Kvikmyndin Lífsbjörg í norðurhöfum
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Ég held að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hafi verið mjög ánægður með að það réttist nokkuð úr málstað Íslands eftir þessa kvikmynd. Það má auðvitað að þessari kvikmynd eitthvað finna eins og öllu öðru sem menn gera.
    Ég fyrir mitt leyti gagnrýni ekki sjútvrh. fyrir að hafa styrkt þessa starfsemi heldur öfugt. Ég er þakklátur honum fyrir það. En ég er ákaflega lítið þakklátur Magnúsi Guðmundssyni fyrir að þræta fyrir að hafa fengið slíkan styrk. Það finnst mér vera vatn á myllu andstæðinga okkar í þessu eins og þarna hafi verið óhreint mjöl í pokanum sem ekki er. Þá kemur það upp eins og fyrri daginn að það er ávallt öllum fyrir bestu að segja satt og skilmerkilega frá.
    Ég tel að sjútvrh. hafi gert rétt með þessari styrkveitingu og ég tel að við þurfum að halda áfram okkar baráttu að rétta hlut okkar yfir þeim öflum sem eru að vinna að því að eyðileggja íslenska markaði.