Tilhögun þingfunda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Forseti (Hjörleifur Guttormsson):
    Forseti vill í upphafi fundar geta nokkurra atriða sem snerta þinghaldið í dag. Hér verður gengið til dagskrár og er hugmynd að víkja nokkuð frá þeirri tölusettu dagskrá sem fyrir liggur til að greiða fyrir störfum og í samræmi við samkomulag um viss atriði. Það er gert ráð fyrir fundi til kl. 16 og fyrir þann tíma munu fara fram væntanlegar atkvæðagreiðslur um samkomulagsmál. Þá er gert ráð fyrir að leita eftir samkomulagi við formenn þingflokka um að hafa þingflokksfundi í styttra lagi ef ásættanlegt er og hefja á ný fund í deildinni kl. 17, en frá þessu hefur ekki verið gengið við formenn þingflokka, og að framhald þingfundar verði hér milli kl. 17 og 19. Á þeim fundi fari fram atkvæðagreiðslur ef mál verða útrædd og á þessu stigi er rétt að gera ráð fyrir kvöldfundi þótt engar ákvarðanir eða samkomulag liggi fyrir um það enn sem komið er. Það er gert ráð fyrir að forsetar þingsins komi saman hugsanlega með formönnum þingflokka kl. 15 í dag þannig að að loknum þeim fundi verður hægt að greina nánar frá um það sem samkomulag kann að takast um í sambandi við framhald á störfum þingsins hér í dag a.m.k.