Kvikmyndin Lífsbjörg í norðurhöfum
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að í þessu ávarpi mínu felst það að ég er ekki fyrst og fremst forseti Sþ. nema þegar ég sit í þessum stól. Ég er þingmaður í Sþ. þegar ég tek þátt í umræðu. Ég vænti þess að hv. þingheimur skilji það.
    Þetta mál snýst um ofur einfalda hluti. Hafa einstök ráðuneyti leyfi, hafa þau fjárframlög á fjárlögum til þess að nýta fé og það verulegt fé í hluti eins og þessa til framdráttar málstað sem viðkomandi ráðherrar telja réttan hverju sinni? Það kynni vel að vera að hv. Alþingi væri ekki sammála umræddum ráðherra í ýmsum þeim málum sem hann og einstakir ráðherrar kynnu að vilja styrkja. Hvar endum við ef einstök ráðuneyti taka sér það bessaleyfi að styrkja alls kyns einkaframtak ef þeir halda hverju sinni að það þjóni þeirra eigin málstað? Um það snýst þetta mál.
    Það er ósköp ánægjulegt fyrir kvikmyndagerð í landinu ef einstök ráðuneyti ætla að sýna listræna tilburði og styrkja kvikmyndagerð, en það er nú einu sinni, eins og hæstv. menntmrh. tók fram hér áðan, verkefni Kvikmyndasjóðs.
    Eftir stendur, og svo geta menn gagnrýnt það sem ræðumaður sem hér stendur sagði áðan, að hér hafa komið fram ósannindi í málflutningi um þessa mynd. Ég þakka hv. 3. þm Vestf. fyrir að leiða það í ljós, en menn þurfa ekki að fyrtast við þó á það sé bent að fram hafi komið ósannindi. Það getur vel verið að þau séu í augnablikinu vinsælli en sannleikurinn, en ég kýs heldur óvinsælan sannleik en vinsæla lygi.