Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um að margir þeir aðilar sem hrefnuveiðar stunduðu eru langt frá því að vera ánægðir með þær ráðstafanir sem gerðar voru þegar hrefnuveiðar voru bannaðar. Hitt er það sem skiptir höfuðmáli að mínum dómi að hrefnustofninn hér við landið er talinn vera um 20 þúsund dýr. Og hversu lengi á að hætta að veiða úr þessum gífurlega mikla stofni? Það er það sem skiptir máli. Hvenær ætlar hæstv. sjútvrh. að taka ákvörðun um að leyfa hrefnuveiðar við landið? Hvað er það sem tefur þessa ákvarðanatöku? Menn sem þessar veiðar hafa stundað og vinnslu spyrja og eru alltaf að spyrja: Hvenær verður ákvörðun tekin? Hvað er á móti því að taka slíka ákvörðun? Sjútvrh. lét að því liggja á sl. vetri að það yrði tekin ákvörðun um hrefnuveiðar í sumar. Við höfum ekkert heyrt svo frekar um það og menn spyrja víðs vegar um landið þar sem þessar veiðar hafa verið stundaðar: Hvað dvelur orminn langa? Hvers vegna er ekki ákvörðun tekin? Ekki er verið að eyða þessum stofni. Það liggur alveg á hreinu og það hefur sjútvrh. sagt sjálfur, m.a. í ræðu hér á Hótel Borg á sl. vetri. Ég endurtek því þá spurningu: Hvað er á bak við það að ekki er leyfð takmörkuð veiði á hrefnu eins og gert var áður en veiðibannið var upp tekið?