Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. 4. minni hl. félmn. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Við 2. umr. um frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, öðru nafni húsbréfafrv., komu fram brtt. við 1., 2. og 3. gr. frv. sem vörðuðu breytingar á núgildandi kerfi en koma húsbréfakerfinu sjálfu ekkert við. Frv. gerði ráð fyrir að núgildandi lögum yrði breytt að því er varðar rétt þeirra sem sækja um lán til Byggingarsjóðs ríkisins. Það er greinilegt að mjög margir hafa misskilið út á hvað brtt. gengu og því hafa þeir hinir sömu misskilið hvers vegna tillaga kom fram um að fella út úr frv. ákvæði sem vörðuðu núgildandi kerfi.
    Kvennalistakonur ákváðu að styðja tillögurnar sem hv. 17. þm. Reykv. bar fram ásamt tveim öðrum hv. þm. og finnst mér rétt að skýra nánar hvers vegna við töldum rétt að gera það þó ég hafi gert grein fyrir því við 2. umr. málsins. Þegar það var gert var komin nótt, ekki man ég nákvæmlega klukkan hvað það var, og ekki margir í salnum og sýnist mér og heyrist að blaðamenn hafi verið farnir að sofa þegar þessar brtt. voru til umræðu.
    Það þykir e.t.v. einkennilegt, herra forseti, að ég skuli vera að tala hér um brtt. sem þegar hafa verið samþykktar og sem ég var ekki flm. að. Ástæðan er fyrst og fremst sú að sagt hefur verið, m.a. í Ríkisútvarpinu í hverjum fréttatíma á eftir öðrum að við kvennalistakonur höfum viljað fella út úr frv. ákvæði um að stóreignamenn fengju ekki lán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta er misskilningur og hefur þessi missilningur að vísu verið leiðréttur núna í síðasta fréttatíma útvarpsins, en samt sem áður vildi ég koma þessu á framfæri, ekki síst vegna þess að minna útbreiddur fjölmiðill, Alþýðublaðið, hefur m.a. talað um þetta í leiðara sínum og þess vegna finnst mér ástæða til að vekja athygli á þessu.
    Í núgildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 86/1988 segir í 12. gr., með leyfi forseta, m.a.:
    ,,Einnig er húsnæðismálastjórn heimilt að skerða lán og breyta kjörum á lánum umsækjenda sem eiga fullnægjandi íbúðarhúsnæði skuldlaust eða skuldlítið og stærra en 180 fermetrar brúttó að frádregnum bílskúr.``
    Við þetta átti síðan að bæta samkvæmt frv.: Sama gildir um þann sem á aðrar eignir sem meta má jafngildar að verðmæti.
    Í áliti Húsnæðisstofnunar ríkisins segir um þessa brtt., með leyfi forseta:
    ,,Erfitt er að leggja mat á áhrif þessarar breytingar. Samkvæmt könnun á árinu 1987 sem gerð var af ráðgjafarstöð stofnunarinnar á umsóknum sem bárust á tímabilinu september 1986 til desember 1987 var talið að 10% umsækjenda ættu nettóeign umfram 3 millj. kr. Þau mörk sem telja má að felist í þessu ákvæði frv. eru hins vegar mun hærri og sennilega ekki undir 8 millj. kr. að verðlagi í árslok 1988. Fullyrða má að mjög fáir umsækjenda eigi eignir umfram þessi mörk. Þessi breyting hefði því lítil áhrif.``
    Það er engin ástæða til að breyta lögum ef sú breyting hefur engin áhrif nema e.t.v. til að breyta enn

einu sinni vinnulagi og reglum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins með þeim ruglingi sem það getur haft í för með sér og óþægindum fyrir starfsmenn stofnunarinnar, svo og fyrir þá sem eru að sækja um lán sem halda kannski að hér sé um einhverjar verulegar breytingar að ræða en kemur í ljós að hafa mjög litla þýðingu.
    Í desember árið 1987 voru samþykktar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun sem áttu að takmarka aðgang stóreignafólks að lánum frá Byggingarsjóði ríkisins og var þá sett inn í lögin það sem ég las upp áðan um takmörkun á þeim sem ættu stórar eignir. Kvennalistinn studdi þær breytingar og hefðum við gjarnan viljað ganga enn þá lengra í þeim takmörkunum. Í umræðu um það frv. sagði sú sem hér stendur m.a., með leyfi forseta:
    ,,Einnig set ég spurningarmerki við það hvort rétt sé að þeir sem eiga eina íbúð eigi yfirleitt að njóta sömu lánafyrirgreiðslu og þeir sem eru að kaupa eða byggja í fyrsta sinn nema þá með undantekningum vegna þeirra sem eru að stækka við sig vegna fjölskylduaðstæðna, flutninga milli landshluta, vegna veikinda eða einhverra sérstakra aðstæðna.`` Þannig ætti öllum að vera ljóst að kvennalistakonur eru ekki hlynntar því að stóreignamenn fái niðurgreidd lán úr opnberum sjóðum til íbúðakaupa eða annars.
    2. brtt. fólst í því að skerða lán til einhleypinga þannig að þeir ættu aðeins að fá 67% af lánum sem hjón fá. Kristín Ástgeirsdóttir, fulltrúi Kvennalistans í húsnæðisnefndinni sem m.a. vann húsbréfafrv., gerði athugasemd við þetta ákvæði og það gerði ég einnig í félmn. þegar fjallað var um frv. í nefndinni. Við kvennalistakonur teljum eðlilegt og sjálfsagt að aðstoð hins opinbera við húsnæðiskaupendur fari eftir fjölskyldustærð og öðrum aðstæðum, en það er ekkert réttlæti í því að lán skerðist til einhleypinga en hjón eða sambýlisfólk fái fullt lán. Einhleypingur kemst varla af með mikið minna húsnæði en hjón. Einnig er í mörgum tilvikum erfiðara fyrir einhleypinga, sérstaklega konur, að fá lán hjá bönkum þar sem þær eru iðulega spurðar um hvað eiginmaðurinn geri þegar sækja þarf um lán og er þá verið að velta fyrir sér hversu auðvelt muni reynast að greiða niður lánið, en augljóslega er erfiðara fyrir einn aðila að greiða niður lán en fyrir tvo þannig að það er
ekkert réttlæti í því að skerða frekar lán til einstaklinga en til annarra. Engin ákvæði eru í núgildandi lögum um hærri lán til barnmargra fjölskyldna né heldur var gert ráð fyrir því að setja það inn í frv. Einungis átti að skerða lánsrétt einhleypinga.
    Í umsögn Húsnæðisstofnunar um þetta atriði segir, með leyfi forseta:
    ,,Á árinu 1987 rann um 21% af veittum lánum til einstaklinga. Þau skiptast nokkuð jafnt á milli lána til kaupa á nýjum og notuðum íbúðum. Þessi breyting á lánsrétti hefði lækkað lánveitingar um tæp 7%. Telja má að áhrifin af þessari breytingu verði ekki meiri þar sem fjöldi umsækjenda tilgreinir sig sem einstaklinga þó um sambúð sé að ræða. Ástæður þess eru að

samkvæmt gildandi lögum miðast lánsréttur hjóna og sambúðarfólks við meðaltal lánsréttar þeirra. Umsækjandi sem hefur hærri lánsrétt en maki forðast því að tilgreina makann og lætur jafnvel skrá sambúðarslit hjá Hagstofu Íslands. Hins vegar mundi þessi lækkun á lánum geta leitt til þess að hluti umsækjenda sem telja sig sem einstaklinga gagnvart stofnuninni muni tilgreina sambúð til að forðast þetta skerðingarákvæði. Áðurnefnd lækkun um 7% er því í raun hámark. Raunveruleg áhrif þessara breytinga verða eitthvað lægri. Lausleg ágiskun gæti verið um 5%.``
    Stærsti hluti þeirrar skerðingar sem þessar þrjár greinar áttu að taka til var einmitt til einstaklinga og við kvennalistakonur gerðum okkur fullkomlega grein fyrir því að þarna mundi verða um eitthvert fé að ræða til sparnaðar. En þetta óréttlæti vildum við ekki taka inn í lögin þó svo að við, eins og ég sagði áðan, hefðum verið til viðræðu um að yfirleitt væru hærri lán til barnmargra fjölskyldna og teljum það raunar vera eðlilegt eins og var í fyrri lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Þriðja atriðið varðaði þá sem eru að kaupa íbúð í annað sinn. Eins og hv. þm. er kunnugt fá þeir sem eru að kaupa nýtt húsnæði hærra lán en þeir sem kaupa gamalt. Tillaga var um að breyta þessu hjá þeim sem eiga íbúð fyrir þannig að lán yrðu jafnhá til allra nema til einstaklinga. Eins og ég sagði áðan set ég spurningarmerki við það hvort þeir sem eiga fullnægjandi íbúð fái yfirleitt lán úr opinberum sjóðum nema í undantekningartilfellum. Sú breyting sem nú átti að gera náði einungis til mjög takmarkaðs hóps og ekki í samræmi við önnur ákvæði laganna þar sem munur er á hjá þeim sem kaupa í fyrsta skipti gamla íbúð eða nýja. Húsnæðisstofnun áætlaði að þetta mundi hafa um 3% aukningu í lánveitingum í för með sér, sú skerðing sem þarna var um að ræða
    Ég vildi láta þetta koma fram, herra forseti, við þessa umræðu til þess að leiðrétta þann misskilning sem fram hefur komið, en auk þess finnst mér rétt að það komi fram að það sem nú hefur verið fellt út úr frv. hefði hvort sem er ekki komið til framkvæmda fyrr en eftir tvö til þrjú ár þar sem þessi ákvæði hefðu aðeins getað gilt um þá sem sækja um lán frá gildistöku laganna þannig að skerðingin hefði ekki náð til þeirra 10 þúsund sem nú eru í biðröðinni. Þeir hefðu áfram fallið undir núgildandi lög. Ef við reiknum með að húsbréfafrv. reynist eins vel og talað er um og ég vil ekki efast um ættu þessi ákvæði ekki að skipta neinu máli vegna þess að þá væru flestallir ef ekki allir komnir yfir í það nýja kerfi sem við erum væntanlega að samþykkja á þessum dögum. Af þessum ástæðum töldu kvennalistakonur rétt að styðja að fyrrgreind ákvæði féllu út úr frv.