Skip milli lands og Vestmannaeyja
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Þetta mun vera í annað sinn sem ég svara fyrirspurn um þetta efni hér á Alþingi í vetur og ekki í fyrsta sinn sem samgrh. gerir það. Aðrir hafa ábyggilega gert það á undan mér og það er nú von mín að senn fækki ferðum samgrh. í ræðustól til að svara fyrir um stöðu þessa máls, þ.e. hvað líði áformum um endurnýjun á skipi milli lands og Eyja.
    Frá því að ég kom í samgrn. hef ég verið í sambandi við Vestmanneyinga um þetta mál, átti m.a. fund með stjórn Herjólfs um nauðsynlega endurnýjun skipsins. Eins og kunnugt er er á lánsfjárlögum heimild til lántöku til endurnýjunar á Herjólfi og í beinu framhaldi af þeirri lántökuheimild fór starfshópur á vegum viðkomandi ráðuneyta yfir þetta mál eina ferðina enn og skilaði til okkar fjmrh. skýrslu um athugun þessa máls og var þá sérstaklega farið yfir af hálfu ráðuneytanna vinnu stjórnar Herjólfs og þær forsendur sem þar voru lagðar til grundvallar við mat á endurnýjun og þörf fyrir Herjólf.
    Þessi skýrsla barst okkur í hendur í aprílmánuði og í framhaldi af henni höfum við fjmrh. ákveðið með bréfi til stjórnar Herjólfs frá 5. maí sl. ,,að heimila``, eins og þar segir, með leyfi forseta ,,stjórn Herjólfs að láta fara fram í samráði við ráðuneytin forkönnun á kostnaði vegna smíði nýrrar ferju milli lands og Vestmannaeyja.`` Áfram segir í þessu bréfi, með leyfi forseta:
    ,,Könnunin fari fram á grundvelli stuttrar lýsingar á nauðsynlegum eiginleikum skipsins og verði í formi valins útboðs hæfilegs fjölda skipasmíðastöðva frá nokkrum mismunandi löndum. Verklýsing og tilhögun forkönnunar verði unnin í samráði við ráðuneytin og verði miðað við að hún taki ekki lengri tíma en tvo til tvo og hálfan mánuð. Á meðan verði fylgst með markaði fyrir notuð skip. Þegar að lokinni forkönnuninni á kostnaði við nýsmíði verði tekin endanleg ákvörðun um endurnýjun Herjólfs.``
    Síðan greinir frá því í bréfinu að hæstv. fjmrh. og ég höfum sett sérstaka nefnd til þess að vinna að þessu máli með stjórn Herjólfs hf. Betur get ég held ég ekki svarað til um það á hvaða stigi þessi mál eru en að vitna til þess að við höfum nú heimilað stjórn Herjólfs að þessi forkönnun á kostnaði við nýsmíði fari fram. Á sama tíma eða jafnframt verði fylgst með markaði fyrir notuð skip og ætlunin er að í beinu framhaldi af þessari vinu sem ekki á að taka lengri tíma en tvo til tvo og hálfan mánuð verði endanleg ákvörðun tekin um endurnýjun skipsins. Ástæða þess að þessi leið er valin er fyrst og fremst sú að tölur um nýsmíðakostnað hafa verið mjög á reiki. Þar hafa heyrst nefndar upphæðir allt frá 300--400 millj. og upp í 700--800 og gefur auga leið að það munar um minna þegar bera á saman með raunhæfum hætti annars vegar þann möguleika að láta smíða nýtt skip og hins vegar hugsanlega endurnýjun með notuðu skipi. Það er einlæg von mín að þetta leiði til þess að svona á miðju sumri verði hægt að taka endanlega ákvörðun um það hvaða kostur verði valinn og hvernig verði þá

gengið í verkið.