Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Alþingi Íslendinga samþykkti í atkvæðagreiðslu á sínum tíma hvalveiðibann, illu heilli. Ábyrgð þeirra sem greiddu því atkvæði er að mínu viti stór. Það eru mér vonbrigði ef ráðherra treystir sér ekki til að leyfa vísindaveiðar á hrefnu. Auðvitað hefur framkvæmdarvaldið það í hendi sér eins og svo margt annað og virðist einhver flötur á því að hægt sé að rannsaka hrefnuna meira er orðið er ef áhugi væri til staðar því það er makalaust hvað náttúrufræðingar hafa verið útsjónarsamir að finna sér verkefni þegar kanna hefur þurft lífríki á minnstu leirvogum þar sem vegagerð hefur þurft að fara yfir.
    En á hitt vil ég leggja þunga áherslu, sem hér kom fram í ræðu hv. 3. þm. Vestf., að bætur til þeirra sem lenda í þessu, sem tryggi að þeirra fyrirtæki haldi velli þann tíma sem stjórnvöld koma í veg fyrir að atvinnurekstur þeirra sé með eðlilegum hætti, hljóti að verða að koma til. Undir þennan málflutning vil ég sterklega taka einfaldlega vegna þess að það getur farið svo að þar sé búið að rústa svo mikið þegar veiðar verða aftur upp teknar að það sé ekki hægt að líta öðruvísi á en að um eignaupptöku hafi verið að ræða.
    Ég mælist þess vegna til þess við hæstv. sjútvrh. að hann geri sér grein fyrir þessari alvöru í málunum. Það verður ekki gefið eftir að fylgja því eftir, ef fyrir séð er að stjórnvöld móti ekki yfirlýsta stefnu í þeim efnum, hvenær þau vilji aflétta þessu banni og við hverju þessir aðilar megi búast.