Kvikmyndin Lífsbjörg í norðurhöfum
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Níels Árni Lund:
    Virðulegur forseti. Vegna þeirra umræðna sem hér hafa farið fram vil ég nota tækifærið til þess að lýsa yfir ánægju minni með það að sjútvrn. skyldi hafa styrkt þennan mann til kynnisferðar varðandi þá gagnaöflun sem fram fór vegna kvikmyndarinnar. Ég er það kunnugur íslenska stjórnkerfinu að ég veit að oft hefur það komið fyrir að einstaklingar hafa fengið ferðastyrki til einna eða annarra verkefna, hvort sem það er í kynnisferðir, námsferðir eða eitthvað því um líkt og ég tel að í þessu tilfelli hafi þetta nýst afskaplega vel. Það er búið að hamra á því í gegnum tíðina að Íslendingar hafi staðið sig slaklega í að kynna sinn málstað þarna og því finnst mér það vera nánast furðulegt þegar loksins hefur komið eitthvað bitastætt fram í þeim efnum að menn skuli hér í þingsölum sem annars staðar varla halda vatni yfir því að svo skuli hafa verið gert.