Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að hæstv. forseti skuli ætla að halda þessari umræðu áfram og skal ekki lengja hana um of. Reyndar hygg ég að ýmsir aðrir hafi flutt hér lengri ræður og þá sérstaklega hv. síðasti ræðumaður, hæstv. fjmrh., en besti kaflinn í hans ræðu var reyndar sá sem hann las eftir Lárus Ögmundsson, skrifstofustjóra fjmrn., og vissulega komu þar fram sjónarmið sem voru skiljanleg og þarf að taka tillit til.
    Það var einnig athyglisvert að heyra það hjá hæstv. fjmrh. þegar hann snupraði formann hv. fjh.- og viðskn., tók í hann eins og hvern annan óþekktarorm, hv. þm. Pál Pétursson, sem hafði ekki staðið sig í stykkinu, en ég ætla ekki að skipta mér frekar af því.
    Það er eitt atriði sem ég tel alveg nauðsynlegt að komi fram í þessari umræðu og þess vegna hef ég beðið um að fá að tala hér í annað sinn í þessari umræðu. Það er þetta: Ríkissjóður hefur ávallt litið á innheimtufé fyrirtækjanna sem fé í veltunni sem nýttist þar. Þetta kom fram í fyrsta lagi á sínum tíma þegar hugmyndir voru uppi um þóknun til þessara innheimtuaðila ríkissjóðs, þ.e. til fyrirtækjanna, og meira að segja sást það í frv. sem hv. þm. Ragnar Arnalds flutti á sínum tíma sem þáv. fjmrh. að ætlunin var að fyrirtækin fengju 3% af innheimtu. Frá því var fallið, m.a. vegna þess að það var álit fjmrn. og hefur ætíð verið álit þess að þessir fjármunir væru í veltunni og gegndu því hlutverki þar eins og aðrir fjármunir sem eru í veltu fyrirtækjanna.
    Annað atriði til merkis um þetta eru þær viðræður og sú niðurstaða sem hefur fengist á milli hæstv. fjmrh. og fyrirtækjanna um breytingar á gjalddaga söluskattsins. Þetta atriði sýnir að hæstv. fjmrh., ef ég skil niðurstöðuna rétt, fellst á það sjónarmið að fyrirtækin hafi ekki ætíð handbært það fé sem fyrirtækin eiga að hafa heimt inn af þeim sem eiga að skila sköttum til ríkissjóðs. ( Fjmrh.: Það er rangt skilið.) Það getur vel verið að það sé rangt skilið, a.m.k. að hæstv. ráðherra telji að það sé rangur skilningur, en eigi að síður er það staðreynd að fjmrn. hefur haft fullan skilning á að þessir fjármunir hafa verið í veltu fyrirtækjanna. Og þá kem ég að aðalatriði málsins.
    Fyrirtæki í smásölu, svo að maður stilli þessu upp í barnaskóladæmi, kaupir vöru af heildsölufyrirtæki á tilteknu verði. Ofan á þessa vöru leggst miklu meira en maður gat lesið í kennslubókum í barnaskóla, álagning smákaupmannsins, heldur einnig skattar o.s.frv. Smákaupmaðurinn sem selur þessa vöru er í raun, þegar hann fær vöruna greidda, að fá greitt ýmislegt, í fyrsta lagi sína þóknun fyrir að selja vöruna, í öðru lagi verðið sem átti að greiða heildsalanum og í þriðja lagi ýmsa skatta sem eiga að fara til ríkisins, þetta þrennt a.m.k. Þegar hæstv. fjmrh. segir nú að það sé skatturinn, sá hluti sem á að renna til ríkissjóðs sem eigi að hafa forgang umfram sjálft vöruverðið, verðið fyrir vöruna sjálfa sem á að fara til heildsalans, finnst mér dálítið langt gengið. Það er nefnilega enginn eðlismunur á þessu. Þegar

smásalinn er að selja sína vöru er hann, ef hann hefur fengið greiðslufrest hjá heildsalanum, að heimta inn vöuverð fyrir sjálfa vöruna sem hann á eftir að skila heildsalanum. Það sem hæstv. ráðherra er að segja hér: Skítt með heildsalann, skítt með iðnrekandann. En ég vil fá skattinn til mín strax í forgangskröfu. Jafnvel framleiðandi vörunnar, iðnrekandinn, við skulum hugsa okkur að þetta sé iðnrekandi, sem á eftir að fá greidda sjálfa vöruna sem verið er að selja og lánar kaupmanninum þessa vöru, á ekki einu sinni að fá kostnaðinn við að hafa framleitt vöruna sem hann er búinn að greiða, laun o.s.frv. o.s.frv., heldur á hann að vera aftar í röðinni en fulltrúi ríkisvaldsins, hæstv. ráðherra Ólafur Ragnar Grímsson, sem segir: Ég á að hafa forgang af því að smásalinn var að heimta inn skatt fyrir mig.
    Málið er ósköp einfaldlega að hæstv. ráðherra eins og margir ráðherrar á undan honum hafa falið kaupmanninum það óskemmtilega verk að innheimta skatta. Þeir hafa viðurkennt það mann fram af manni að þessir peningar megi vera í veltunni, alveg eins og iðnrekandinn, þegar hann lánar smásalanum vöruna sem hann framleiddi og ætlast auðvitað til þess að fá peningana til baka. Munurinn á iðnrekandanum annars vegar og hæstv. ráðherra hins vegar er að hæstv. ráðherra segir: Auðvitað á ég að fá í ríkissjóð mína peninga á undan hinum. Um það snýst þetta mál. Það hefur ekki minnstu þýðingu þegar við tölum um þetta svona að fara að segja að það sé búið að innheimta þessa peninga fyrir ríkissjóð af einhverju saklausu fólki. Iðnrekandinn er í návæmlega sömu stöðu. Hann segir: Það er búið að selja vöruna sem ég átti og ég fæ ekki greidda af því að ríkissjóður hefur forgang. ( Fjmrh.: Hvað um staðgreiðsluna?) Ég tók virðisaukann af því að hæstv. ráðherra ræddi sérstaklega um virðisaukann. Staðgreiðslan er líka hlutur launa sem verða til í fyrirtækinu.
    Ég ætla ekkert að fara frekar út í þetta mál. Ég vil bara benda á röklegu villurnar hjá hæstv. ráðherra þegar hann stillir þessu upp með þessum hætti.
    Auðvitað er það skiljanlegt að skrifstofustjóri fjmrn., jafnágætur maður og Lárus Ögmundsson er, segi frá því með þeim hætti sem stendur í bréfi hans. Það eru ákaflega skiljanlegar ástæður fyrir því. Mesta hættan er hins vegar sú ---
og ég ætla ekki að bera sakir á hæstv. ráðherra heldur ætla ég að benda á það, það kom fram hér í umræðunum, --- að ríkissjóður fari að leika sér með þessa peninga, fari að segja við fyrirtækin sem ekki hafa greitt: Við skulum halda hlífiskildi yfir ykkur í bili vegna þess að það er engin áhætta fyrir ríkissjóð. Í þessu felst stór hætta því að þannig getur ríkissjóður gert upp á milli fyrirtækjanna, þeirra sem skila skattinum rétt og strax og hinna sem eiga að fá svigrúm, yfirleitt á kostnað annarra kröfuhafa, annarra lánardrottna. Ef menn ætla að koma í veg fyrir skattsvik verða menn að nota önnur ráð en þessi.
    Ég ætla að lokum að segja að ég er feginn því að hæstv. ráðherra gersamlega breytti um tón í sínum ræðum. Hann byrjaði á því að belgja sig út um það

að nú ætluðu andstæðingar hans að fara að ræna hann vopnunum sem hann notaði gegn skattsvikum. Í síðari umræðunni hélt hann fram öðrum og betri rökum þótt þau rök væru ekki nægilega góð þegar hlutirnir eru skoðaðir ofan í kjölinn.
    Ég skora á hv. deild að afgreiða frv. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það er full ástæða til að skoða skiptalögin og þessi skattalög í sumar. Það getum við gert að þessum lögum samþykktum. Ég veit að hæstv. ráðherra, sem er manna duglegastur, vílar ekki fyrir sér að fá leyfi hæstv. samráðherra sinna til að útbúa frumvarp í sumar þannig að í haust liggi fyrir Alþingi frv. að lögum sem ganga enn lengra í átt til jafnræðis á milli kröfuhafa því að við viljum báðir tveir að ég held lifa í réttarríki þar sem réttur manna er jafn en ekki að sumir séu jafnari en aðrir.