Jarðræktarlög
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram í ræðum þeirra hv. 2. þm. Suðurl. og 4. þm. Austurl., að hér séu ánægjulegir hlutir að ske með því að öll hv. landbn. Ed. stendur að flutningi brtt. við frv. og að nál. Ég tel það mikilsvert fyrir landbúnaðinn, fyrir bændur landsins að pólitísk samstaða skuli hafa myndast um frv. þetta svo og um frv. um búfjárrækt. Ég held að það sé ekki hallað á neinn þó ég nefni að þeir hv. þm. sem ég nefndi hér áður hafi verið burðarásarnir í því að koma þessu máli á þann vettvang sem það er nú. Einnig vil ég ekki gera lítið úr hlut hæstv. landbrh. sem hefur staðið að þessu máli einhuga með okkur meðan við höfum verið að vinna að þessu máli í nefndinni og einnig aðstoðarmaður ráðherra, Álfhildur Ólafsdóttir. Ég þakka öllu þessu fólki, svo og öllum nefndarmönnum í landbn., fyrir ánægjulegt samstarf sem leitt hefur til þess árangurs sem hér blasir við.