Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Þáltill. sú sem hér er til umræðu og flutt er af hv. 2. þm. Norðurl. v. er allrar athygli verð. Með henni er hreyft hinu þarfasta máli og vegna síðustu orða hv. þm. vil ég taka það fram að ég hef þegar rætt efni hennar nokkuð við fulltrúa bankakerfisins, sérstaklega viðskiptabankanna, en í þessari till. felst einmitt að þjónusta við almenning vegna samskipta við ýmsa opinbera sjóði verði aukin með því að nýta afgreiðslukerfi banka og sparisjóða. Það er fullkomlega rétt ábending hjá hv. flm. að það að byggja upp útibúakerfi fyrir alla fjárfestingarlánasjóði og þjónustustofnanir af því tagi sem nefndar eru í till. er út í hött og ekkert nema sóun fylgir því og þess vegna er till. í senn til þess fallin að bæta þjónustu við almenning og auka hagkvæmni í opinberri starfsemi. Það má hins vegar benda á að þróun í þessa átt er þegar hafin og það í nokkuð ríkum mæli í greiðslumiðlunarþjónustu sem bankakerfið annast. Ýmsa reikninga sem áður þurfti að greiða í mörgum stofnunum er nú hægt að greiða í næstu bankaafgreiðslu og nú er ekki lengur nauðsynlegt að fara í ákveðna bankastofnun til að taka út eða leggja inn á bankareikning. Það má líka segja að skjalaviðskiptakerfi banka og sparisjóða hér á landi, þ.e. umsýslan með hvers konar greiðsluávísanir og millifærslur, sé líklega eitt það fljótvirkasta sem þekkist hvar sem er í heiminum. Það er auðvitað rétt að athuga hvort ekki megi gera þetta betur og þótt ekki sé fullvíst að með þessu megi spara fé fyrir fram tel ég samt mjög mikilvægt að bankarnir athugi þetta vandlega. Þeir hafa reyndar gert það. Bankar og sparisjóðir hafa annast útborgun húsnæðislána undanfarin þrjú ár. Ég veit að þeir hafa gert Húsnæðisstofnun tilboð um að annast stærri hlut, fleiri þætti í afgreiðslu húsnæðislánakerfisins. Um það hefur ekki náðst samkomulag. Að því teldi ég þó rétt að vinna því það er mjög mikils um vert að færa þessa þjónustu nær þeim sem hennar eiga að njóta. Það er líka í undirbúningi að lán Lánasjóðs ísl. námsmanna verði afgreidd hjá bönkum og sparisjóðum og ég bind vonir við að það geti orðið seinna á þessu ári eða í byrjun næsta árs.
    Ég vildi líka vekja athygli á því að fólk getur beðið um að fá að greiða til byggingarsjóðanna í gegnum sína banka hver á sínum stað. Þetta er nokkuð gert, en það krefst framtaks frá einstaklingnum, þetta er ekki gert sjálfkrafa. Þetta vildi ég nefna, en tek fram að með till. er hreyft hinu þarfasta máli og býst við því að allshn. muni athuga þetta vandlega.
    Ég vildi þó benda hv. flm. á það að ég tel það ekki sérlega heppilegt að hafa þarna ákveðinn dag eins og 1. jan. 1990, þegar hin nýja tilhögun eigi að ganga í gildi, einfaldlega af því að þetta er í eðli sínu þróun, framvinda, ekki einn atburður og þegar á svo fjölþættu máli er tekið verður aldrei hægt að setja á þetta eina dagsetningu. En flm. getur verið þess fullviss að ég er honum alveg sammála um meginstefnu þá sem lýsir sér í till. og þegar er unnið

að framkvæmd hennar.