Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. 3. minni hl. félmn. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Ég tel ástæðu til að koma aðeins frekar inn í þessar umræður, ekki af því að ég sé ekki búinn að tala nægilega mikið og mín afstaða sé ekki skýr í þessu máli, heldur einmitt vegna þess að það er ljóst að hæstv. félmrh. ætlar ekki að leiðrétta sitt mál, leiðrétta það sem hún hélt fram og hefur haldið fram í ræðum hér og í fjölmiðlum raunar líka, að það væri í raun og veru ekkert þak á húsbréfaútgáfu. Og hæstv. ríkisstjórn lét sig hafa það, þrátt fyrir þá fyrirvara og þau skilyrði sem þingflokkur Framsfl. lagði fram og hæstv. heilbrmrh. lýsti að nokkru hér áðan, sjálfsagt að vilja hæstv. félmrh., að þetta sé ekki nefnt í frv. nema að mjög litlu leyti, nokkur atriði í ákvæðum til bráðabirgða. Ég þykist vera orðinn nokkuð gamall í hettunni og hef fylgst með ýmsu og þó að ég sé ekki lögfróður er það alveg ljóst að lög eru lög og ef frv. sem hér er til umræðu verður að lögum verður það staðfest af forseta Íslands fljótlega eftir að svo hefur orðið. Og þá gilda þau ákvæði í þeim lögum sem þar eru til staðar. Þess vegna er það alveg ljóst að það ákvæði sem átti að vera þak á útgáfu húsbréfa eftir kröfu Framsfl. er ekki inni í þessum lögum og verður að engu haft miðað við þær yfirlýstingar sem hæstv. félmrh. hefur gefið hér við 2. umr. þessa máls.
    En vegna þess að þessi skilyrði Framsfl. komu hér inn í umræðurnar, og þó að ég hafi lýst þeim að nokkru við 1. umr. þessa máls, þá þykir mér rétt að endurtaka það, ekki síst vegna þess að mér fannst hæstv. heilbrmrh. gera þessu ákaflega veikluleg skil, ef má orða það svo. Vegna þeirrar orðahríðar sem hér hafði farið fram í 2. umr., bæði sl. laugardag og síðast þegar þetta mál var hér til umræðu var einmitt full ástæða til að undirstrika þetta atriði, sérstaklega þar sem hinir, mínir ágætu flokksmenn, sem eiga sæti í þessari deild, að undanteknum síðasta ræðumanni, hafa ekki séð sér fært að koma hér upp í ræðustól, hvorki formaður þingflokks Framsfl. né aðrir hv. þm., til þess að svara þeim ásökunum sem fram hafa komið í þessum umræðum á Framsfl., bæði frá hendi hæstv. ráðherra og einnig frá ýmsum hv. þm. sem hér hafa tekið til máls í þessari umræðu. Þrátt fyrir þessa afstöðu mína, að vera andvígur frv. og greiða því atkvæði gegn því, þá, eins og ég sagði við umræður á næturfundi síðast þegar um þetta var fjallað, þegar ég lýsti því ítarlega hvers vegna ég væri á móti þessu frv., tók ég það auðvitað fram að mitt hlutverk væri í þessari umræðu að verja stefnu flokksins, að verja stefnu Framsfl., stefnu sem mörkuð var á síðasta landsþingi flokksins í nóvember sl., stefnu sem var undirstrikuð á miðstjórnarfundi og stefnu sem var undirstrikuð á þingflokksfundi um þessi mál. Og þegar húsbréfin komu til greina, að ræða það í þingflokki hvort þingflokkurinn mundi vilja hleypa því máli hér fram, þá var skipuð til þess ráðgjafarnefnd okkar færustu manna í húsnæðismálum, þ.e. fulltrúa sem eru í húsnæðisstjórn og víðar, og þeir sömdu greinargerð sem þeir lögðu fyrir þingflokkinn þar sem þeir vöruðu við því að fara inn á þessa braut, heldur bentu á

stefnu flokksins. Og fyrsta samþykkt þingflokksins gagnvart frv. var þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þingflokkur framsóknarmanna telur óráð að hverfa frá núverandi húnæðislánakerfi í megindráttum þar sem það stefnir í jafnvægisátt. Hins vegar telur þingflokkurinn rétt að gera tilraun með húsbréfakerfi til hliðar við núverandi kerfi. Felur þingflokkurinn ráðherrum flokksins að vinna að húsbréfakerfinu með eftirtöldum skilyrðum:
    1. Varði aðeins skipti á eldri íbúðum.
    2. Takmarkist við ákveðna upphæð á ári, t.d. 500 millj. kr.
    3. Vextir verði ekki hærri en á ríkisskuldabréfum.
    4. Þeir sem eru í biðröð gangi fyrir.
    5. Húsbréfadeild verði í Húsnæðisstofnun.
    6. Tilraunin verði endurmetin að tveimur árum liðnum, eftir að búið er að gera þessa tilraun með tvisvar sinnum 500 millj. kr.
    7. Kaupskylda lífeyrissjóðanna verði óbreytt.``
    Með þetta veganesti fóru ráðherrar Framsfl. í ríkisstjórn til þess að ná samkomulagi um þetta mál. Ég ætla að sleppa öllum millileikjum í þessu, en niðurstaðan varð sú sem var kynnt á ríkisstjórnarfundi þar sem hæstv. heilbrmrh. gerði grein fyrir viðræðum sínum við hæstv. félmrh. og hæstv. landbrh. sem tóku þátt í þessum samningum og formann þingflokksins sem einnig tók þátt í umræðunum um málið. Og þeir lögðu til við þingflokkinn að gengið yrði til samkomulags á eftirfarandi grundvelli, sbr. bókun sem ég áður las sem byrjaði á því að þingflokkur Framsfl. telji óráð að hverfa frá o.s.frv. o.s.frv. En þessi grundvöllur var þannig:
    1. Nái aðeins til eldri íbúða fyrsta árið.
    2. Vextir verði þeir sömu og á spariskírteinum ríkissjóðs og skattaleg meðferð sú sama.
    3. Þeir sem eru í biðröð gangi fyrir, a.m.k. til bráðabirgða í sex mánuði.
    4. Húsbréfadeildin verði í Húsnæðisstofnun.
    5. Tilraunin verði endurmetin að tveimur árum liðnum.
    6. Kaupskylda lífeyrissjóðanna verði óbreytt en heimilt verði að verja allt að 10% upphæðarinnar til kaupa á húsbréfum. Þetta ákvæði verði endurskoðað að sex mánuðum liðnum frá gildistöku laganna.
    Í framhaldi af þessu var samþykkt að heimila framlagningu frv. að þessum skilyrðum uppfylltum í frv. sjálfu. Þingflokkur framsóknarmanna heimilar þess vegna framlagningu frv. til laga um húsnæðislánabréf í samræmi við ályktun þingflokksins frá 9. mars og samkomulag sem viðræðunefndir flokkanna hafa komist að. Málið þarfnast rækilegrar athugunar í þingnefndum. Einstakir þingmenn hafa óbundnar hendur við afgreiðslu málsins.
    Það er ljóst að sá ræðumaður sem hér stendur tilkynnti við þessa afgreiðslu að hann mundi berjast gegn frv. og ekki taka þátt í neinum samningum að öðru leyti um þetta mál og þar af leiðandi er komin hrein skýring á afstöðu minni í sambandi við þetta mál frá upphafi til enda og hefur ekki verið nein launung á því og engin hrossakaup eða

millisamningar, hvorki reyndir eða látið sér detta í hug að gera í þessu máli.
    Ég taldi rétt, herra forseti, að þetta kæmi hérna hreint fram. Fyrst á annað borð er búið að ræða þessar athugasemdir og þessi skilyrði þingflokksins, þá væri það upplýst eins og það er í raun og veru. En ég þarf ekki að endurtaka það að þetta er ekki í lögunum. Sum þessi atriði sem minna máli skipta eru í ákvæði til bráðabirgða, en aðalatriðið, þakið, sem flokkurinn gerði að aðalatriði málsins og studdist við það að rétt væri að gera tilraun í smáum stíl til hliðar við núverandi húsnæðiskerfi og sjá hvernig það kæmi út, er ekki þar inni. Og ég vil einmitt benda á það í þessari umræðu, af því að það var vitnað til eins ágæts manns sem stjórnar og stýrir verðbréfasölu, Sigurðar B. Stefánssonar, að hann lagði einmitt áherslu á það á fundi í félmn. Nd. að hann teldi að eðlilegt væri að taka smáskref í þessu máli meðan menn væru að átta sig á því hvort grundvöllurinn væri nógu traustur til þess að taka þetta mál upp í stórum stíl.
    Ég get auðvitað bætt því við að það er alveg ljóst að hæstv. félmrh. ætlar ekki að taka orð sín aftur í sambandi við þær fullyrðingar sem hún hefur sett fram, ekki aðeins úr þessum ræðustóli, heldur víðs vegar í þjóðfélaginu, í fjölmiðlum og því sem Alþýðublaðið og aðrir fjölmiðlar hafa eftir henni haft, að hún telji sig hafa þann skilning réttan að hér sé aðeins um það að ræða að lífeyrissjóðirnir þurfi ekki að greiða inn í skyldu nema 45% sem fari í húsnæðiskerfið en 10% fari í húsbréfin eins og þeir vilja. Þar með er ríkisábyrgðin í lausu lofti miðað við þessa túlkun og náttúrlega gjörbreytir allri meðferð málsins. Og ég skil ekki í því geðleysi, ég segi það alveg eins og er, í forustu míns flokks að leyfa sér það að láta þetta fara í gegn án þess að þetta sé rígbundið eins og þingflokkurinn var neyddur til þess að taka afstöðu til málsins, þrátt fyrir stefnu flokksins. Mér finnst ástæða til þess að hnykkja á þessu atriði, a.m.k. vegna þess að ég sé að nokkrir hv. þm. sitja hér og hlusta á mál mitt.
    Um það sem hér hefur komið fram í þessum umræðum mætti náttúrlega margt segja og ég verð að segja það alveg eins og er með fullri virðingu fyrir kvennalistakonum að það er búið að vera ágætt samstarf í félmn. og ég tek það fram að þar hefur ekki verið einn metingur eða neinar hörkuumræður um þessi mál, heldur hefur verið reynt að kafa í málin og skoða gögn sem okkur hafa verið send og umsóknir og ræða við færustu menn um málið í heild og ég hef aldrei getað fundið það að hv. fulltrúi Kvennalistans í félmn. væri ginnkeypt fyrir því að ganga inn á þetta mál í því formi sem það er í því frv. sem við erum að fjalla um, aldrei. Hún hefur haft allar efasemdir og hún hefur verið raunverulega miklu krítískari á þetta mál og talið á því alls konar vankanta, heldur en jafnvel við hinir, að mér meðtöldum, og þess vegna kemur það manni alveg á óvart að Kvennalistinn skuli geta á einu vorkvöldi hérna við Tjörnina geta tekið þá ákvörðun að falla frá allri gagrnýni í raun og veru og

semja um þetta: Ja, ef við getum haft áhrif á það að farið verði að byggja fleiri félagslegar íbúðir o.s.frv., þá hættum við bara að röfla um þetta mál --- þó að þær viti sjálfar, miðað við þær umræður sem fram hafa farið, að þetta er alls ekki undirbúið mál og fasteigna- og verðbréfamarkaður hér á Íslandi er ekki tilbúinn til að taka við þessu. Og þær vita það líka sjálfar að fólkið sem þær þykjast vera að verja, alveg eins og við, alveg eins og ég, er ekki tilbúið til þess að fara inn í þessi viðskipti sem þarna eiga að fara fram. Þess vegna er það alveg augljóst mál að þær eru með einhverja vorglýju í augum að reikna með allt öðru en þær eru í raun og veru sannfærðar um, hvaða áhrif þetta hefur fyrir íslenskan almenning, því miður.
    Auðvitað er það hlægilegt í raun og veru að hlusta á hæstv. fjmrh., sem því miður er ekki hér í húsinu lengur, halda því fram, kasta því fram, að það sé ekkert vandamál að útvega 600 millj. extra til þess að auka við félagslegar íbúðir núna á þessu og næsta ári. Þetta er náttúrlega meira ábyrgðarleysi en maður getur nú vænst frá manni a.m.k. sem er í fyrsta sinn í stóli fjmrh. og veit að eftirleikurinn er ekkert þægilegur þegar staðreyndirnar koma á borðið.
    Við höfum margir átt við það að glíma að ná fjármagni inn í húsnæðiskerfið og það hefur ekki verið neinn dans á rósum og verður það aldrei. Þrátt fyrir það að það tókst með lögunum 1986 að ná samkomulagi við heildarsamtök launþega um að stýra þessu fjármagni inn í kerfið, þá er það samt sem áður háð ýmsum bremsum og erfiðleikum sem blasa alls staðar við þegar á reynir. Hæstv. fjmrh. sem býr við kerfi sem hann ræður ekki við í raun og veru og veit að það eru alls staðar hættumerki í þjóðfélaginu í sambandi við þessi mál, hann veit að það þarf að semja við lífeyrissjóði landsins til þess að reyna að rétta við stöðu atvinnuveganna með umframfjármagni. Og ábyrgðarleysið er svo gegnumgangandi að hæstv. félmrh. sem ber ábyrgð á vinnumarkaðinum hér í landinu og ber ábyrgð á því á vissan hátt að tryggja það að atvinnustigið sé í lagi, hæstv. félmrh. hefur ekki áhyggjur af þessum málum, síður en svo. Það skiptir kannski engu máli hvort atvinnuleysið fer í 10 þúsund manns o.s.frv., heldur skal halda þannig á þessum málum að allt miði að því að ná öllu fjármagni lífeyrissjóðanna umfram 55% inn í húsbréfakerfið í landinu. Það á ekki að liðka til þannig að lífeyrissjóðirnir geti látið eitthvað af hendi til atvinnurekstursins. Auðvitað dettur engum lífeyrissjóði það í hug að láta frystihús eða einhverjar verksmiðjur sem eru í vandræðum og að því komnar að verða gjaldþrota fá lífeyrissjóðsfjármagnið, á sama tíma og þeir geta fengið ríkistryggingu, ríkisábyrgð á húsbréfum á frjálsum markaði.
    Þetta sér hver heilvita maður sem eitthvað vill sjá. Ég hef rætt þetta áður í þessari umræðu og ætla ekki að gera lengra mál úr því. En þetta er sorgleg staðreynd að hæstv. fjmrh. skuli koma hér gleiðbrosandi og segja: Það er ekkert vandamál að verða við kröfu kvenfólksins, Kvennalistans, sem

hefur ekki meiri ábyrgð gagnvart vinnandi fólki í landinu og gagnvart þeim stéttum sem þær vilja verja en það að bara slá þessu svona fram. Við viljum bara fá 600 millj. til þess að byggja fleiri íbúðir. Þær hafa ekki áhyggjur af vinnuþættinum, ekki atvinnulífinu í landinu. Og ég tala nú ekki um hæstv. félmrh. sem á í raun og veru að vera vörður þess að atvinnustigið í landinu sé í lagi. Svona er nú komið fyrir þessu kerfi öllu saman, því miður.
    Ég kemst ekki hjá því að ræða aðeins við hv. 4. þm. Reykn. Ég vil sérstaklega taka það fram að ég virði hann sem einn færasta þingmann sem a.m.k. Alþfl. á í dag og hefur verið svo langa hríð. Hann er maður sem er sanngjarn og hann er maður sem er mjög glöggur á tölur og allt sem því fylgir. Þess vegna er ég ekkert hissa á því þó að hann taki að sér hlutverkið, ekki síst þegar hann veit það að hann er að hverfa til --- ja, ég hætti nú við að segja það sem ég ætlaði að segja en ég held ég láti nægja: --- annarra landa og taka við starfi sem er á allt öðru sviði og hann þarf ekki lengur að hafa neinar áhyggjur, hvorki af krötunum á Íslandi eða því efnahagskerfi og efnahagsvanda sem við erum að glíma við. Þá er það kannski skýringin á því að hann skuli hafa sig í það að setja hér upp glansmynd, á þann hátt sem hann gerir, af því hvernig þetta nýja húsbréfakerfi sem hann tók ástfóstri við á sl. ári, hvernig það gæti orðið, hvernig það gæti virkað hér. Auðvitað veit hv. þm. að þetta er glansmynd. Hann veit að raunveruleikinn er allt annar. Hann veit það sjálfur að t.d. verðbréfa- og peningamarkaðurinn hér á Íslandi --- hvernig haldið þið að hann sé? Hann veit það, Kjartan Jóhannsson, að við erum með ófullburða peningamarkað. Við erum með ófullburða verðbréfamarkað sem er í raun og veru í burðarliðnum, á eftir að ná öllu jafnvægi o.s.frv. Ég tek það fram að ég er ekki að hafa á móti slíkum hlutum hér á landi. Ég tel að Ísland þurfi að hafa sterkan peningamarkað og verðbréfamarkað og fasteignasala og allt sem því fylgir í góðu lagi, en það er langt, langt í frá að því markmiði sé náð, því miður. Það á eftir að fara í ótal kollsteypur í þessum málum sem við höfum þegar orðið illilega vör við. Þarf ekki að nefna nema dæmið um Ávöxtun á sl. ári og margt fleira sem því fylgir þannig að það er ekki grunnur og ekki tímabært að gera þetta sem hér er verið að tala um á líðandi stund og í næstu framtíð, það er alveg ljóst.
    Ég gæti talað margt við hv. þm. í sambandi við það sem hann sagði hér áðan, um það húsnæðiskerfi sem við búum við sem því miður margir og allt of margir fulltrúar Alþfl. börðust gegn á sínum tíma og töldu að þetta væru aðilar úti í bæ, aðilar vinnumarkaðarins, og sú löggjöf sem þá var sett, að hún hefði ekki átt að verða. Ég ætla ekki að fara út í það en ég verð að segja það við hv. þm. að hann veit það sjálfur að stærstu launþegasamtök landsins, raunar nærri öll launþegasamtök landsins, hafa trú á því enn að þetta kerfi sem var sett upp muni duga um langa hríð og það sé hægt að gera á því lagfæringar

í samráði við þessi samtök sem muni duga. Og sjálfsagt veit hv. þm. það sjálfur að þeir aðilar sem voru í þessari nefnd með honum, sem voru m.a. forseti Alþýðusambands Íslands og fulltrúi Framsfl., Guðmundur Gylfi Guðmundsson, hagfræðingur hjá Fasteignamati ríkisins, lögðu fram alveg skýrar og ákveðnar línur um það hvað væri hægt að gera til þess að skapa jafnvægi í þessu máli. Og þess vegna er náttúrlega allt hans tal um biðraðir til marks um það að hann byggir náttúrlega á sömu forsendum og hefur verið haldið fram án þess að það væri nokkurn tímann rökstutt eða raunverulega skilgreint hvað væri á bak við
þá biðröð sem sögð er vera í húsnæðiskerfinu. Sem betur fer eiga ýmsir aðgang að Húsnæðisstofnun ríkisins, aðrir en hæstv. félmrh. sem helst vill sem minnst tala við þá stofnun og nokkrir aðrir þm. Alþfl. og þess vegna höfum við alveg skýrar línur um það hvernig raunveruleikinn er miðað við það sem búið er að rannsaka, en umsóknir eru settar inn á tölvu og síðan eru þær geymdar þar án þess að úttekt sé gerð fyrr en að því kemur að eigi að fara að vinna útfærslu á lánsloforðum o.s.frv.
    Og einu gleymdi hv. þm. sem er rétt að minna á af því að hann var að dæma, eða a.m.k. hefur hann tilhneigingu til að dæma núverandi kerfi dautt og ónothæft, að inni í því kerfi eru ótal atriði til þess að stýra því en núna, a.m.k. í tvö og hálft ár, hefur ekki verið gerð tilraun til þess. Það er í sambandi við vaxtakerfið. Þar þarf ekki nema einn fund í ríkisstjórn til þess að taka ákvörðun um það að hafa breytilega vexti eða hækka vexti almennt, breytilega vexti til stýringar, en aldrei hefur þetta verið gert á þessu tímabili, ekki hin minnsta tilraun gerð til þess og heldur ekki að nýta ýmis ákvæði í núgildandi lögum til þess að draga úr útlánum eða útlánaþörfinni.
    Þetta eru staðreyndir sem ég held að sé rétt að rifja hér upp vegna ræðu hv. 4. þm. Reykn. og ég vil einnig segja honum það, af því að hann var alltaf að flagga þessari gulu bók sem vakti vissulega athygli og er í raun og veru mikið framtak. Hvað sem menn segja um innihaldið, þá er það framtak hjá hagfræðingi sem er vel menntaður maður að gefa sér tíma til þess að setja fram ákveðnar skoðanir í sambandi við þessi mál og önnur og láta þær koma til umræðu í þjóðfélaginu. Ég held að það sé af því góða þó að við förum ekki að taka undir álit Bjarna Braga og annarra sem segja að svona menn séu eitthvað öðruvísi en aðrir og það sé ekkert mark á þeim takandi. Það verður þá kannski að snúa dæminu við og spyrja hvort það væri þá mark á slíkum mönnum takandi sem kveða upp svona dóma.
    En ég ætla bara að benda hv. þm. á það að það væri ástæða til að hann færi yfir umsögn Fasteignamats ríkisins. Ekki er hægt að tala um að þar séu einhverjir aðilar á ferð sem hafi ekki reynslu og hafi ekki afskipti af fasteignamarkaðinum á Íslandi. Þar kemur einmitt beint fram að húsbréfin munu hafa --- að miðað við reynslu stofnunarinnar í gegnum tíðina sé alveg augljóst að þau muni hafa þensluáhrif,

eins og frv. liggur fyrir í þeirra augum, sem þýðir hækkun verðs á stærri íbúðum, og muni leiða til þenslu og þar með verðbólgu. Þetta kemur fram í þeirra áliti.
    Ég gæti talað margt fleira um þetta mál en ég ætla ekki að þreyta þingmenn á því en það væri kannski ástæða til vegna ræðu hv. 4. þm. Reykn. sem hefur ekkert verið í þessari umræðu. Hann var að vitna til ýmissa hagfræðinga og sérfræðinga í peningamálum og spurði: Af hverju er þeirra álit ekki alveg fullgilt fyrir ykkur? Við höfðum til viðræðu í félmn. einmitt marga þessa menn. Ég get vitnað í Pétur Blöndal sem er einn af þeim áhrifamestu núna á peningamarkaðinum, eða a.m.k. hefur hann yfir að segja fleiri en einni stofnun eins og Kaupþingi og öðrum slíkum og lífeyrissjóðum og hvaðeina. Hvað sagði hann? Hann taldi það ekkert vafamál að húsbréf mundu auka þenslu og þau mundu valda hækkun á verði húsnæðis og annars slíks og hann fór ekkert dult með það að það væri einhvers staðar á bilinu 30--40%. Hann sagði t.d. að það væri óeðlilegt ef þessi húsbréf yrðu ekki þannig úr garði gerð að það væri hægt að fara og fá þau í ýmsum einingum. Hann taldi það augljóst mál að þau ættu ekki að vera til 25 ára, heldur ætti að vera hægt að fá bréf sem væru til eins árs, til fimm ára, til tíu ára og hann sagði að einingin ætti helst að vera þannig að það væri 50 þús. hvert bréf til þess að hægt væri að nýta þau í hin almennu viðskipti eins og bílakaup og margt fleira. Þannig sá hann drauminn um húsbréfin. Hins vegar var Sigurður B. Stefánsson miklu varfærnari og virtist vera miklu ákveðnari í því að það yrði að skoða málin og taka smá skref í þessu efni og hann sagði að það væri ekkert vafaatriði að auðvitað ætti sú þróun að vera hér á peningamarkaði að húsbréf yrðu í skiptum fyrir peninga og þá komum við náttúrlega akkúrat að danska kerfinu sem er í raun og veru svipað og núverandi húsnæðiskerfi að hluta til. Þar er ákveðin stofnun sem leitar útboða á bréfum til þess að safna peningum til þess að lána aftur hinum megin.
    Ég vil virða það við hv. þm. Kjartan Jóhannsson að hann var ekkert að fela sitt álit í sambandi við þessi mál. Hann sagði að það væri eðlilegt að lítill munur verði á vöxtum í gamla og nýja kerfinu. Auðvitað verður svo því að þegar búið er að taka húsbréfakerfið í notkun þá er ekki hægt að framkvæma húsnæðismarkaðinn hér á landi öðruvísi en að slík samræming fari fram. Það hlýtur að koma að því, ekki aðeins í almenna kerfinu, heldur einnig í félagslega kerfinu.
    En ég vil aðeins endurtaka það að auðvitað vitum við það að þetta veldur sprengingu á markaðnum, það er alveg ljóst, og það þarf ekki annað, hv. þm. Kjartan Jóhannsson, en bara átta sig á því hverjir eru í biðstöðunni, hverjir eru það núna sem eru ákafastir í það að fá húsbréfin í gagnið, helst strax, helst á morgun. Hverjir eru það? Það eru fasteignasalarnir og það eru verðbréfasalarnir, verðbréfafyrirtækin, sem mæla sterkast með því að taka
þetta upp strax og það án þess að nokkur takmörkun

sé þar á. Þess vegna. Ég hitti einn ágætan verðbréfasala núna fyrir nokkrum dögum og hann sagði: Verið ekki að þessu bölvaða röfli. Samþykkið þetta í hvelli og látið okkur fá þetta. --- Og einn byggingarverktaka hitti ég fyrir nokkrum dögum: Ef þið komið ekki húsbréfakerfinu strax í notkun þá er mitt fyrirtæki farið á hausinn. Við þurfum á þessu að halda. --- Þetta er kannski skopleg mynd af alvarlegu máli sem því miður er sönn.
    En ég verð að segja það að lokum, eins og hefur komið fram í mínu máli, að mér finnst aðalvandinn í þessu öllu saman vera sá að menn eru alltaf að flýta sér með breytingar og það má ekki gefa neinu kerfi hæfilegan tíma til umþóttunar. Það má heldur ekki, undir þessum formerkjum sem nú liggja fyrir, gefa sér tíma til þess að endurskoða húsnæðiskerfi þjóðarinnar í rólegheitum, gefa sér góðan tíma til að skoða alla þætti þess og gefa sér tíma til að átta sig á því hvað hentar okkar þjóð. Við erum ekki nema 250 þús. manns. Við erum þegar með upp undir 90 þús. íbúðir í landinu og það hlýtur að vera eðlilegt að álykta sem svo: Hvert stefnir þessi þjóð? Hvert stefnir þessi fámenna þjóð í húsnæðismálum? Og hvers vegna ekki að setjast niður, í staðinn fyrir að vera að gera sífellt breytingar og aftur breytingar sem er ekki samkomulag um, og átta sig á því hvað væri heppilegast að gera fyrir okkur til næstu framtíðar? Við skulum taka 10 ára framtíð og átta okkur á þessu: Hvernig eigum við að haga þessu? Hvað eigum við að byggja mikið af félagslegum íbúðum í verkamannabústöðum eða leiguíbúðum og hvernig eigum við að haga hinum markaðinum? Er nokkuð óeðlilegt við það að gera slíkt og taka þessa færu ungu menn sem eru á verðbréfasviði og á fasteignasviði og í bönkum landsins og lífeyrissjóðum? Því ekki að reyna að mynda eina almennilega blokk til þess að átta sig á því hvað væri viðráðanlegt og hvað væri skynsamlegt til framtíðar fyrir okkur sem þjóð? Af hverju má aldrei gera svona, aldrei? Heldur eru menn að puða hver í sínu horni og reyna svo, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, að gera sífelldar breytingar. Og það tekur út yfir eftir að núverandi ríkisstjórn og raunar fyrrverandi að hluta til líka tóku við. Þá þurfti endilega að gera eitt: Drepa það kerfi sem var ekki einu sinni orðið tveggja ára, gera ráðstafanir, gera úrbætur sem stefndu einvörðungu að því að eyðileggja það sem búið var að ná samkomulagi um á nokkuð breiðum grundvelli sem lá fyrir að þurfti að átta sig á áður en fimm ár liðu, hvort það dygði til framtíðar. Ég er svo undrandi í raun og veru, það er alveg sama hvernig er talað um þessi mál, menn viðurkenna þetta margir í orði en það hefur aldrei náðst raunveruleikinn í því að haga sér á þennan hátt. Og þess vegna segi ég, hv. 4. þm. Reykn., að ég sakna þess mjög, ég segi það alveg falslaust, ég sakna þess mjög að hv. þm. er að hverfa af sviði stjórnmálanna og hv. þm. er að hverfa úr röðum áhrifamanna hér á landi úr Alþfl. sem hefði kannski verið eini maðurinn sem hefði getað komið viti fyrir þá forustu sem þar er við stjórn til næstu framtíðar og þar með haft skynsamleg áhrif

um það að farið væri að leita jákvæðra leiða í sambandi við stefnu í húsnæðismálum hér á landi sem er það sem vantar. Það er engin heildarstefna til heldur eintóm upphlaup á þennan hátt sem núv. hæstv. félmrh. er foringi fyrir í dag og þarf ekki að lýsa því hvernig á því hefur verið haldið sem er í raun og veru að mínu mati Alþingi til vansæmdar.