Blóma- og grænmetisframleiðendur
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr í fyrsta lagi, hvenær sé að vænta reglugerðar um innflutning grænmetis og blóma. Því er til að svara að viðamikil reglugerð hefur verið í undirbúningi og vinnu í vetur sem lýtur að þessum málum, sérstaklega þó sjúkdómavörnum og eftirliti sem tengist innflutningi á grænmeti og blómum.
    Sú reglugerð var nánast fullbúin og var væntanleg til ráðuneytisins í byrjun aprílmánaðar, en því miður tókst svo til að þegar verkfall háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna skall á, þá stöðvaðist vinna við lokafrágang reglugerðarinnar og við það situr þangað til sú deila leysist. Því miður.
    Að hinu leyti, hvaða almennar reglur verða í gildi á næstunni um þennan innflutning, þ.e. innflutning grænmetis og blóma, þá verða viðhafðar sömu reglur og í gildi hafa verið undanfarin ár, þ.e. sérstök nefnd skipuð fulltrúum innflytjenda, framleiðenda og ráðuneytisins fjallar um þessi innflutningsmál og henni verður uppálagt að takmarka innflutning algerlega við þær tegundir sem ekki eru framleiddar og fáanlegar hér innan lands á komandi sumri. Og ég mun beita mér fyrir því að þeim reglum verði framfylgt. Innflutningur verður því væntanlega mjög óverulegur á þessum vörum og eingöngu þær tegundir sem alls ekki eru fáanlegar hér innan lands. Ég vil taka það fram af gefnu tilefni, þó að það komi ekki við þetta mál, að það vill svo vel til að forræði í þessu efni er að fullu og öllu á vegum landbrn. og þarf ekki neinar skógarferðir til að koma þeim málum í höfn.
    Þá er að lokum spurt: Er að vænta aðgerða á næstunni af hálfu ríkisstjórnar til að styrkja samkeppnisstöðu og bæta starfsskilyrði innlendrar blóma- og grænmetisframleiðslu? Svarið er það að þau mál hafa verið til athugunar, m.a. í framhaldi af þeim skattkerfisbreytingum sem veruleg áhrif hafa haft á samkeppnisstöðu innlendu framleiðslunnar á þessu sviði. Eins og kunnugt er var hér um áramótin framlengt til eins árs ákvæði um 30% innflutningstolla á þessari vöru og ætlunin er að nota þetta ár til að skoða samkeppnisstöðu og starfsskilyrði innlendu framleiðendanna á þessu sviði. Ég geri ráð fyrir því að innan fárra daga taki til starfa sérstök nefnd sem á að skoða þessi mál, þar með talin tollamál, skattamál, rekstrarskilyrði og markaðsaðstæður innlendu framleiðslunnar. Fyrir því er veruleg ástæða. Hér á í hlut einn af vaxtarbroddum landbúnaðarins og innlendrar framleiðslu af þessu tagi og sjálfsagt mál er að reyna að hlúa að honum svo sem kostur er. Ég held að það leiki ekki á því vafi að skattkerfisbreytingar undanfarinna ára hafa að mörgu leyti gert samkeppnisstöðu þessara greina lakari en hún áður var og þá þarf að skoða það sérstaklega hvernig unnt er að bregðast við því og ætlunin er að sérstök nefnd fjalli um það verkefni nú í vor og sumar.