Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil gera hvert orð sem hæstv. fjmrh. sagði áðan að mínum um þetta mál. Verði þetta frumvarp samþykkt eiga innheimtumenn ríkissjóðs ekki annan kost en þann að ganga mun harðara fram í innheimtuaðgerðum gagnvart þessum gjöldum en þeir hafa gert áður. Það hefur verið gagnrýnt að innheimtumenn ríkissjóðs hafi e.t.v. séð um of í gegnum fingur sér við ýmis fyrirtæki og rekstraraðila sem ekki hafa staðið í skilum með þau gjöld sem innheimtumenn ríkissjóðs hafa átt að innheimta á réttum tíma. Það er vissulega rétt að ríkið hefur í undantekningartilvikum tapað einhverju fé á því. En það sem þó hefur gert innheimtumönnum ríkisins fært að reyna að líta til með fyrirtækjum sem eru í tímabundnum erfiðleikum og ganga ekki hart að fyrirtækjum sem eru kannski undirstöðuatvinnurekendur í litlum byggðarlögum hefur verið það að þær kröfur sem ríkissjóður hefur átt til þessara opinberu gjalda hafa verið forgangskröfur ef illa hefur gengið. Verði það hins vegar afnumið eiga innheimtumenn ríkissjóðs engan annan kost en þann að bregðast við því með því að ganga mjög hart fram til að innheimta þær kröfur sem ríkissjóður á og hefur ekki fengið greiddar á gjalddögum og skirrast þá ekkert við að loka fyrirtækjum sem ekki standa í skilum fljótlega eftir að skiladagur er liðinn án þess að taka e.t.v. það tillit sem menn hafa stundum reynt að taka til atvinnulífs á svæðinu og annarra aðstæðna.
    Ég held, virðulegur forseti, að það sé líka annað sem menn þyrftu að skoða nánar og það er það að við slíkar aðstæður er í hópi forgangskrafna aðeins sá hluti iðgjaldagreiðslna til lífeyrissjóða sem launþegi hefur greitt, sem tekið hefur verið af launum launþega. Sá hluti iðgjaldagreiðslunnar, í flestum tilvikum 6% af 10% sem atvinnurekendur greiða, er hins vegar ekki forgangskrafa á sama hátt. Þetta hefur orðið til þess að viðkomandi launþegar hafa í mörgum tilvikum glatað í fyrsta lagi mótframlagi atvinnurekanda sem hefði átt að ganga inn í lífeyrisgreiðslur þeirra vegna, jafnvel þó svo að fólkið hafi ekki glatað sínum 4% sem af því höfðu verið tekin. Þetta hefur haft þau áhrif m.a. að fólk hefur misst af lífeyrisréttindum sem það er búið að ávinna sér með vinnu sinni vegna þess að það fé sem atvinnurekandi hefur átt að standa skil á hefur glatast. Og menn skulu huga að því að það er ekki aðeins að þar hafi tapast lífeyrisréttur heldur er samkvæmt húsnæðislánakerfinu, því opinbera sem við búum við í dag, líka hætta á að sumt af þessu fólki glati lánsréttindum sínum til húsnæðislána, en það er gerð krafa um það í hinu opinbera húsnæðislánakerfi að til þess að menn fái greidd húsnæðislán hafi þeir verið borgandi félagsmenn í lífeyrissjóðum um ákveðinn tíma áður en um lánið er sótt og það hafið. Fólk á þess vegna á hættu að glata lífeyrisréttindum sínum og lánsréttindum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og sjóðum Húsnæðisstofnunar.
    Ég held að það væri réttara, virðulegi forseti, að hafa þá afgreiðslu á þessu frumvarpi að vísa því til

ríkisstjórnarinnar til nánari skoðunar, m.a. með tilliti til þess atriðis sem ég hef nú nefnt, og verði frumvarpið afgreitt þvert móti vonum mínum eftir 2. umr. með þeim hætti sem lagt er til mun ég leggja til við 3. umr. málsins að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar, m.a. með þeim rökstuðningi sem ég hef hér áður greint frá.