Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég ætla að byrja á að segja það að mér þótti mjög athyglisverður málflutningur hv. 1. þm. Norðurl. e. og satt best að segja rann manni örlítið til rifja sú túlkun sem hann hafði á fyrirvörum þingflokks Framsfl. og þess trúnaðar sem ráðherrar höfðu sýnt við að framfylgja þeim. En kannski er þetta ekki rétti vettvangurinn til að taka þau mál upp með fullri festu.
    Hins vegar verður ekki undan því komist að víkja hér örfáum orðum að ræðu hæstv. félmrh. þar sem hún minnist á 40. gr. stjórnarskrárinnar. Mér er ljóst að hæstv. ráðherra hefur sína ráðgjafa og tekur á þeim mikið mark. Það er nú svo að menn hafa í gegnum tíðina oft mátt búa við það að hafa sér til aðstoðar einhverja sem þeir treystu í blindni og trúðu á og það sækir á hugann frásögnin af því þegar Guðmundur ríki var ungur drengur norður í Eyjafirði og trúði því að Einar bróðir hans Þveræingar væri sér ekki aðeins miklu greindari, heldur einnig hitt að hann réði honum ávallt heilt. Þeir voru að leik úti í sólinni saman, bræðurnir, og fóstri Guðmundar hafði sofnað. Á skalla hans var fluga sem Einar ráðlagði honum að drepa með handexi sem Guðmundur átti. Og þegar hann hóf upp öxina og gerði tilraun til að drepa fluguna, þá slapp hún en hann skrámaðist svolítið, gamli maðurinn, og spurði hvort Guðmundur væri að vinna á sér. Hann áttaði sig þá á því hvað hann hafði gert og varð miður sín og sagði: ,,Nú ið fyrsta finn eg það að eigi eru ráðin Einars, bróður míns, heil við mig.`` Og það verður að segjast eins og er að þeir sem hafa lesið stjórnarskrána fyrir hæstv. ráðherra og reynt að túlka hafa ekki beinlínis ráðlagt ráðherranum heilt og skal nú örlítið að því vikið.
    Í lánsfjárlögum eru teknar fram þær heimildir sem ríkið hefur til lántöku. Sú ákvörðun að fella mína brtt. kallar að sjálfsögðu á það að á næsta þingi þegar lánsfjárlög verða lögð fram mun ég flytja brtt. við lánsfjárlögin þar sem ég legg til að þær upphæðir sem húsnæðismálastjórn á að taka að láni verði færðar inn í lögin. Og jafnframt að þær ríkisábyrgðir sem ætlunin sé að veita fyrir húsbréfum verði færðar inn í þennan texta.
    Ég geri ráð fyrir því, miðað við það að hér horfir hver á annan en hugsar lítt, að þetta muni verða fellt og þá hefur skapast það sem kallað er réttarfarsóvissa, réttarfarsóvissa um það hvort bréfin séu raunverulega með ríkisábyrgð. Og að þeirri réttarfarsóvissu fenginni getur hver einasti handhafi slíks bréfs orðið aðili að sakamáli á hendur ráðherranum til þess að fá úr því skorið hvort bréfið sé með ríkisábyrgð eða ekki og hæstv. félmrh. þar með bæst í hóp þeirra tveggja sem í dag sitja á þingi, orðið sá þriðji sem fær dóm fyrir að brjóta 40. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Og heill sé hennar ráðgjöfum. Þeir verða ekki dæmdir fyrir eitt eða neitt. Þeir eru nafnlausir á bak við. Þeir hafa aðeins ráðlagt sínum ráðherra þá mestu vitleysu sem hugsanleg var í stöðunni. Og hver er hún? Jú, nú vil ég lesa upp rökstuðning ráðherrans fyrir því að hafa beri 40. gr. að engu.

    Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lesa hér upp úr ræðu ráðherrans um þetta mál:
    ,,Ég bendi á það í fyrsta lagi að Alþingi hefur falið ákveðnum stofnunum með sérlögum tiltekin verkefni og heimilað þeim starfsemi, þar með taldar lántökur sem eru með ríkisábyrgð, til þess að sinna sínum verkefnum. Má þar einkum nefna ríkisbankana og húsnæðislánasjóðina. Það er þannig að ríkisbankarnir gefa út bankabréf, bæði fyrir einstaklinga og til fyrirtækja, sem eru með ótakmarkaðri ríkisábyrgð og allar inneignir á sparisjóðsbókum eru auðvitað líka með ríkisábyrgð. Þar er þó ekki um að ræða að þar liggi fyrir einhver bein heimild frá Alþingi um ákveðna upphæð í því efni, heldur hefur Alþingi gefið út sérlög, t.d. að því er varðar ríkisbankana, þar sem heimiluð er slík ríkisábyrgð.
    Ég vil einnig nefna í þessu sambandi varðandi erlend lán sem ríkisbankar taka til að endurlána atvinnufyrirtækjum að þar er í fæstum tilfellum um formlega lagaheimild að ræða til lána. Og sá útistandandi stokkur endurlána er núna um 30 milljarðar kr. Síðan er auðvitað ástæða til þess að nefna það varðandi lántökur lífeyrissjóðanna hjá húsnæðismálastjórn að þar hefur ekki verið talin ástæða til að afla heimildar Alþingis á lánsfjárlögum fyrir þeim lántökum sem þó eru frá lífeyrissjóðunum í húsnæðislánakerfið.
    Fleira má auðvitað nefna, sem ég er ekkert að mæla bót, sem eftir á er samþykkt af Alþingi, eins og aukafjárveitingar og fleira. Þannig að ef menn vilja skoða þetta mál tel ég að menn eigi að skoða það í heild sinni og nefni þar sérstaklega bankana sem eru sambærilegir við það sem ég er að nefna hér og ef frv. um húsbréf er samþykkt hér á Alþingi er raunverulega komin lagastoð í sérlögum um ríkisábyrgð sem yrði þá í þessu tilfelli að finna í sérlögum um húsbréf. Hér er ekki um bein útlán að ræða, heldur einungis ríkisábyrgð. Þetta taldi ég nauðsynlegt að fram kæmi, herra forseti, að því er þetta ákveðna atriði varðar.``
    Það er nú svo. Ef borinn er saman lagatextinn um Landsbanka Íslands og Húsnæðisstofnun, þá stendur hér í 2. gr. um Húsnæðisstofnun, það er í Stjórnartíðindum A nr. 60/1948, með leyfi forseta:
    ,,Húsnæðismálastofnun ríkisins er sjálfstæð ríkisstofnun sem lýtur sérstakri stjórn og heyrir undir félagsmálaráðuneytið.``
    Í lögum um Landsbanka Íslands frá 1961 stendur svo, með leyfi forseta:
    ,,Landsbanki Íslands er sjálfstæð stofnun, sem er eign ríkisins, en lýtur sérstakri stjórn samkvæmt lögum þessum.
    2. gr. Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Landsbanka Íslands. Til þess að taka lán erlendis án tryggingar í sjálfs sín eignum þarf bankinn sérstaka lagaheimild hverju sinni.``
    Það kemur hvergi fram um Húsnæðisstofnun að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum hennar skuldbindingum. Ef búið væri að gefa út húsbréf í 20 ár og mönnum litist ekkert á ábyrgðirnar eins og

hæstv. ráðherra vill setja þetta upp gæti ríkisstjórn einfaldlega selt Húsnæðisstofnun, selt hana bara hlutafélagi sem keypti ,,bixið``. Og hver bæri þá ábyrgð á húsbréfunum, hæstv. félmrh.? Kaupandinn. Kaupandinn bæri ábyrgð á húsbréfunum. Og væri þá gaman að standa frammi fyrir því fólki sem búið væri að draga á asnaeyrunum? Það gæti vel farið svo að ráðherra yrði dreginn fyrir dóm fyrir tiltækið. En það stendur hvergi í lögunum um húsnæðismálastjórn að ríkissjóður beri alla ábyrgð á henni.
    Ég held að hæstv. ráðherra þurfi að gera sér grein fyrir því að hin atriðin sem hann nefndi varðandi bankana fá ekki heldur staðist. Það er skýrt ákvæði í landsbankalögunum að til þess að taka lán erlendis þarf sérstaka lagaheimild ef tryggingin á ekki aðeins að vera í eigum bankans. Og hvað er sagt um veðdeildina sem menn hafa verið að tala um að hefði farið af stað með pompi og prakt og manni skilst nánast að ríkið eigi að bera fulla ábyrgð á? Það er kannski rétt að skoða lögin gömlu frá 1900 um stofnun veðdeildarinnar. Með leyfi forseta hljóðar 1. gr. svo:
    ,,Í Landsbankanum í Reykjavík skal stofna veðdeild til þess að veitt verði lán um langt árabil með vægum vaxtakjörum og gegn veði í fasteignum. Tryggingafé deildarinnar er 200 þús. kr. sem landssjóður leggur til og skal það ásamt veðbréfum sem deildin fær hjá lánþegum sínum og öllum öðrum eignum deildarinnar vera til tryggingar því að hún standi í skilum.``
    Alls staðar í landsbankalögunum koma fyrirvarar á fyrirvara ofan sem eru ætlaðir til þess að koma í veg fyrir það að það leiði til stórkostlegs taps fyrir ríkið. Og að lokum: Það hefur enginn dómur fallið um þá ákvörðun að ríkið beri ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, að það standist. Það hefur enginn dómur fallið í slíku máli. Það er opin ábyrgð. Takmarkanirnar eru í lögunum, gífurlegar takmarkanir til að reyna að tryggja að það leiði ekki til taps. Engu að síður hefur enginn dómur fallið sem sanni það að þetta haldi.
    Ég vil bara minna á það að menn tóku ákvörðun um það að breyta Útvegsbankanum í hlutafélag og að tveimur árum liðnum skyldu ríkisábyrgðirnar vera úr sögunni. Hvað með bankabréf Landsbankans ef menn tækju nú ákvörðun um að breyta honum í hlutafélag og að ríkisábyrgðirnar væru úr sögunni eftir tvö ár? Hvað héldi? Ég held að hæstv. ráðherra verði að gera sér grein fyrir því að stjórnarskrá Íslands er æðri öllum öðrum lögum og það er ekki til í túlkun Hæstaréttar það viðhorf sem er í túlkun hæstaréttar Frakklands, að það sem þingið samþykki sem lög sé innan ramma stjórnarskrárinnar. Dómstólar Íslands viðurkenna þrígreiningu valdsins og þar með að það skuli vera dómstólamál að skera úr því hvort lög haldi eða ekki.
    Ég vil segja það hér og nú að ef menn halda að skuldbindingar Húsnæðisstofnunar, undirritaðar af starfsmönnum hennar, haldi gagnvart lántökum með ríkisábyrgð fyrir dómum, þá er það algjör vitleysa. Það þarf undirskrift fjmrh. til að binda og meira að

segja spurning undir sumum kringumstæðum, ef ráðherrann skrifar undir án heimilda, hvort slíkt heldur. Það sem íslenskir ráðherrar hafa leikið sér að trekk í trekk er það að Alþingi láti endalaust bjóða sér það að ekki sé hægt að draga ráðherra fyrir landsdóm. Í trausti þess hafa þeir hrókerað en vara sig ekki á hinu, að sum mál eru þess eðlis að það er hægt að finna aðila málsins, án þess að Alþingi samþykki, draga ráðherra fyrir landsdóm og þá fer málið fyrir Hæstarétt Íslands og þar er hægt að láta dæma. Og ég rakti það hér áðan á mjög einfaldan hátt hvernig þeir hlutir standa gagnvart húsbréfunum ef menn ætla að halda áfram í ófærunni og mundu láta fella það hér á Alþingi að þau færu inn í lánsfjárlögin. Þá er hægt að höfða mál fyrir Hæstarétti. Mér er ljóst að þeir sem eru búnir að taka við 100 milljónum þurfa ekki að hlusta á þetta. Mér er það ljóst. Það er ekkert skrýtið út af fyrir sig enda stefnuskráratriði af formanni Kvennalistans að þær ætla að selja sig dýrt. ( Gripið fram í: Formanni? Hvaða formanni?) Formanni þingflokksins.
    Það var merkileg yfirlýsing á sínum tíma hjá heilum þingflokki að stefnan væri að selja sig dýrt og það var engin skilgreining gefin á því hvaða verð það væri sem þær teldu dýrt. En nú virðist sem þessi þjónusta sé seld fyrir 600 millj. og borgað úr ríkissjóði. (Gripið fram í.) Mér er alveg ókunnugt um
það hvort verðið þá var eitthvað annað fyrir lengri eða meiri þjónustu. Ég vil bara undirstrika það og því skyldi Kvennalistinn gera sér grein fyrir að þetta eru dýrustu pólitísku mistök sem sá listi hefur gert. ( Gripið fram í: Fyrir hvern?) Fyrir Kvennalistann. Og sennilega hafa fulltrúarnir aldrei lagt það á sig að lesa frv. Og hafi þær lagt það á sig að lesa það, þá er öruggt mál að fulltrúarnir hafa ekki skilið það sem þeir lásu. Ég vil fullyrða það að það eru margir sem vildu prófa það með góðum vilja hvort ekki er hægt að feta sig inn á þá braut og reyna að sjá hvað gerist, en óvissuþættirnir eru margir. Það er hins vegar ekki gefinn kostur á neinu slíku. Það eru fyrirmæli um að keyra á fullri ferð inn í þá óvissu að það veit enginn hvort þessi bréf sem gefin verða út verða geymd í bankahólfum af eigendunum, seld lífeyrissjóðunum eða seld á hinum frjálsa markaði. Og þess vegna veit enginn hvort þetta verður til þess að hækka verð á íbúðarhúsnæði í landinu, söluverð á því, að tiltækið verði til þess að færa eigendum húsnæðisins fjármuni en hinum sem eru að leita eftir húskaupum hærri múr til að klifra yfir til þess að eignast eigið húsnæði. Og það er merkilegur hlutur, þó að ekki sé meira sagt, að heil ríkisstjórn taki ákvörðun um að taka slíka áhættu eins og hér er gert þegar það var hægur vandi að feta sig inn á þessa braut með eðlilegum hraða þannig að menn gætu áttað sig á því hver viðbrögðin yrðu, hvað mundi gerast. Það sækir að manni sú hugsun að það frv. sem Borgfl. flutti á sínum tíma um húsbanka, og er sennilega með skynsamlegri hugmyndum sem fram hafa komið til breytinga á því húsnæðiskerfi sem við búum við, hafi sennilega verið misskilið. Sennilega hefur það bara einfaldlega verið misskilið og menn

ætlað að stæla það og niðurstaðan orðið sú að út úr misskilningnum varð þetta frv. sem hefði samt sem áður, ef menn hefðu viljað feta sig áfram með eðlilegum hraða, getað fært okkur þekkingu til þess að haga lagasetningunni á þann veg að það hefði orðið til góðs, en með þeirri ákvörðun að setja á fulla ferð út í óvissuna veit enginn nema þetta verði til þess að sprengja upp húsnæðisverð í landinu á þann veg að við setjum margar, margar fjölskyldur í hreinar ógöngur, fjármálalega séð. Það er nefnilega dálítið mikill munur á því að gefa út bréf sem eiga að duga til að kaupa íbúð og hinu að sá íbúðafjöldi sé til í landinu sem fullnægi þeim þörfum sem menn eru að tala um að eigi að fullnægja. Hús þarf að byggja. Þau verða ekki bara til með bréfum. Og það er þessi stóri misskilningur að halda að með því að dæla endalausu fjármagni beint inn í þetta kerfi sé verið að leysa húsnæðisvandann. Þá getur afleiðingin fyrst og fremst orðið sú að verðið á íbúðarhúsnæði þjóti upp eins og gerðist eftir Vestmannaeyjagosið og margir muna. Hinir miklu peningar sem þá fóru í umferð vegna bótanna urðu til þess að sprengja upp húsnæðisverðið á Reykjavíkursvæðinu.
    Nei, það er furðulegt að það er eins og það eigi að vera hlutskipti okkar Íslendinga að sú gamla hugsun sem var orðuð á þann veg að flýta sér hægt skuli einskis metin í því að fóta sig áfram í lagasetningu um húsnæðismál til þess að tryggja það að við bætum þau lög í staðinn fyrir að menn stefni út í óvissu og e.t.v. verði til þess að stórskaða. Ég vil segja um það húsnæðiskerfi sem nú er: Vissulega er þar verulegur biðlisti og vissulega er það misnotað líka, en það er einnig hægt að misnota þetta kerfi og kannski er það nú svo að þeir sem harðast berjast nú í dag fyrir því að engar takmarkanir megi vera jafnvel þótt allt fjármagn húsnæðismálakerfis Íslands, lífeyrissjóðanna, færi í húsnæðiskerfið, átti sig á nokkrum árum og segi: Mér urðu á mistök. Spurningin er: Eru þeir borgunarmenn fyrir þeim mistökum, þeim þjóðfélagslega skaða sem af því yrði?
    Við álpuðumst til þess að taka upp verðtryggingu að nafninu til sem var byggð á vísitölum. Það voru harðar deilur þá, m.a. í þingflokki Framsfl. Ég man eftir því að þá, sem ungur og óreyndur maður í pólitík, hélt ég því fram að það mundi aldrei ganga upp að hafa verðtryggingu á fjármagninu en ekki á laununum. Ef þeir vildu setja eðlilega verðtryggingu á fjármagnið, þá yrði það að vera í því formi að það yrði gengistrygging sem yrði sett, gengistrygging miðað við vestræna gjaldmiðla í ljósi þess að íslenska þjóðin væri hluti af hinum vestræna heimi og hér yrðu menn að taka sömu áhættu og íbúar hins vestræna heims. Nei, vísitölutryggt, séríslenskt kerfi, ekkert annað dugði. Það má varla hreyfa við einum einustu lögum hér í þinginu án þess að það hafi áhrif á lánskjaravísitöluna.
    Við samþykktum umferðarlög. Þau höfðu áhrif á lánskjaravísitöluna. Við getum ekki hreyft óbeinum sköttum. Það hefur áhrif á lánskjaravísitöluna. Auðvitað er þetta talandi dæmi um það hvað menn

geta ratað í miklar ógöngur í lagasetningu þegar menn álpast til þess að vilja ekki taka tillit til þess hvernig umheimurinn leysir mál í staðinn fyrir að séríslensk útgáfa, alfullkomin, skal taka við.
    Mér er ljóst að sérfræðingarnir sem stóðu á bak við þær ráðleggingar verða aldrei dregnir fram í dagsljósið til að bera ábyrgð á vitleysunni. Þeir verða aldrei dregnir fram í dagsljósið. Það verða náttúrlega stjórnmálamennirnir sem sitja uppi með alla ábyrgðina. Það fer ekkert á milli mála. Og það er spurning
hvort þeir sérfræðingar sem í dag neita að flýta sér hægt í þessu máli, neita að það þurfi að taka ábyrgðirnar inn í lánsfjárlög, krefjast þess nánast að menn hirði ekkert um stjórnarskrána, benda á það að e.t.v. sé stjórnarskráin brotin annars staðar og þess vegna eigi að halda áfram að brjóta hana --- þessir sérfræðingar verða ekki til þess að bjarga einu eða neinu þegar stjórnmálamennirnir standa frammi fyrir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Og í þeirri stöðu að mönnum er stillt upp við vegg, annaðhvort fylgja þeir þessu frv. þó að það brjóti stjórnarskrána eða þeir fylgja því ekki, þá segi ég fyrir mig að ég á ekki annarra kosta völ en að greiða atkvæði með því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, bara fyrir það að það er ekki hægt að taka tillit til þess að stjórnarskrá Íslands setur skýr ákvæði um þessa hluti.
    Það er söguleg staðreynd að átök milli þings og framkvæmdarvalds leiddu til þess að það voru samdar leikreglur sem ætlast er til að farið sé eftir og skráðar eru í stjórnarskrá hvers lands. Gallinn í okkar leikreglum eru lögin um landsdóm. Þau eru meingölluð. Sums staðar erlendis er því hagað á þann hátt að áður en frumvörp fara fyrir þingið fara þau fyrir stjórnlagadómstól og þar er skorið úr um það hvort þau standist samkvæmt stjórnarskránni og þingmenn sleppa við að standa frammi fyrir því eins og hér að þurfa stöðugt að leggja á það sjálfstætt mat. Dómurinn er fallinn áður. Hér aftur á móti er litið svo á að meiri hluti Alþingis sem stendur á bak við ríkisstjórn hverju sinni eigi að sjá til þess að enginn ráðherra fari fyrir landsdóm. Þannig er samtryggingunni ætlað að starfa og þeir sem ekki una þessum leikreglum verða náttúrlega að þola það að verða settir út í kuldann, í sumum tilfellum af sínum stjórnmálaflokkum sem þeir hafa stutt eða þá þeirri ríkisstjórn sem þeir verja.