völdum harðinda, skulu greidd í byrjun næsta árs eftir framkvæmd þótt ekki hafi verið sótt um þau fyrir fram.``
    Það er meginregla að sótt skuli um framlög fyrir fram, en þar sem í þessu tilviki hljóta framkvæmdir að verða vegna ófyrirsjáanlegra atvika verður þarna að gera undantekningar á. Hins vegar er þá ekki hægt að gera ráð fyrir þeim kostnaði við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár og þess vegna er óhjákvæmilegt að greiðsla geti dregist fram yfir næstu áramót, en þá kemur til ákvæði um hækkun samkvæmt byggingarvísitölu.
    Við 2. gr. frv. eru enn fremur allmiklar breytingar. Í fyrsta lagi er í sambandi við ræktun og framræslu farið eftir tillögum búnaðarþings um að setja hámark á framkvæmdir sem framlaga geta notið á hverju ári. Þar er um að ræða 2 milljónir rúmmetra vegna skurðgraftar og 500 km plógræslu á hverju ári og 2000 hektara af ræktun. Þarna er um að ræða miklu minni framkvæmdir á þessu sviði en voru árlega um langt skeið, enda er fyrst og fremst gert ráð fyrir að þarna verði um endurnýjun að ræða, hreinsun skurða og endurræktun túna. Hins vegar getur svo háttað til að það sé hagkvæmara að grafa nýjan skurð en hreinsa þann gamla eða að rækta nýtt land en að endurrækta það sem reynst hefur mjög illa og þess vegna eru heimildir til að styrkja slíkar nýframkvæmdir. Það verður þó að gerast með meðmælum Búnaðarfélags Íslands eftir úttekt héraðsráðunauta.
    Í sambandi við hreinsun skurða má geta þess að þess er vænst að senn verði flutt inn til landsins stórvirk tæki til þeirra nota sem munu verða miklu

afkastameiri en þau tæki sem hingað til hafa verið notuð og ættu þá um leið að lækka mjög kostnaðinn við þetta. Ávinning af því hafa að sjálfsögðu bæði bændur og þá ríkið þar sem heildarkostnaðurinn verður lægri.
    Með því að setja þetta þak er gert ráð fyrir því að möguleiki sé með reglugerð eða öðrum fyrirmælum að fela Búnaðarfélagi Íslands og búnaðarsamböndunum að annast úthlutun á þessum framlögum e.t.v. á einfaldari hátt en gert er ráð fyrir með aðrar framkvæmdir. En framlög til þessara framkvæmda sem og annarra í þessari grein eru lækkuð sem svarar 12% vegna þess ávinnings sem bændur hljóta að hafa af því að greiðsla fer nú fram á úttektarári eða með verðbótum frá 1. nóvember ef dráttur verður á greiðslu fram yfir þann tíma. Af þessum sökum eru framlög til framræslu nú 60% af kostnaði og framlög á hvern hektara ræktunar að sama skapi lækkuð um 12% frá núgildandi lögum. Það á síðan við um flestar aðrar stærðir í 2. gr. Undantekning mun þar vera framlög til kornræktar þar sem um nýrækt er að ræða.
    Þá er einnig í málsgreininni um tæki sem framlaga geta notið bætt inn losunarbúnaði í flatgryfjum sem er mjög nauðsynlegur þar og er þar skipað samhliða súgþurrkunarblásurum, kælivélum vegna garðávaxtageymsla og rafstreng sem lagður er sérstaklega í þessu skyni.
    Í 6. lið 2. gr. er nokkuð breytt ákvæði um framlög til vatnsveitu þar sem segir að fiskeldisbú skuli njóta ofangreinds framlags uppfylli eigendur þeirra skilyrði 8. gr. jarðræktarlaganna, en um þetta atriði hafa ekki verið nægjanlega skýr ákvæði í lögum hingað til og því nauðsynlegt að bæta því inn í.
    Þá vil ég að lokum geta breytingar á þessari grein sem lögð er til um framlög til skjólbeltaræktunar. Lagt er til að það orðist þannig að framlag nemi 66% af framlögðum kostnaði samþykktum af Búnaðarfélagi Íslands og 44% kostnaðar við nauðsynlegar girðingar vegna ræktunarinnar. Áður var miðað við kostnað vegna plöntukaupa eingöngu, en tækni hefur breyst mjög á síðustu árum í sambandi við þessa ræktun og því nauðsynlegt að taka tillit til þess þar sem nú er kostnaður við plöntukaup orðinn sáralítill eða jafnvel enginn fyrir bóndann ef hann klippir græðlinga af sínum eigin runnum.
    Í nál. landbn. er bent á að ein afleiðing af samdrætti í jarðræktarframlögum sem gert er ráð fyrir með þessu frv. í ræktun og skurðgreftri sé sú að m.a. muni tekjur búnaðarsambandanna sem hlutfall af þessum framlögum minnka. Þetta
hefur leitt til erfiðleika í rekstri sambandanna og mun gera það áfram ef ekki verður úr bætt. Nefndin ræddi ítarlega hvernig það mætti gera. Sú hugmynd kom fram í nefndinni að Stofnlánadeild landbúnaðarins greiddi 18 millj. kr. í þessu skyni sem að mestu leyti yrði skipt milli búnaðarsambandanna eftir sömu reglum og hlutur þeirra er í Búnaðarmálasjóði, en einnig væri nauðsynlegt að t.d. 3 millj. kr. yrði varið til sameiginlegra verkefna búnaðarsambandanna, en samvinnu þeirra er verið að auka á ýmsum sviðum og

taka upp nýjungar eins og t.d. í bókhaldi bænda. Hefur þegar verið veittur mikill stuðningur til að koma upp tækjum hjá búnaðarsamböndunum í þessu skyni, en síðan þarf að fá hentugan hugbúnað og fleira sem nauðsynlegt er til þess að það nýtist sem best sem búið er að gera nú þegar. Nefndin féll frá að setja sérstaka tillögu inn í þetta frv. um breytingu á jarðræktarlögunum eftir viðræður við landbrh. sem hann mun gera nánar grein fyrir hér á eftir.
    Með þeim breytingum sem ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir mælir landbn. eindregið með því að frv. verði samþykkt. Í nefndinni eru Skúli Alexandersson formaður, Guðrún Agnarsdóttir fundaskrifari, Jón Helgason, Valgerður Sverrisdóttir, Egill Jónsson, Karvel Pálmason og Þorv. Garðar Kristjánsson. Guðmundur Ágústsson sat fundi nefndarinnar og er einnig samþykkur þessu áliti.