Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. 3. minni hl. félmn. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Það er að gefnu tilefni að ég tel ástæðu til að grípa aðeins inn í umræðuna við 3. umr. þessa máls í hv. deild. Það er í sambandi við þetta svokallaða þak sem var það samkomulag sem ráðherrar í ríkisstjórn gerðu sín á milli og var ástæða þess að meiri hluti þingmanna Framsfl. lét handjárna sig í sambandi við þetta mál eða gerði samkomulag um að fylgja þessu máli fram. Það var túlkun eftir þetta ráðherrasamkomulag að hámark þess fjármagns sem heimilt væri að gefa út fyrir svokölluð húsbréf með ríkisábyrgð næmi 10% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna sem þeir afhentu til húsnæðismála.
    Að vísu kom fljótlega upp sú túlkun að það var hægt að víkka þetta nokkuð út að því leyti til að það var hægt að tala um 805 millj. ef eingöngu er miðað við það fjármagn sem 55% gæfu í húsnæðiskerfið og einnig væri hægt að túlka það frjálslegar, miðað við heildarfjármagnið sem lífeyrissjóðirnir hefðu til ráðstöfunar væru þetta e.t.v. um 1700 millj. kr. En allt að einu var það túlkað þannig að þetta væri frágenginn samningur þannig að ekki mætti gefa út með ríkisábyrgð húsbréf fyrir hærri upphæð en þessu nemur. Þetta ákvæði átti síðan að endurskoða að sex mánuðum liðnum eftir að lögin hefðu tekið gildi.
    Nú hefur komið berlega fram í umræðum hér á Alþingi og raunar í fjömiðlum líka öðruvísi túlkun á þessu atriði. Það voru lagðar fram spurningar við 2. umr. málsins hér á hv. Alþingi um hver túlkun hæstv. ráðherra væri á þessu atriði og svarið kom á næturfundi í hv. deild, að ef lífeyrissjóðirnir legðu meira fjármagn fram en ég hef hér lýst væri það í lagi, þ.e. lífeyrissjóðirnir gætu eftir þessari túlkun lagt fram fjármagn sitt, við skulum segja ekki aðeins umfram 1,7 milljarða ef við túlkum það það hæsta sem væri hægt að hugsa sér eins og þingflokkur Framsfl. túlkaði þann fyrirvara sem settur var, en þessi fjárhæð gæti alveg eins farið í 3--4--5 milljarða og aðilarnir sem gæfu út húsbréf á þennan hátt fengju ríkisábyrgð á allt saman. Þetta er grundvallaratriði sem ég tel að sé ástæða til að fá skýr svör um því að mér er kunnugt um að samflokksmenn mínir í Framsfl. sem létu handjárna sig í sambandi við þetta mál trúa því enn að alls ekki komi til mála að húsbréf verði gefin út fyrir hærri fjárhæð en sem svarar þessum 10%. Þetta er grundvallaratriði. Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. ráðherra svari þessu hér og nú því að ef túlkun hæstv. ráðherra við 2. umr. málsins er, eins og þá kom fram, að lífeyrissjóðunum væri heimilt að kaupa fyrir meira --- ef þeir gerðu það þá væri það í lagi, þá kæmi ríkisábyrgðin að sjálfsögðu á þau umframkaup --- þá er þetta samkomulag brotið fyrir fram. Að vísu er það svo annað mál að gert var ráð fyrir að þetta væri í lagatexta frv. En það er það alls ekki. Það er sagt að setja eigi reglugerð í samkomulagi við lífeyrissjóðina um ráðstöfun þeirra næstu tvö ár, en það er ekkert um þetta grundvallaratriði í því samkomulagi sem var túlkað af ráðherrum sem stóðu að því samkomulagi sem gert

var í ríkisstjórninni. Það er sett inn í frv. að húsbréfadeild eigi að gera tillögur til ráðherra um þetta mál en það er heldur ekki eftir að lög eru komin í gildi og staðfest. Það er fyrst og fremst það sem er í lagatextanum sjálfum sem er grundvallaratriði og það er það sem verður að fá hreinar línur um.
    Það má segja að hér hafi komið einnig fram við 2. umr., merkilegt nokk, þessi mismunandi túlkun hjá Alþb. og hæstv. ráðherra í sambandi við vaxtabætur þar sem Alþb. tilkynnir það og í atkvæðagreiðslu við 2. umr. undirstrikaði talsmaður þess það hér í ræðustól að það væri fastmælum bundið að vextir á almennum lánum Byggingarsjóðs yrðu aldrei hærri en 4,5% og þetta væri samkvæmt samkomulagi og stefnu flokksins, en hæstv. ráðherra hefur sagt það áður, sem er kannski eðlilegt því það má lesa það út úr þeirri samþykkt sem gerð hefur verið, að vaxtamunurinn skal ekki vera öðruvísi en þar stendur, 0,5--1%. Og hvað þýðir það? Það er svo einfalt mál að það getur hvert skólabarn lesið það út að ef vextir á almennum markaði verða 5, 6, 7 eða 8% verður vaxtamunurinn á almennum lánum að færast í samræmi við það og vextir að vera 0,5% eða 1% lægri.
    Herra forseti. Það má segja að þetta skipti kannski ekki máli fyrir mig í sambandi við málið því það er ljóst frá upphafi, eins og ég hef skýrt í mínum ræðum, bæði við 1. umr. og 2. umr. málsins, að gallar á frv. eru slíkir að það er hættulegt fyrir húsnæðislánakerfið í heild og meira að segja voru þeir kaflar sem voru felldir út hér við 2. umr. þess eðlis að þeir gengu fram hjá grundvallaratriðum þeirra laga sem í gildi eru, frá 1986, þ.e. samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um það að réttur hvers manns sem hefur greitt í lífeyrissjóði, sem leggur fjármagn fram í húsnæðiskerfið, sé virtur, að menn eigi aðgengi að lánum. Hitt er aftur annað mál, allt annað mál, að það er hægt að skerða þennan rétt eftir því sem eignastaða manna er eða í sambandi við húsnæði.
    Hér er farið algjörlega inn á nýja braut, eins og hefur komið fram áður, og ég þarf ekki að tíunda það, að nú á að fara að meta aðrar eignir manna. Það á að fara að telja rollur uppi í sveit og byggingar sem þar eru og það á að fara að telja mótorbáta og ýmislegt og færa það til eignar sem er raunverulega bara eign á bak við atvinnurekstur og tengja það við húsnæðismál. Með þessu móti er
verið að ganga fram hjá grundvallarsamkomulagi við aðila vinnumarkaðarins sem enn er í gildi og er grundvöllur þess að eigendur lífeyrissjóða í landinu leggja fram 55% af sínu ráðstöfunarfé til húsnæðismála í landinu. Þessu skulu menn ekki gleyma, þó þeir hafi gert það.
    Ég ætla ekki að setja hér á langa ræðu. Ég vil aðeins endurtaka það að það er náttúrlega sorglegt að talsmenn þessara breytinga sem hér eru, hvort sem þeir heita hæstv. ráðherra eða hv. þm. sem er hæstv. forseti þessarar deildar, setja upp einhverja glansmynd fyrir fólkið í landinu, ég tala nú ekki um rauða kverið í 80 þús. eintökum þar sem því er haldið fram, bara með köldu blóði framan í fólkið, að þetta auðveldi

ungu fólki aðgengi að húsnæðislánum, í sambandi við svokölluð húsbréf. Þetta auðveldi fólki út um allt Ísland, sem er afskipt að talið er í núverandi kerfi, að ná í lán. Það þurfi ekki annað en að labba bara inn í bankann sinn á staðnum, eða sparisjóði, þá séu þessi mál leyst. Auðvitað er þetta hrein blekking. Hvar er skýringin í þessu frv.? Mér þætti fróðlegt að fá svar við því. Ég spurði um þetta við 2. umr. málsins. Ég fékk eðlilega engin svör því það eru engin svör til um þetta. Þó að menn lesi frv. með stækkunargleri, grein fyrir grein og orð fyrir orð, sést hvergi nokkurs staðar nokkurt ákvæði í þessu frv. sem tryggir þessu unga fólki og fólki með sérþarfir og fólki úti um landið sérstöðu til þess að fá lán í gegnum þetta kerfi. Og ég held fast við það og það hefur ekki verið afsannað að það er auðvitað þéttbýlið hér, það er aðgengið að fasteignasölum hér í Reykjavík og verðbréfasölum sem gerir fólki auðvelt að ná sér í forrétt í sambandi við húsbréf og ekki síst ef verða 4--5 milljarðar í fyrstu lotu eins og allar líkur benda til.
    Mér þótti ástæða til þess að rifja þetta upp, virðulegi forseti, vegna þess að það er talsvert mikið um þetta rætt úti um landsbyggðina og talsvert mikið um það rætt hér meðal ungs fólks. Það kemur nefnilega ekki auga á þessa sérstöðu. Ég minni á það að núverandi kerfi, þetta meingallaða kerfi, það veitir þó ungu fólki forréttindi. Það fær miklu hærri lán og það fær fyrr lán en aðrir í núverandi kerfi og það lánsloforð sem það fær er verðtryggt. Ég ætla ekki að ræða um gildandi lög. Ég vil bara vekja athygli á þessu og ég krefst þess að fá skýrt og afdráttarlaust svar um það hvort það er rétt túlkun hjá talsmönnum Framsfl. sem þingmenn hans byggðu sína afstöðu til málsins á, að ekki fari meira til húsbréfakaupa en 10% af ráðstöfunarfé því sem lífeyrissjóðirnir skila til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Svar um þetta vil ég fá afdráttarlaust en ekki hundsað svar eins og síðast þar sem sagt var: Ja, ef lífeyrissjóðirnir kaupa meira, þá mega þeir það.