Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Ég held að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir og reyndar staðfesti ráðherra það í svari sínu að þær ráðstafanir sem gerðar voru fyrir þá báta sem misstu hrefnuveiðiréttindin hafa verið sáralitlar og komið að frekar litlu gagni m.a. vegna þess að aukið aflamark þessara báta kom að takmörkuðu gagni vegna þess að sóknarmarkið dugði þeim betur og hefði getað dugað þeim án nokkurrar sérstakrar lagfæringar.
    Hin spurningin hlýtur að vakna fyrst og fremst við þessar umræður: Af hverju hefur hrefnuveiðin ekki verið leyfð á undanförnum árum á sama tíma og við höfum verið að veiða stórhvelin og stofna sem eru mun minni og um má deila hvort er verið að ofveiða? Ég hef ekki heyrt að það sé verið að deila um hvort hrefnustofninn sé ekki nægilega stór.
    Spurning er: Af hverju hefur þetta ekki verið leyft á liðnum árum og af hverju var þetta ekki leyft í ár og af hverju eru ekki gefnar yfirlýsingar um að það verði stefnt að því að fara að veiða þennan stofn?