Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Hér er til 3. umr. frv. til l. um þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, en við 2. umr. þess máls gerði ég nokkra grein fyrir ágreiningi sem hér er uppi varðandi vissa þætti þessa máls og boðaði að ég mundi við 3. umr. flytja brtt. sem ég hef lagt fram ásamt tveimur öðrum þingmönnum Sjálfstfl., þ.e. 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde og 2. þm. Reykn. Ólafi G. Einarssyni.
    Ég ætla aðeins að rifja upp af hvaða rótum þessi ágreiningur er runninn, en ég ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Sjálfstfl. flutti fyrr á þessu þingi frv. til laga um framkvæmdasjóð á sviði menningarmála. Það frv. er að mörgu leyti mjög líkt því og hæstv. ráðherra lagði svo síðar fram, þ.e. það er gert ráð fyrir að sami skattur sé notaður til að fjármagna sérstakan sjóð, sá skattur sem innheimtur hefur verið til að standa straum af byggingu þjóðarbókhlöðu nú í þrjú ár. Hér er um að ræða sérstakan eignarskattsauka. Við vorum sem sagt sammála um að þessi eignarskattsauki skyldi áfram innheimtur og honum varið til menningarmála.
    Þessi frumvörp eiga það einnig sameiginlegt að gert er ráð fyrir að forgang hafi bygging þjóðarbókhlöðu, þ.e. að fé úr þessum sjóði eigi að fara til þess að ljúka við byggingu þjóðarbókhlöðu sem hefur verið í byggingu í allt of langan tíma.
    Ég hygg að við séum líka sammála um að rétt sé að úr þessum sjóði verði veitt fjármagn til að standa straum af kostnaði við endurbætur á þremur mikilvægum menningarstofnunum, þ.e. þjóðleikhúsi, þjóðminjasafni og þjóðskjalasafni. Hins vegar var í frv. okkar sjálfstæðismanna gert ráð fyrir að af þessu fjármagni mætti einnig verja framlögum til að standa straum af byggingarkostnaði nýbygginga á þessu sviði. Hæstv. ráðherra hefur ekki gert ráð fyrir því í sínu frv. og er greinilega ekki sammála þeim hugmyndum sem við sjálfstæðismenn höfum um það að úr þessum sjóði ætti enn fremur að vera unnt að veita fjármagni til nýbygginga. Með öðrum orðum: samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir eru nýbyggingar á sviði menningarmála útilokaðar á framlögum úr þessum sjóði heldur eingöngu um að ræða endurbætur og viðhaldskostnað slíkra bygginga.
    Hér er um að ræða allverulegan tekjustofn. Samkvæmt fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að hinn sérstaki eignarskattsauki gefi um 240 milllj. kr. í tekjur, eignarskattsauki einstaklinga 90 millj. og eignarskattsauki félaga 150 millj. Að vísu gerir þessi hæstv. ríkisstjórn ráð fyrir því að verulegur hluti fari beint í ríkissjóð, þ.e. eingöngu 90 millj. fari til þess sem upphaflega var ráðgert með þessum sérstaka tekjustofni. Svo var einnig á síðasta ári og var um það stöðugur ágreiningur milli menntmrn. og fjmrn. þá sem ekki tókst að leysa. Það er hins vegar annað mál.
    Ef maður gerir ráð fyrir að þessi tekjustofn verði notaður til þess sem hann mun ætlaður er hérna, eins og ég sagði áðan, um verulegt fjármagn að ræða. Þess vegna finnst mér afar ógætilegt og raunar rangt að gera ekki ráð fyrir því að nýbyggingar njóti góðs af

þessum tekjustofni, þ.e. ef menn ætla sér að halda honum óskertum í þessu skyni. Þess vegna höfum við lagt fram á þskj. 1100 brtt. sem gera ráð fyrir að breyting verði gerð á 1. gr. 1. málsl. frv. eins og það lítur nú út og 1. málsl. orðist sem hér segir:
    ,,Myndaður skal sjóður sem varið skal til að standa straum af byggingarkostnaði menningarbygginga, kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana, stuðla að verndun gamalla bygginga í eigu ríkisins og bygginga sem vernda þarf að mati Þjóðminjasafns og samkvæmt tillögum þess.``
    Hér er sem sagt skotið inn í orðunum ,,byggingarkostnaði menningarbygginga`` og með því er reiknað með að hlutverk þessa sjóðs verði víkkað út þannig að hægt sé að veita fjármagni í slíkar stofnanir. Ég ætla ekki hér og nú að fara að rifja upp um hvaða stofnanir gæti verið að ræða. Það hefur komið fram í fyrri umræðum þessa máls og er vísað til þess sem þar hefur verið sagt, en ég hefði vonast til þess að um þetta gæti orðið samkomulag við hæstv. menntmrh.
    Jafnframt er gert ráð fyrir því í 2. tölul. brtt. að fyrirsögn frv. breytist í samræmi við þessa efnisbreytingu þannig að það heiti: Frumvarp til laga um þjóðarbókhlöðu og aðrar menningarbyggingar í stað: ,,Frumvarp til laga um þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga`` eins og það heitir nú.
    Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta. Ég hygg að það sé þá fullskýrt í hverju þessi brtt. er fólgin.