Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, enda held ég að hún hafi nú þegar sýnt að þetta mál þarfnast ótvírætt nánari skoðunar. Ég verð að segja vegna ummæla hv. þm. Kristins Péturssonar að það er sérkennileg kenning að vegna þess að efnahagsstefnan sé svo slæm sé allt í lagi að fyrirtækin steli undan skatti, það sé nauðvörn fyrirtækjanna í slæmri efnahagsstefnu að geta hagað sínum málum þannig að það vörslufé sem þeim er ætlað að geyma frá launafólkinu sé sett í reksturinn.
    Ég vek athygli hv. þm. á því að hér var tekin upp staðgreiðsla skatta og það var talið mikilvægt atriði að tryggja að það innheimtukerfi yrði traust. Staðgreiðsla skatta felur í sér að fyrirtækjunum er ætlað að skila sköttum launafólksins inn í hinn almenna sjóð allra landsmanna. Það hefur þó nokkuð borið á því því miður að fyrirtækin hafi brugðið á það ráð að standa ekki skil á staðgreiðslunni og nota hana í reksturinn og það hefur verið gripið til mjög alvarlegra innheimtuaðgerða á þessu ári til að koma í veg fyrir að því verði haldið áfram. Staðgreiðsla launa er ekki almennt rekstrarfé fyrirtækjanna. Ég virði það við hv. þm. Friðrik Sophusson að þegar hann var að reyna að rökstyðja afstöðu sína í þessu máli hélt hann sig eingöngu við söluskattinn en hætti sér ekki inn á þá braut að tala um staðgreiðslu launa. Auðvitað er það þannig að það er fullkomlega siðlaust hjá fyrirtækjum að taka þann part sem eru skattar launafólksins og nota í reksturinn vegna þess að fólkið sem vinnur hjá fyrirtækjunum vill vera heiðarlegt fólk, það vill standa í skilum og telur margt hvert að það sé í skilum við hinn almenna sjóð og finnst það bæði móðgun við sig og skyldur sínar gagnvart þjóðfélaginu að vinnuveitandinn skili þessu ekki inn í þennan almenna sjóð.
    Varðandi dæmið um söluskattinn sem hv. þm. Friðrik Sophusson tók, þá byggði hann það á því að fyrirtækið skuldaði heildsalanum, smásalinn skuldaði heildsalanum vöruna. Það vita allir sem þekkja til í verslunarrekstri að heildsalar óska nú eftir því velflestir að fá vöruna yfirleitt greidda áður en hún er seld af smásalanum. Þó það séu veitt ákveðin lán um tíma eru þau ekki bundin við að varan sé lánuð þangað til hún er seld. Þetta dæmi heldur auðvitað ekki.
    Það sem hins vegar hefur komið fram í þessum málflutningi hjá talsmönnum Sjálfstfl., svo ég noti þeirra óbreyttu orð, er að það skipti ekki nokkru máli hvort hér er um skatta að ræða sem aðrir hafa greitt eða skatta sem fyrirtækin eiga að greiða sjálf. Í þessu felst kannski grundvallarmunurinn, að annars vegar er hér smátt og smátt að koma í ljós að ákveðnir þingmenn hafa þá hugmyndafræðilegu afstöðu að það sé enginn munur á þeim sköttum sem fyrirtækjunum er falið að innheimta af öðrum og þeim sköttum sem þau eiga að greiða sjálf. Ef þetta viðhorf festist í sessi er það stórhættulegur hugmyndaheimur gagnvart því að byggja hér upp traust og eðlilegt skattakerfi. Traust og eðlilegt skattakerfi verður ekki byggt upp með

refsivendinum einum saman heldur með því hugarfari að þeir sem innheimta skattana skili þeim áleiðis á réttan stað en telji þá ekki vera til umráða fyrir sig þó að það sé alveg ljóst sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði og er engin ný tíðindi að það hefur viðgengist að menn héldu þessu inni í fyrirtækjunum með ákveðnum hætti og væru ekki endilega að leggja það í sérstakar bækur í banka eða inn á sérstaka reikninga um leið. En það er þetta hugarfar að gera engan greinarmun á þeim peningum sem inn koma og fyrirtækin eiga ekki með neinum hætti og þeim fjármunum sem eru hluti af rekstrinum, hvort sem það er um lánsfé frá bönkum eða öðrum fyrirtækjum að ræða eða eignir fyrirtækjanna.
    Í sjálfu sér hafa öll meginrök í þessu máli komið fram. Það er rétt, eins og ég sagði áðan, hjá hv. 1. flm. að það getur þurft að gera ákveðnar breytingar á réttarfarspraxísnum í landinu. En ég ítreka: Það er rangt í málið farið að reyna að ráða bót á þeim réttarfarsvanköntum með því að afnema þennan greinarmun nema menn séu fylgjandi þeirri hugmyndafræði að enginn eðlismunur sé á þeim peningum sem fyrirtækin fá frá öðrum til að koma áleiðis til ríkissjóðs og öðrum tekjum og umráðafjármunum viðkomandi fyrirtækja. Okkar skattakerfi byggist á þeirri grundvallarforsendu að staðgreiðslan á laununum, söluskatturinn og síðan virðisaukaskatturinn er ekki eign innheimtufyrirtækjanna eða viðkomandi rekstraraðila heldur eingöngu vörslufé. En mér heyrist á málflutningi einstakra þingmanna að þeir vilji ekki gera neinn slíkan greinarmun, þetta séu eins og hverjir aðrir fjármunir sem einstaklingar og fyrirtæki hafa og eigi þess vegna að hafa nákvæmlega sama sess. Ef ágreiningurinn liggur í þessu er ósköp eðlilegt að hann sé hér fyrir hendi. Ég hélt satt að segja að málið væri ekki þannig vaxið að menn virkilega væru með þá grundvallarafstöðu að það væri enginn munur á þessum peningum. Þetta væru sömu umráð og fjármunirnir fyrir fyrirtækin þó að ríkissjóður og almenningur í landinu ætti annan hlutann en fyrirtækið sjálft hinn.
    Ég segi við hv. deild í fullri alvöru: Það mun engum manni takast að byggja upp virkt skattaeftirlit í landinu og trausta skattinnheimtu ef því hugarfari landsmanna verður ekki breytt og hugarfari í fyrirtækjunum verður ekki breytt
að afdráttarlaust séu menn þeirrar skoðunar að þeir peningar sem þeir taka af staðgreiðslu launa, sem þeir taka af virðisaukaskattinum og söluskattinum eru ekki þeirra peningar heldur peningar launafólksins, þeirra sem greiða skattinn, og hins almenna sjóðs landsmanna.
    Það þjónar engum tilgangi að reyna að persónugera þetta í núv. fjmrh. eða einhverjum ráðherradómi eða kontóristum eða einhverju slíku. Þetta er grundvallarafstaða í uppbyggingu skattkerfis í landinu. Við höfum farið inn á þá braut og þingið verið sammála því að söluskattur væri einn öflugasti tekjustofn ríkisins og nú á að halda inn á þá braut um

næstu áramót að virðisaukaskattur sé einn öflugasti tekjustofn ríkisins og ef þingið ætlar síðan að undirstrika með þessari breytingu að þessir skattar séu eins og hvert annað umráðafé atvinnurekendanna og stjórnendanna í fyrirtækjunum, eins og lán frá bönkum og sjóðum og öðrum viðskiptaaðilum, er þingið að segja bæði við þjóðina og við stjórnendur skattheimtukerfisins: Við ætlum að gera ykkur hlutverkið erfitt að berjast gegn skattsvikunum í landinu og sérstaklega því hugarfari að enginn munur sé á peningum sem fyrirtækin eiga ekki með nokkrum lögfræðilegum hætti og þeim öðrum peningum sem þar eru til umráða.
    Ég er sannfærður um það og þess vegna tala ég svo eindregið gegn þessu frv. að eigi það hugarfar að haldast í landinu að þeir skattar, hvort sem það er staðgreiðslan af launum, söluskatturinn eða virðisaukaskatturinn sem fyrirtækjunum er ætlað að innheimta, séu eins og hverjir aðrir umráðapeningar fyrir fyrirtækin verður aldrei hægt að byggja hér upp traust skattaeftirlit eða trausta framkvæmd skattakerfisins nema menn vilji þá taka upp þá siði að skattheimtumenn ríkisins séu umsvifalaust með refsivöndinn á lofti hvenær sem er og hvar sem er og taka þá upp í raun og veru allt önnur vinnubrögð hvað það snertir en almennt er eðlilegt ef það hugarfar ríkir að menn séu ekki að ráðstafa peningum sem eru ekki í þeirra eign. Þetta mál snýst um hvort stjórnendur fyrirtækjanna geti ráðstafað peningum sem eru ekki í þeirra eign. ( KrP: Skiptaráðandi.) Það er grundvallaratriðið í þessu vegna þess að vandamálin koma því aðeins upp að stjórnendur fyrirtækjanna hafa ráðstafað þessum peningum eins og þeir væru þeirra eign en hafa ekki passað sig í rekstrinum að haga honum þannig að vera ekki að valsa með þá peninga sem þeir hafa tekið af launum starfsfólksins eða eru hluti af þeim sköttum sem þeim er falið að innheimta. ( KrP: Þú ert að taka um skiptaráðanda.) Ef hv. þm. Kristinn Pétursson hefur svona miklar áhyggjur af starfsemi skiptaráðanda hef ég bent á það í umræðunni að það er miklu nær að taka á því vandamáli í gegnum þau lög sem fjalla um þann þáttinn en vera að veikja skattinnheimtuna í landinu með þeim hætti sem hér er lagt til. ( KrP: Ertu að segja satt?) Hv. þm. Kristinn Pétursson þarf ekkert að eggja aðra en sjálfan sig til að segja satt. Hins vegar kom það alveg greinilega fram í hans ræðu að hann gerir engan greinarmun í fyrirtækjunum á þeim peningum sem fyrirtækið á ekki og þeim peningum sem það á því það kom alveg skýrt fram í ræðu hv. þm. Kristins Péturssonar að hann telur að fyrirtækið eigi að hafa alla heimild til þess að ráðskast með það skattheimtufé sem það tekur af launafólkinu, er það tekur til innheimtu. Að því leyti er alveg grundvallarágreiningur milli mín og hv. þm. Kristins Péturssonar vegna þess að hann telur að fyrirtækin eigi að hafa þau forréttindi að ráðstafa staðgreiðslunni af launum starfsfólksins í rekstur fyrirtækjanna. Fyrirtækin eigi að hafa þau forréttindi að ráðstafa virðisaukaskattinum í rekstur fyrirtækjanna vegna þess

að það eigi ekki að vera neinn munur á þessum peningum og öðrum fjármunum sem fyrirtækin eru með í rekstrinum. Það er grundvallarágreiningur sem liggur þá alveg ljóst fyrir og mönnum er frjálst að hafa. En ég hlýt að lýsa því að þeir sem hafa þá grundvallarafstöðu eru um leið að gera það mjög erfitt í okkar landi að byggja upp það hugarfar og þá siði og þær venjur og það siðferði sem er grundvallarforsenda fyrir skilvirku og traustu skattkerfi.