Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 730 hef ég lagt fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um ráðstafanir vegna stöðvunar hrefnuveiða. Fyrirspurnin er á þessa leið:
    ,,Hyggst ríkisstjórnin engar ráðstafanir gera til að rétta hlut þess fjölda einstaklinga sem orðið hefur fyrir fjárhagsörðugleikum vegna stöðvunar hrefnuveiða um alllangan tíma?``
    Það þarf ekki að rifja upp fyrir þingheimi að hrefnuveiðar hafa ekki verið leyfðar um nokkurn tíma, en augljóslega af því hlotist ýmis vandamál og vandkvæði. Fjöldi einstaklinga og heilar fjölskyldur í heilum byggðarlögum hafa byggt á þessari atvinnugrein og hafa því orðið að lúta í lægra haldi að því er varðar það að afla heimilum tekna til framfærslu. Stjórnvöld hafa gripið inn í hliðstæð tilvik eins og t.d. með lagmetisiðnað, með refarækt og minkarækt. Ég hygg að hér sé sambærilegt á ferðinni og finnst eðlilegt að stjórnvöld líti til þessa fólks líka. Þarna er um að ræða fólk sem margt hvert býr á landsvæði sem á í mjög miklum erfiðleikum, eins og t.d. á Barðaströndinni sem hefur mikið og nánast allt lífsframfæri af þessu en hefur orðið að lúta í lægra haldi vegna þessara ákvarðana. Nú er fullyrt að meira magn af hrefnu sé í sjónum en nokkurn hafi órað fyrir og ástæða til þess að athuga sérstaklega hvort ekki er kominn tími til þess að leyfa hrefnuveiðar að nýju a.m.k. og ekki síður að athuga hitt hvort stjórnvöldum er ekki nánast skylt að grípa inn í til að bæta það tjón sem einstaklingar hafa orðið fyrir vegna þessarar stöðvunar.