Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. fer með mikla útúrsnúninga og rangtúlkanir á ræðum einstakra þingmanna. Það hefur enginn einasti þingmaður haldið því fram í þessari umræðu að hún snerist um það hvort mönnum ætti að vera heimilt að halda fjármunum sem þeir eiga ekki sjálfir. Það hefur enginn haldið því fram að það væri siðferðilega rétt af þeim sem eiga að standa skattheimtunni skil á tilteknum greiðslum, hvort sem það er söluskattur, staðgreiðsla eða aðrir skattar. Samt stendur hæstv. fjmrh. hér drjúga stund og endurtekur í síbylju að þessi viðhorf liggi að baki þeirri umræðu sem hér á sér stað. Auðvitað er það siðferðilega rangt að greiða ekki skatta á réttum tíma hverju nafni sem þeir nefnast og það er ekki einasta siðferðlega rangt, það er líka skýlaust brot á lögum.
    Hitt er svo allt annað mál hvaða stöðu ríkissjóður hefur til þess að innheimta skatta gagnvart öðrum sem kröfur eiga á fyrirtæki í því falli sem við erum að tala um hér. Og þá kemur spurningin um það hvernig löggjöfin er réttlátlega smíðuð. Það eru ýmsir fleiri en ríkissjóður sem eiga peninga inni hjá atvinnufyrirtækjum. Á það hefur verið bent að þeir sem selja vöru eiga peninga inni hjá fyrirtækjum ef sú vara er seld með gjaldfresti. Þeir sem inna vinnu af hendi og þjónustu margs konar við fyrirtæki eiga oft og tíðum inni kröfur fyrir launagreiðslum. Það er réttmæt krafa þeirra, réttmæt eign þeirra að gera kröfu til þess að fá þær greiðslur. Í þeim tilvikum þar sem gjaldþrot eiga sér stað hygg ég að það sé ekki síst alvarlegt að einmitt sjálfstæðir atvinnurekendur af ýmsu tagi, iðnaðarmenn sem inna af hendi margs konar þjónustu við atvinnufyrirtæki, hvort sem það er varðandi byggingar eða þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki eða hvað eina, verða fyrir verulegum áföllum, og ég er þeirrar skoðunar að þessir menn og þessir aðilar eigi sitt réttlæti ekki síður en ríkissjóður. Það hlýtur að vera skylda Alþingis þegar verið er að fjalla um lög sem þessi að gæta að atriðum sem þessum.
    Auðvitað er það rétt, sem fram kemur í þessari umræðu, að skattar eru af ólíkri gerð. Söluskattur eða virðisaukaskattur er annarrar gerðar og annarrar tegundar en tekjuskattur sem lagður er á fyrirtæki. Þar hefur viðkomandi fyrirtæki lagt skatt á vöruna sem neytendur hafa greitt. Fyrirtæki í staðgreiðslu innheimta af launafólki tekjuskatt. En um leið er fyrirtækið ábyrgt fyrir greiðslu skattsins. Í máli hæstv. ráðherra hefur ekkert komið fram sem sýnir fram á á hinn bóginn að hér sé um að ræða vörslufé í venjulegum skilningi þess orðs. Ég er alveg sammála honum um að þessir skattar eru annarrar gerðar en tekjuskattur sem lagður er á fyrirtæki, en að gildandi lögum er hér samt ekki um að ræða vörslufé í venjulegum skilningi þess orðs.
    Aðalatriðið er þó að við hljótum að leita eftir því að þeir sem kröfur eiga standi nokkurn veginn jafnt að vígi og það eru ekki ástæður til þess að ríkissjóður standi betur að vígi en aðrir sem eiga jafnréttmætar

kröfur til atvinnufyrirtækja. Það er nauðsynlegt í þessu sambandi að hafa það líka í huga sem hér hefur komið fram og hv. 6. þm. Norðurl. e. lýsti mætavel. Hann greindi frá því að hann væri andvígur þessu lagafrv. einmitt vegna þess að það mundi leiða til harðari innheimtuaðgerða. Með því að hafa núverandi skipan væri auðveldara fyrir ríkissjóð að sjá til með fyrirtækjum, í sumum tilvikum kannski af því að reksturinn gengi illa, í öðrum tilvikum kannski vegna þess að stjórnvöld á hverjum tíma hefðu velþóknun á þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga og vildu hafa þann möguleika að geta leyft sumum að draga að greiða skatta sína og skyldur sem þau þó eiga að gera lögum samkvæmt af því að þau hefðu svo trygga innheimtukröfu ef svo færi að viðkomandi fyrirtæki færi á höfuðið. Þetta sjónarmið kom mjög skýrt fram af hálfu hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefáns Valgeirssonar. Með öðrum orðum: ef þessi skilningur er lagður í andstöðuna við þetta frv. er beinlínis með núverandi skipan verið að ýta undir að ríkisvaldið mismuni fyrirtækjum með þessum hætti.
    Ég er þeirrar skoðunar að á sínum tíma þegar þessi lög voru sett af því að ég átti þar hlut að máli hafi menn alls ekki leitt hugann nægilega vel að þessari aðstöðu sem upp kemur við skipti og þeirri verulegu óvissu í viðskiptum sem þessi skipan veldur og þeirri staðreynd að þeim sem tryggja rétt sinn og þurfa að gera það með veðsetningu er þá óljóst um hina raunverulegu stöðu sína ef þessi skipan helst. Fyrir því tel ég að það sé skynsamlegt og rétt að gera þessa breytingu á nýjan leik. En ríkisvaldið hefur viðurkennt og löggjafarvaldið hefur viðurkennt að skattar eins og söluskattur séu annars eðlis en tekjuskattur sem lagður er á fyrirtæki, m.a. með því að í þeim tilvikum hefur ríkissjóður miklu virkari innheimtuaðgerðir en í öðrum tilvikum. Í því tilviki með söluskattinn getur ríkissjóður lokað fyrirtækjum ef fyrirtæki stendur ekki í skilum með skattinn. Ég hygg, án þess að ég þekki uppruna þessa ákvæðis, að þessi heimild, sem er miklu áhrifameiri en ríkisvaldið hefur varðandi ýmsa aðra skatta, sé einmitt komin til vegna þess að hér er um að ræða aðra tegund skattheimtu. Við eigum einmitt að horfa á í þessu tilviki að ríkisvaldið þarf virkari innheimtuheimildir þar sem um er að ræða skatta af þessu tagi sem aðrir hafa þegar greitt í vöruverði eða sem
hluta af sínum launum. En við eigum ekki að búa til þá reglu við skipti á þeim fyrirtækjum, sem því miður eru of mörg, sem fara á höfuðið að það skapi óvissu gagnvart öðrum aðilum í þjóðfélaginu sem við þá eiga viðskipti og hafa sama rétt og ríkissjóður. Ég fullyrði að iðnaðarmaður sem innir af hendi þjónustu við fyrirtæki sem fer á höfuðið og nýtur ekki, vegna þess að hann telst vera sjálfstæður atvinnurekandi, sömu tryggingar og launamenn á ríkisábyrgð af launum á alveg sama rétt og ríkissjóður. Þannig mætti auðvitað tína til miklu fleiri tilvik.
    Ég vildi aðeins koma þessum athugasemdum á framfæri og mótmæla því, sem ég segi að sé útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra, að menn telji það

vera siðferðilega réttlætanlegt að draga að innheimta skatta. Síður en svo. Það er bæði ólögmætt og siðferðilega óréttlætanlegt. En það breytir ekki því að við megum ekki ganga á hlut annarra aðila í þjóðfélaginu þegar við erum að tryggja hagsmuni ríkissjóðs og það er kjarni málsins, atriði sem við höfum ekki að mínu mati hugað nægjanlega að þegar lögin voru smíðuð í upphafi, og því er eðlilegt að Alþingi afgreiði og samþykki þetta mál á þessu þingi.