Skip milli lands og Vestmannaeyja
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):
    Frú forseti. Ég hef lagt fram svohljóðandi fsp. til samgrh.:
    ,,Hvað líður athugun á kaupum á nýju skipi til ferða milli Vestmannaeyja og lands í stað Herjólfs?``
    Skipið Herjólfur sem nú annast ferðir milli lands og Eyja er orðið 12 ára gamalt og er komið að klössun. Sú viðgerð eða endurbót kostar stórfé, líklega tugmilljónir auk rekstrarstöðvunar sem auðvitað verður að meta til fjár. Skipið fullnægir hvergi nærri öryggiskröfum sem slíkt skip þarf að uppfylla. Skiptir þar mestu máli að skipið hefur aðeins eina vél. Hún hefur bilað nokkrum sinnum á ferðum skipsins og þá sem betur fer innan hafnar, en slíkt hefur hent þegar veður hafa verið hvað verst. Reyndar bilaði vélin einu sinni þegar skipið var fullt af börnum. Skipið er úrelt og óhentugt, sérstaklega þar sem það er ekki gegnumkeyrsluskip og tekur langan tíma að losa það og lesta.
    Mér sem öðrum sem hafa fylgst með samgöngum til Eyja er kunnugt um að bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á sínum tíma útboð á nýju skipi fyrir sína hönd á grunni teikninga sem liggja fyrir. Þá mun nefnd hafa verið sett á stofn, og e.t.v. fleiri, og mér er tjáð að sú nefnd hafi einnig athugað gömul skip og gert þar ráð fyrir stórfelldum breytingum sem kostuðu svipað og nýtt skip, þ.e. viðgerð plús skip hefði kostað svipað og nýtt skip.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þessa þætti en ég tel að ef um slíka valkosti er að ræða sé áreiðanlega ekki rétt annað en kaupa nýtt og fullkomið skip sem þjónað getur landsmönnum á sem bestan hátt. Ferja milli lands og Eyja gegnir því hlutverki sem þjóðvegir gegna fyrir önnur byggðarlög. Þjóðvegurinn til Vestmannaeyja, sem hýsa okkar helstu gjaldeyrisöflunarstöð, verður að vera fullkominn. Það er því skoðun mín að nýtt skip verði að byggja. Það verða að vera mjög sterk rök fyrir öðru og því endurtek ég spurningu mína: Hver er fyrirætlun ráðherra í þessu máli? Hvað er fram undan?