Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Í þessari umræðu um frv. til breytinga á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda kom fram meiri háttar misskilningur hjá hæstv. fjmrh. Hann misskilur hlutverk sitt eina ferðina enn þá þegar um er að ræða spurningu um forgangsréttindi ríkissjóðs hjá skiptaráðanda varðandi skiptingu þrotabúa. Hæstv. fjmrh. ruglar saman fyrirtæki í eðlilegum rekstri og skattaskilum þess og síðan forgangsréttindum varðandi skipti á þrotabúum. Þetta eru tvennt aðskilið. Þetta eru tveir ólíkir hlutir vegna þess að þrotabú er ekki lengur fyrirtæki í eðlilegum rekstri heldur þrotabú hjá skiptaráðanda. Það er fyrirtæki sem hefur orðið gjaldþrota og verið tekið til skipta. Þetta eru tvö algjörlega ólík mál.
    Varðandi þau orð hæstv. fjmrh. að menn hafi leyft sér að nota annarra fjármagn og um ólögmæta auðgun verð ég að segja að mér finnst það koma úr hörðustu átt hjá hæstv. fjmrh. að tala um ólögmæta auðgun, manni sem stendur fyrir þeirri efnahagsstefnu sem rýrir eigin fé atvinnuveganna um þessar mundir ekki minna en um 500 millj. á mánuði og talar síðan um ólögmæta auðgun fyrirtækjanna sem eru fórnarlömb þessarar efnahagsstefnu. Þá er heldur betur búið að hafa endaskipti á hlutunum. Fórnarlömbin í þessari efnahagsstefnu, sem lenda hjá skiptaráðanda, eru ekki með neina ólögmæta auðgun. Þetta er ofsköttun. Það er verið að blóðmjólka kúna með ofsköttun eins og nú fer fram.
    Ég ítreka að það er algjör misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að halda því fram að ríkissjóður eigi að hafa forgang þegar um er að ræða skiptingu þrotabúa. Ég veit ekki hvaða lög það eru eins og ég sagði fyrr í dag. Mér er ekki kunnugt um að þau séu til.