Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem ég að vísu er óánægður með eins og raunar hann tók sjálfur fram að hann væri gagnvart einstaklingum sem þarna eiga hlut að máli.
    Hann gat þess að þarna hefðu einstaklingar orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni vegna þessara ákvarðana og það hefði að litlu verið bætt og verði aldrei bætt fyrr en veiðar verða leyfðar aftur. Að vísu verður tjónið sem orðið er ekki bætt með því þó að veiðar verði teknar upp aftur. Mér finnst það einkennilegt af hálfu stjórnvalda að þau skuli ætla tilteknum einstaklingum í þessari atvinnugrein að bera þetta tjón einir og sér. Við skulum taka byggðarlag eins og Barðaströndina sem að verulegu leyti hefur byggt á þessari atvinnugrein. Það er margt sem hefur hjálpað til líka í öðrum atvinnuþáttum til þess að þetta byggðarlag hefur orðið harðara úti en mörg önnur á þessum svæðum. Mér finnst það nánast hneyksli ef stjórnvöld sjá ekki til þess ástæðu að grípa inn í aðgerðir til að létta byrðar þess fólks sem á í miklum erfiðleikum fyrir.
    Ég man ekki betur en hrefnuveiðimenn á Brjánslæk fullyrtu að hæstv. sjútvrh. hefði gefið í skyn að hann mundi leyfa hrefnuveiðar árið 1987 og þeir hafa, að ég best veit, lýst því yfir að þar væri um ósannindi að ræða. Hann hefði lofað því að hrefnuveiðar yrðu leyfðar á þeim tíma. Ég bið að vísu afsökunar ef ég fer rangt með, en þetta las ég einhvers staðar í blöðum haft eftir þeim sjálfum, Konráð Eggertssyni og einhverjum öðrum tilteknum einstaklingi.
    Það hefur komið fram með stofnstærðirnar. Auðvitað er augljóst að gífurlegt magn af hrefnu hefur líka áhrif á þorskinn. En ég ítreka að það er engin meining að tefja veiðar á hrefnu þegar stofninn er orðinn slíkur eins og nú er fullyrt af ráðandi mönnum í þjóðfélaginu. Þá á auðvitað að breyta um. Það var gefið í skyn af hæstv. ráðherra að það hafi verið talað um að veiða 80 dýr á ári í vísindaskyni. Ekkert slíkt hefur verið gert. Ég ítreka sérstaklega við hæstv. ráðherra að stjórnvöld sjái til þess að einstaklingum sem hafa orðið harkalega úti vegna þessarar stöðvunar á veiðum verði bætt það að verulegu leyti vegna þess að byggðinni liggur við hruni ef svona heldur áfram eins og mál hafa staðið.