Afgreiðsla mála í sameinuðu þingi
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Það var ekki í tilefni af þessari ákvörðun sem ég kveð mér hér hljóðs, en það virðist ljóst að ýmsar þær þingsályktunartillögur sem á dagskrá eru og hafa verið á dagskrá Sþ. um nokkra hríð komist ekki að í dag. Ég vildi beina þeirri fsp. til forseta og jafnframt þeim tilmælum að séð verði til þess að þessi mál fáist rædd áður en þingi lýkur. Ég hef sérstaklega í huga mál nr. 17, þar sem ég er 1. flm., en ég þykist vita að aðrir þeir sem eiga mál til fyrri umr. þrýsti á um að fá þau hér rædd þó svo það verði ekki á þessum fundi eða í dag.