Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt, þá hefur það tíðkast um langt árabil að þegar ljóst er að fyrirtæki eru komin í greiðsluþrot eða gjaldþrot blasir við, þá meti innheimtumenn ríkisins það hvort eigi að reyna að ná inn hluta af þeim opinberu gjöldum sem fyrirtækin skulda með því að veita afslátt á hluta af skuldunum eða standa frammi fyrir því að ríkissjóður tapi öllu ella. Það mál sem hér er spurt um er þess vegna eitt af fjölmörgum slíkum málum sem komið hafa til meðferðar í fjmrn. á undanförnum árum og áratugum. Ég vil í því sambandi minna á að á árunum 1980--1987 voru alls 127 slík mál afgreidd í fjmrn. og frá árinu 1987 til 1989 samtals 44 slík mál. Eðli þeirra allra er í reynd hið sama: Þegar ljóst er að einstaklingar eða lögaðilar geta ekki staðið í skilum og eru að verða gjaldþrota, þá er um tvo kosti að velja. Annaðhvort að ríkissjóður tapi öllu sínu eða semja við viðkomandi um að fá hluta af peningunum til baka.
    Af minni reynslu vil ég segja að það er sem betur fer ánægjulegt að ýmis fyrirtæki og einstaklingar vilja reyna að standa í skilum að einhverju leyti og eru þess vegna reiðubúin til samninga við fjmrn. og aðra til þess að geta þó reitt af hendi ákveðinn hluta skuldanna. Aðrir hins vegar hlaupa frá öllu, lýsa sig gjaldþrota og jafnvel stofna ný fyrirtæki á sama stað.
    Hjá tollstjóranum í Reykjavík var gengið frá uppgjöri á launaskatti dagblaðsins Tímans fram til þess tíma að útgáfa NT hófst og Nútímans hf. með þeim hætti að höfuðstóll skuldar var greiddur en dráttarvextir voru felldir niður. Dagblaðið Tíminn greiddi 777.970 kr., en fékk dráttarvextina, 3.012.409 kr., fellda niður. Skuldin sjálf var sem sagt greidd en dráttarvextirnir felldir niður. Nútíminn hf. greiddi 1.856.657 kr. en fékk dráttarvextina, 3.397.311 kr., fellda niður.
    Hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík var gengið frá uppgjöri á skuldum Nútímans hf. á opinberum gjöldum. Voru greiddar 2.040.317 kr. en dráttarvextir, 2.145.533 kr., og innheimtukostnaður að upphæð 15.154 kr. felldir niður. Samtals voru því greiddar 4.674.944 kr. en 8.570.407 kr. voru felldar niður. Málið var afgreitt með bréfum til tollstjórans og Gjaldheimtu 12. des. 1988.
    Það er skylda fjmrn. að sjá til þess að réttilega álögð gjöld og lögbundnir dráttarvextir af þeim innheimtist í ríkissjóð. Í þessari skyldu ráðuneytisins felst einnig sú eina heimild sem það hefur til að semja um greiðslufresti eða falla frá innheimtu hluta skuldar. Ef staða skuldara og trygging fyrir skattkröfu er það léleg að telja má víst að skuldin sé að verulegu leyti töpuð hefur ráðuneytinu verið talið heimilt um langan tíma að ganga til samninga við skuldara um greiðslufyrirkomulag skuldar og jafnvel falla frá hluta skuldarinnar gegn tryggingu fyrir greiðslu eftirstöðva. Og eins og ég gat um áðan hafa á þessum áratug verið gerðir um 170 slíkir samningar. Hafa slíkir samningar einkum þótt réttlætanlegir ef þeir eru liður í óformlegum nauðarsamningum eða

víðtækara samkomulagi skuldara við lánardrottna. (Forseti hringir.) Ég er, virðulegi forseti, að ljúka svarinu.
    Þannig er litið svo á að veigamikill munur sé á því annars vegar að fella niður af gjöldum gjaldfærs gjaldanda og hins vegar að taka innheimtuákvarðanir sem alltaf þarf að taka varðandi innheimtu skulda hjá aðilum sem sannanlega eru orðnir ógjaldfærir. Verður þá að hafa hliðsjón af þeim lagareglum sem gilda um greiðslu skulda á því stigi innheimtu sem um er að ræða. Það er á grundvelli þessara sjónarmiða sem hér hafa verið rakin að ákvörðunin í tilfelli Tímans og Nútímans var tekin.
    Þann 30. sept. 1988 óskaði Gjaldheimtan í Reykjavík eftir því við borgarfógetann í Reykjavík að bú Nútímans hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Málið var tekið fyrir í skiptarétti þann 15. nóv. 1988 en úrskurði um gjaldþrot frestað til 14. des. 1988. Þann 14. des. var úrskurði frestað til 18. jan. 1989. Ljóst var hins vegar af ítarlegum viðræðum sem fóru fram við forsvarsmenn fyrirtækisins og aðra þá aðila sem áttu fjármuni hjá fyrirtækinu hver rekstrarstaða þess var og fjölmargir aðilar gerðu einnig hliðstæðar ráðstafanir eins og ríkissjóður gerði til þess að ná inn hluta af þeim fjármunum sem úti stóðu. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að hér hafi verið, eins og í fjölmörgum öðrum slíkum tilvikum, um rétta ákvörðun að ræða til að tryggja það að út úr þessu þrotabúi mundi ríkissjóður engu að síður ná einhverjum hluta af þeim fjármunum sem hann átti inni hjá fyrirtækinu.