Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Nokkrir hv. þm. Sjálfstfl. lögðu fram í síðustu viku beiðni um skýrslu um málefni Sigló hf. og fleira. Nú hefur Ríkisendurskoðun skilað inn sinni skýrslu, en þess ber að geta að hæstv. fjmrh. skrifaði Ríkisendurskoðun eða forseta Sþ. bréf og bað um viðbótarupplýsingar og er svör við þeirri beiðni að finna í þessari skýrslu að svo miklu leyti sem Ríkisendurskoðun tókst að ná þeim svörum og þeim upplýsingum saman.
    Það er athygli vert að leiða hugann að því nú við lok þessa þings hvernig á því stendur að óskað var eftir skýrslu um málefni Sigló og fleira, en orsakanna er að leita til þess að í umræðum um fyrirspurnir, sem eru ákaflega takmarkaðar samkvæmt þingsköpum, gerðist það að hæstv. fjmrh. braut lög um þingsköp, blandaði inn í umræðuna óskyldum málum, notaði tækifærið til þess að ráðast á aðra hv. þm. og menn fjarstadda með þeim hætti að hv. þm. sumir hverjir töldu nauðsynlegt að benda hæstv. forseta á að slíku hátterni hefðu átt að fylgja þingvítur samkvæmt lögum um þingsköp.
    Ummæli hæstv. ráðherra voru m.a. á þá leið að málefni Siglósíldar væru skóladæmi um það hvernig Sjálfstfl. hefði ,,gefið flokksgæðingum sínum ríkisfyrirtæki í nafni einkavæðingar``, svo að ég vitni orðrétt í útskrift úr ræðu hæstv. ráðherra.
    Þegar það er skoðað hvenær þetta gerist, rétt áður en þinglausnir verða, hlýtur maður að leiða hugann að því hvort það geti verið og vissulega er freistandi að álykta sem svo að hæstv. ráðherra hafi kosið með þessum hætti að drepa öðrum og veigameiri málum á dreif, þeim málum sem hæstv. ríkisstjórn á að vera að fást við þessa dagana en hefur mistekist að leysa. Hvort með þessum hætti, sem stundum er kallað að varpa reykbombu, hafi verið ætlunin að leiða athygli þings og þjóðar frá erfiðleikum vegna yfirstandandi verkfalla sem hafa stofnað í hættu framtíð skólafólks í landinu. Hvort það geti verið að hæstv. ráðherra hafi kosið að nota þennan tíma til þess að varpa þessari reykbombu til þess að breiða yfir þá staðreynd að atvinnulífið er í rúst eða hvort hann hafi verið að gera þetta á sama tíma og ríkisstjórnin ákvað að láta gengið falla um allt að 3,75% þrátt fyrir að þessi hæstv. ráðherra hafi sjálfur að sögn viðsemjenda hans gefið þá yfirlýsingu að gengið yrði ekki hreyft í tilefni þeirra kjarasamninga sem hæstv. ráðherra skrifaði undir fyrir nokkrum vikum síðan.
    Auðvitað eru þetta allt getgátur, en þær eru komnar til af því að hæstv. ráðherra notaði tækifærið til þess að hefja þessar umræður í fyrirspurnatíma vitandi það að hann í embættis nafni gat hvenær sem er gefið skýrslu og komið fram með upplýsingar í sérstakri umræðu hér í þinginu ef hann hefði kært sig um.
    Í umræðunni um viðkomandi fyrirspurn kom í ljós að fyrirspurninni sem beint var til hæstv. fjmrh. hefði fremur átt að beina til hæstv. dómsmrh., en hún var um það hvort skiptaráðandi á Siglufirði hefði ekki farið að lögum og venju þegar hann ákvað í nafni þrotabúsins að afhenda ákveðnu hlutafélagi rekstur í

húsakynnum Sigló hf.
    Hæstv. dómsmrh. kom hér í ræðustól og sagði að það væri fullt trúnaðartraust á milli hans og skiptaráðandans og vísaði þessu með þeim orðum á bug. Þannig hefur hæstv. dómsmrh. sagt að hann beri fullt traust til skiptaráðandans á Siglufirði, en það kom fram bæði í máli hv. fyrirspyrjanda og eins í máli hæstv. fjmrh. að þeir töldu að skiptaráðandi hefði ekki staðið þannig að þessu verki sem eðlilegt mætti teljast.
    Í annan stað er það athygli vert að hæstv. ráðherra kýs með þessum hætti að ráðast að einum forvera sínum, ráðast á Albert Guðmundsson með þeim hætti sem hann gerði í sinni ræðu þegar hann hélt því fram að hv. fyrrv. þm., Albert Guðmundsson, núv. sendiherra og fyrrv. ráðherra, hefði á sínum tíma ,,gefið`` svo að ég noti orðalag hæstv. ráðherra, ,,gefið flokksgæðingum þetta fyrirtæki``. Í þessum umræðum kom reyndar fram að það var á misskilningi byggt að fyrirtækið hefði verið selt eingöngu sjálfstæðismönnum. Þvert á móti eru menn úr öðrum flokkum sem einnig stóðu að fyrirtækinu og menn úr öðrum flokkum sem voru stjórnarformenn í þessu fyrirtæki. Allt um það, þá virtist hæstv. ráðherra, til að þjóna sinni lund, sem menn þekkja, velja þennan tíma til þess að þyrla þessu máli upp en það var ástæðan fyrir því að ýmsir þingmenn Sjálfstfl. óskuðu eftir því að Ríkisendurskoðun skilaði til þingsins skýrslu um þetta mál sem hér er nú til umræðu.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur m.a. fram á bls. 7, og því hefur verið slegið upp í fréttum, til að mynda í Þjóðviljanum sem er blað nokkuð tengt hæstv. ráðherra, að sé aðalatriði málsins. En á bls. 7 í skýrslunni segir á þessa leið:
    ,,Ríkisendurskoðun telur að þeir greiðsluskilmálar sem Sigló hf. hefur notið hjá ríkissjóði, þ.e. að fyrsta afborgun skuldabréfs er átta árum frá kaupsamningi, fyrsta vaxtagreiðsla er þremur árum eftir kaupsamning og lánstími 18 ár, megi teljast afar sérstæðir í viðskiptum sem þessum og eigi sér vart hliðstæðu hjá ríkissjóði.``
    Þetta hefur hæstv. ráðherra og málgagn hans kosið að taka út úr skýrslunni nánast eitt og sér til þess að gera ráðstafanir forvera hans, Alberts Guðmundssonar, tortryggilegar. En þegar þetta er lesið saman við það sem kemur fram á fskj. 4 í þessari skýrslu, sem er bréf hæstv. ráðherra til forseta Sþ. og afrit er sent Ríkisendurskoðun, dags. 8. maí, þá kemur í ljós að það er samkvæmt ósk hæstv. ráðherra eða eins og þar segir orðrétt: ,,Þá óskast upplýst hvort fordæmi séu fyrir í samningum ríkisins jafnlöngum greiðslufresti og Sigló hf. hefur fengið, sérstaklega ef um vanskil hefur verið að ræða og þá jafnhagstæðum skilmálum.`` Með öðrum orðum: Það mat sem kemur fram í skýrslunni, að þetta megi teljast afar sérstæðir samningar og greiðsluskilmálar, ber að sjálfsögðu að skoða með hliðsjón af því að það er óskað eftir því af hálfu hæstv. ráðherra að meta það hvort fordæmi hafi fundist um slíkt áður. Og það er eðlilegt að því sé svarað í texta skýrslunnar með þessum hætti og þarf

ekkert að gefa í skyn að hlutirnir séu óeðlilegir þótt þeir séu óvenjulegir. Á því er auðvitað mikill munur eins og hæstv. ráðherra veit þótt hann kjósi í þessu máli að vita ekki.
    Það ber að geta þess í þessu sambandi að þegar Siglósíld á sínum tíma var seld, þá var fyrst og fremst verið að selja húseign og jafnframt nokkur tæki mismunandi gömul. Húsið hafði verið metið en þegar til átti að taka reyndist húsið vera hjallur og það má í raun og veru teljast ótrúlegt að matvælaframleiðsla á vegum ríkisins skuli hafa farið fram í því húsi, því að mýs og rottur höfðu aðgang að öllu ætilegu og bjuggu á milli þilja í húseigninni. Það kom í ljós þegar farið var að taka til og brjóta veggi í húsinu að nánast þurfti að rífa það allt saman og byggja nýtt hús með miklu meiri tilkostnaði heldur en þeir sem höfðu metið þetta hús áður töldu.
    Ég vil enn fremur taka það fram að það var hvergi, að því er segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, reynt að gefa eftir af dráttarvöxtum til fyrirtækisins né öðrum vöxtum og má þá segja að það sé dálítið öðruvísi að farið heldur en hæstv. ráðherra gerði sjálfur eftir að hann tók sér bólfestu í fjmrn. þegar hann af fingrum fram gaf eftir skuldir til ríkisins, þar á meðal dráttarvexti eins og hann gerði þegar Nútíminn átti í hlut og mun ég síðar víkja að því máli sérstaklega. En það vekur óneitanlega athygli að slíkt skuli vera gert við ákveðið dagblað hér í bænum, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að Þjóðviljinn, blað hæstv. ráðherra, á nú um þessar mundir í verulegum fjárhagskröggum og er talið skulda eitthvað á annan tug milljóna. Kann að vera að hæstv. ráðherra vilji með þessu búa sér til fordæmi þannig að hægt sé síðar að bjarga Þjóðviljanum með sama hætti. Og þá getur hann spurt á sama veg og hann spurði í sínu bréfi: Eru til fordæmi? Og í stað þess að fá neikvætt svar gæti hugsast að ráðherra fengi jákvætt svar: Jú, reyndar er búið að gera slíkt áður þegar Nútíminn átti í hlut. Nútíminn var eins og menn vita arftaki gamla Tímans og forveri nýjasta Tímans sem Framsfl. eða fyrirtæki á hans vegum gefa út. Þetta er a.m.k. umhugsunarvert og mun ég síðar í minni ræðu víkja frekar að þessum þætti málsins.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er nokkuð rætt um ábyrgð og kvaðir kaupenda, bæði er varðar kaupskilmálana sjálfa og eins greiðsluskilmálana sem síðar voru ákveðnir. Ég vil taka það fram að eigendur þessa fyrirtækis lögðu fram verulega miklu meira hlutafé heldur en tilskilið var í kaupsamningi. Þetta er athyglisverð staðreynd miðað við það hvernig hæstv. ráðherra hefur hagað sínu máli.
    Í öðru lagi lögðu eigendur fyrirtækisins með lánsfé fram til fjárfestingar í fyrirtækinu á næstu árum á eftir miklum mun meira en ráðgert hafði verið þegar kaupin áttu sér stað af ástæðum sem ég hef að nokkru leyti skýrt fyrr í minni ræðu. Það er ekki einungis sú 31 millj. sem getið er um skýrslu Ríkisendurskoðunar heldur komu síðar til verulegar nýjar fjárfestingar sem sjálfsagt má virða í dag á 150--200 millj. kr. og er þá kaupverðið ekki meðtalið en kaupverðið sem í upphafi

var um 18 millj. er 50--60 millj. á núvirði, eða öllu heldur samkvæmt framreikningi. Auðvitað er ekki hægt að segja á núvirði því að það hlýtur að vera markaðsverð á þessum eignum eins og öðrum eignum sem heimilt er að selja og geta gengið manna á milli.
    Þetta gerðist eins og ég sagði vegna þess að eignin reyndist ekki vera eins góð og álitið hafði verið og það er auðvitað hluti af skýringunni á því hvers vegna gengið var frá nýjum greiðsluskilmálum við fyrirtækið á sínum tíma. En það voru aðrar kvaðir sem kaupendur tóku að sér, þar á meðal þær að það var ein af forsendum kaupanna að reyna að halda áfram síldarniðurlagningu hjá Sigló hf. og ef það yrði ekki gert þá áskildi ríkið, þ.e. fjmrn., sér að gjaldfella skuldina alla ef ekki yrði staðið við þessa skilmála.
    Árið 1987 gerðist það hins vegar að þessi framleiðslurás fyrirtækisins var seld til Hafnar í Hornafirði. Og það vill svo til að sá sem hér stendur þekkir það mál nokkuð. Erindi kom frá fyrirtækinu þess efnis að mikið tap hefði verið á þessari framleiðslulínu um nokkurra ára bil. Framleiðslulínan var í raun orðin mikill minni hluti starfseminnar og til þess að létta á skuldum vildi fyrirtækið selja þessa framleiðslu- eða niðurlagningarlínu. Iðnrn. skrifaði
fjmrn. bréf og bað um umsögn fjmrn. Sú umsögn kom með ákveðnum texta þar sem bent var á hvað hefði staðið í kaupskilmálanum á sínum tíma en í lok bréfsins sagði fjmrn., með leyfi forseta: ,,Miðað við fyrirliggjandi gögn telur fjmrn. ekki forsendur til þess að beita heimild kaupsamnings ríkisstjórnar Íslands og Sigló hf. frá 17. des. 1983 um gjaldfellingu skuldabréfs, en beinir því til iðnrn. að það kanni til hlítar alla möguleika á farsælli lausn málsins.``
    Iðnrn. tók þetta til skoðunar, faglegrar skoðunar, það var lögfræðingur ráðuneytisins sem gerði það. Niðurstaða hans var sú sama og niðurstaða fjmrn. á þeim tíma að ekki væri hægt að gjaldfella skuldina vegna sölunnar þar sem Sigló hf. hefði margfaldað framleiðslu sína frá því að kaupin áttu sér stað og niðurlagningin var aðeins örlítill hluti starfseminnar þegar þar var komið sögu. Þrátt fyrir þetta segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, orðrétt á bls. 9: ,,Engu að síður verður þessi sala til þess að draga úr fjölbreytni atvinnulífs á Siglufirði og því þannig séð andstæð ákvæðum í kaupsamningi.`` Hér er að vísu enginn dómur lagður á hagkvæmni þessa en sagðar þær alkunnu staðreyndir að ef niðurlagningarlína fer á milli staða á landinu, frá einum stað til annars, þá hlýtur fjölbreytnin að minnka á fyrri staðnum, enda var Ríkisendurskoðun ekki spurð að því hvort sköpuð hefði verið atvinna í staðinn.
    Þess skal getið til upprifjunar að sá fjmrh. sem skrifaði undir þetta bréf var ekki Albert Guðmundsson, ekki Þorsteinn Pálsson, heldur Jón Baldvin Hannibalsson, núv. utanrrh. Ég ber því ásamt honum ábyrgð á því að hafa ekki lagt til að gjaldfelld yrði skuldin þegar stóð til að selja þessa framleiðslulínu og fórum við þar eftir umsögn fjmrn. samkvæmt niðurstöðu sem sérfræðingar ráðuneytisins höfðu komist að.

    Þetta teljum við, virðulegur forseti, nauðsynlegt að komi fram til skýringa og það skýrir það kannski betur en margt annað hvernig hægt er að leika sér með orðalag því að auðvitað er minni fjölbreytni þegar ein framleiðslulína hverfur á milli staða en það þarf ekki að þýða minni atvinnumöguleika, enda hafði þessi þáttur starfseminnar í raun og veru valdið fyrirtækinu mestum halla á árunum þar á undan.
    Þegar litið er til þessarar skýrslu og skoðað er hvað hafði gerst í fyrirtækinu Siglósíld sem síðar varð Sigló hf. á árunum fyrir söluna þá held ég að það sé kannski ástæða til þess að rifja upp aðeins sögu þessa fyrirtækis.
    Þetta fyrirtæki á í raun rætur að rekja til nýsköpunarstjórnaráranna. Það varð ríkisfyrirtæki fyrst og fremst vegna þess að það var ætlunin að í samstarfi við Rannsóknastofnun atvinnuveganna, síðar Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, yrðu gerðar tilraunir með niðurlagningu og þannig reynt að auka fjölbreytni íslensks útflutnings. Staðreyndin er sú að þessi tilraunastarfsemi átti sér aldrei stað eins og lög gerðu ráð fyrir. Á síðari árunum sem Siglósíld starfaði var starfið skrykkjótt og stundum kom það fyrir að starfsemin lá niðri um hríð. Og til þess aðeins að vekja athygli á því hver breyting varð á fyrirtækinu þegar nýir eigendur tóku við þá sex- til áttfaldaðist útflutningsframleiðsla fyrirtækisins eftir að nýir eigendur tóku við fyrirtækinu.
    Þetta verðum við að hafa í huga þegar við nú skoðum þær tölur sem ríkið þurfti að leggja til verksmiðjunnar áður og svo þær tölur sem við erum núna með þegar fyrir liggur gjaldþrot fyrirtækisins. Það fer nefnilega eftir stærð og veltu fyrirtækisins hvernig á að meta halla á ári hverju. Tökum nýlegt dæmi: Kaupfélag Eyfirðinga, KEA, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum í landinu, tapaði á sl. ári 250 millj. kr. Þetta er mjög há upphæð. En þetta þarf ekki að vera mjög há upphæð þegar veltutölur eru skoðaðar því að veltutölur þessa fyrirtækis eru mjög háar á íslenskan mælikvarða. Hins vegar ef þetta hefði verið smáfyrirtæki, ef þetta hefði verið Þjóðviljinn, sem enginn nennir að lesa en samt er gefinn út, þá hefðu 250 millj. verið stór tala af því að velta Þjóðviljans var minni en velta Kaupfélags Eyfirðinga. Til samanburðar má geta þess að Kaupfélagið gefur út dagblað líka sem er bara í litlu horni hjá því, dagblaðið Dag. Maður verður að hafa þessi hlutföll í huga þegar þessar tölur eru skoðaðar. Samt sem áður hefur það gerst á síðustu fjórum árum áður en þessi sala átti sér stað að 110 nú-milljónir voru greiddar beint frá ríkinu til fyrirtækisins til að mæta rekstrartapi. Ég vek enn athygli á því að þetta gerðist þegar fyrirtækið var fimm sinnum minna í veltu. Fimm sinnum minna. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir skoða tölurnar sem nú liggja fyrir um þetta fyrirtæki.
    Þess vegna væri ástæða til að spyrja: Hvað hefði gerst ef hæstv. ráðherra Ólafur Ragnar Grímsson og hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson hefðu áfram rekið þetta fyrirtæki? Ímyndum okkur að þeir hefðu látið

fyrirtækið vaxa eins og nýir eigendur gerðu og þeir hefðu síðan náttúrlega sem sannir ríkiskapítalistar haldið áfram að greiða fjármagn með fyrirtækinu. Hvað hefði ríkið tapað miklu á því? Við skulum átta okkur á því að það verður að bera núverandi tap saman við það sem áður hafði gerst og hugsanlega hefði gerst þegar þessi nýju atvinnutækifæri voru sköpuð á Siglufirði.
    Það er ástæða til þess, virðulegur forseti, að draga saman nokkrar
staðreyndir í þessu máli. Í fyrsta lagi kostaði það eigendur fyrirtækisins líklega á milli 60 og 70 millj. kr. á verðlagi áranna 1984--1985 að endurbyggja verksmiðjuna og tækjavæða til matvælaframleiðslu. Þetta er fyrir utan kaupverðið. Í öðru lagi skulum við hafa það í huga að í raun voru hinir nýju eigendur að kaupa leyfi til rækjuvinnslu, þ.e. rækjupillunarvél og gufuketil, en með í þessum kaupum fylgdi síðan húsið sem nánast var ónýtt, úr sér gengnar og úreltar vélar, en síðan kvaðir um að byggja upp húsið sem reyndist miklu dýrara en menn hafði órað fyrir. En þá kom nýtt atriði til skjalanna: Örskömmu eftir að þessi kaup áttu sér stað þá kaus sjútvrn., núv. og þáv. hæstv. sjútvrh., að gjörbreyta þannig stefnunni í rækjuvinnslumálum þjóðarinnar að nánast var sett upp rækjuverksmiðja á öllum heimilum á Íslandi. Hver sem var gat fengið rækjuvinnsluleyfi. Þessu var gubbað út úr ráðuneytinu með þeim afleiðingum að nú voru svo margir um hituna að í raun var rekstrargrundvöllur þeirra sem fyrir voru og hinna sem komu til sögunnar í mikilli hættu. Þetta hefði út af fyrir sig verið í lagi ef rækjuvinnsluleyfi þyrfti ekki til að koma heldur að hver og einn gæti hafið rækjuvinnslu þegar honum sýndist. En svo var ekki. Þessu var úthlutað með leyfum og leyfin gengu út með þeim hætti sem núv. og þáv. hæstv. sjútvrh. bauð.
    Þessa sögu þekkja margir. Þessa sögu hygg ég að þingmenn úti um allt land þekki og þekki þau vandamál sem upp hafa komið þegar fjölmargar rækjuvinnslur höfðu verið settar upp á sama stað. Afleiðingin lýsti sér m.a. í því að það varð aukin samkeppni á milli rækjuvinnslustöðvanna. Þær keyptu hráefnið á yfirverði og síðan lækkaði verðið skyndilega en það er nú eðli markaðsverðs rækjunnar að það lækkar eða hækkar miklu hraðar og ákveðnar heldur en nokkurn tíma fiskverð. Það þekkja þeir sem hafa stundað störf við sjávarsíðuna, stundað störf við frystingu eða við útgerð eins og ég veit að sumir hv. þm. hafa gert. Þetta varð til þess að mörg þessara fyrirtækja sem voru afar viðkvæm gagnvart ytri skilyrðum fóru beinlínis á hausinn og eru enn að fara á hausinn, miklu fleiri fyrirtæki heldur en þetta.
    Þá vil ég leggja áherslu á það að eigendur þessa fyrirtækis hafa á undanförnum mánuðum reynt að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins. Þessar tilraunir fengu góðar undirtektir víðast hvar og fjmrn. virtist á sínum tíma hafa hug á því að fara slíka leið og bað faglega umsýslunefnd um að fresta gjaldþroti í nokkra daga, að því er mér skilst, eftir

fund sem haldinn var um miðjan mars. Það barst aldrei svar frá ráðuneytinu. Sú bið endaði með því að ekki var hægt að bíða lengur, að sjálfsögðu, því það er ekki hægt að halda mönnum í spennitreyju, jafnvel ekki hæstv. ráðherra sem hefur venjulega skattskuldir ríkisins á þurru, svo ég vitni nú til umræðna sem áttu sér stað hér gær. Fyrirtækið Sigló hf. var því gert gjaldþrota sem kannski er ekki óeðlilegt þegar við skoðum stöðu fyrirtækisins.
    Ég minni líka á það, sem hefur komið fram í þessari umræðu og í minni ræðu, að áður en fyrirtækið var selt þá höfðu verið pilluð í fyrirtækinu 100 tonn af rækju. Ég hygg að árið eftir hafi 2300 tonn verið pilluð.
    Þetta lýsir kannski dálítið þeim umskiptum sem urðu og lýsir því að hér eru tvö ólík fyrirtæki á ferðinni en þetta skýrir það einnig að þótt fyrirtækið hafi verið örlítið, jafnvel á okkar mælikvarða, þá þurfti ríkisvaldið síðustu fjögur árin að greiða með fyrirtækinu á milli 25 og 27 millj. á ári hverju til þess að halda því gangandi og mæta rekstrartapi fyrirtækisins. Þetta verða menn að hafa í huga og menn verða að mæla þennan sparnað þegar fyrirtækið var selt, því að það voru engar líkur á því miðað við stjórnarfyrirkomulag fyrirtækisins og rekstur þess að það mundi rétta úr kútnum.
    Virðulegur forseti. Nú vil ég víkja máli mínu að öðrum atriðum sem beðið var um í þessari skýrslu og byrja á atriði sem snýr að Nútímanum og uppgjöri fjmrn. við Nútímann. Það er nefnilega athygli vert, svo ekki sé meira sagt, að skoða árás hæstv. fjmrh. í ljósi þeirrar afgreiðslu sem Nútíminn fékk í höndunum á hæstv. núv. fjmrh. sjálfum. Það er athygli vert að hann skuli hafa þrek til þess að standa hér í ræðustól og hella sér yfir andstæðinga sína í pólitík með svívirðingum, dylgjum og aðdróttunum, þegar hann á sama tíma afgreiðir mál með þeim hætti sem hann hefur gert. Það kemur nefnilega í ljós þegar textinn er skoðaður í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 10 og 11 um niðurfellingu opinberra gjalda Tímans og Nútímans að fjmrn. hafi samþykkt að fella niður reiknaða dráttarvexti og innheimtukostnað ef höfuðstóllinn yrði greiddur. Þetta er mjög sakleysislegt orðalag þar til tölurnar eru skoðaðar. Þegar tölurnar eru skoðaðar kemur í ljós að uppsafnaðir dráttarvextir og innheimtukostnaðurinn eru hvorki meira né minna en 3 / 4 af þessari skuld sem þarna er um að ræða. Í textanum á bls. 10 kemur í ljós að fjmrn. hafi þann 12. des. --- ég bið hv. þm. um að hafa 12. des. í huga --- ég endurtek 12. des. á sl. ári, ritað bréf til Gjaldheimtunnar í Reykjavík þar sem ráðuneytið samþykkti að gefa Nútímanum --- að gefa Nútímanum, þetta er þó gjöf, fjandakornið --- að gefa Nútímanum 8,5 millj. kr.
    Þegar ég síðan fletti upp í Lögbirtingablaðinu á sl. ári og skoða auglýsingu
um þetta fyrirtæki, Nútímann, þá kemur í ljós að í 37. tbl. er sagt frá því að heiti Nútímans hafi verið breytt í nýtt fyrirtæki sem nú heiti Farg, og er það nú réttnefni að kalla fyrirtækið Farg hf. Auðvitað er það

eðlilegt þegar pólitískir aðilar þurfa að fela mistök sín að þeir skipta um nafn. Það þekkir Alþb. best allra flokka. Flokkur sem var stofnaður sem Kommúnistaflokkur, síðan Sósíalistaflokkur, Sameiningarflokkurinn og hvað þetta hét allt saman og loksins Alþýðubandalagið í dag. Það getur auðvitað líka verið skemmtilegt ef á þarf að halda að skipta um flokka en það er nú önnur saga sem ég ætla ekki að rifja upp hér. En það er athygli vert að þetta fyrirtæki, Nútíminn, skiptir um nafn.
    Síðan kemur í ljós --- og nú bið ég ykkur um að taka eftir dagsetningunni --- að 13. des. þá sameinast þetta fyrirtæki, Farg, verksmiðjunni Vífilfelli, þann 13. des. Daginn eftir. Tilgangur félagsins Vífilfells er að framleiða drykkjarvörur og matvæli og rekstur fasteigna o.s.frv., þetta er gert til þess, og takið þið nú vel eftir, að kaupa tap Fargs inn í Vífilfell til að geta létt þannig á sköttum fyrirtækisins. Þetta er fyllilega lögmætt og er gert í mörgum tilvikum og er í raun og veru viðskiptavenja sem hér hefur átt sér stað og ég ætla ekki að gagnrýna það. ( Fjmrh.: Það er ekki lengur löglegt.)
    Þá kem ég að því sem skiptir máli. Vissi hæstv. ráðherra af þessu? Daginn áður en hæstv. ráðherra gengur erinda Nútímans, gefur þeim 8,5 millj. kr., vissi hann þá að það átti að nota afganginn af fyrirtækinu til þess að lækka skattgreiðslur annars fyrirtækis? Ég held að hæstv. ráðherra hafi vitað þetta og ég ætla að segja frá því, og það skiptir líka máli, að höfuðstóllinn sem Nútíminn átti að greiða fjmrn. átti að greiðast viku seinna og var greiddur 20. des. En 21. des., daginn eftir, samkvæmt Lögbirtingablaðinu, þetta er allt í 43. tbl. Lögbirtingablaðsins, kemur í ljós að það var haldinn hluthafafundur í Fargi 13. des., daginn eftir að ráðherra gekk frá þessu, og nú eru komnir nýir menn í stjórn. Og það er sama fólkið og er í Vífilfelli og er ekkert við það að athuga nema að það verður ekki annað séð á þessum dagsetningum en að hæstv. ráðherra hafi fyllilega vitað hvað hann var að gera. Og það er athygli vert að þessi sami ráðherra vogar sér að standa uppi í ræðustól á Alþingi, senda skeyti til fjarstadds manns, sem hann hafði sjálfur komið úr landi og boðið upp á að vera sendiherra úti í París, ræðst á hann af fullum krafti ... Þú mátt hlæja að þessum mönnum. Þú mátt líka hlæja að Sóknarkonum og opinberum starfsmönnum. Af hverju grípurðu nú til hlátursins? Hefur þú ekki manna harðast gagnrýnt aðra fyrir að hlæja undir ræðum þínum? (Gripið fram í.) Ég segi bara: Hæstv. ráðherra. Vertu ekki svona svekktur, hlustaðu á, notaðu hlátur þinn annars staðar því það er verið að segja það við ráðherra hér að allar dagsetningar bendi til þess að hann hafi verið í samspili um það að gefa 8,5 millj. og til viðbótar að sjá til þess að skattar fyrirtækis til ríkisins yrðu lægri, sem var ekki ólögmætt á sínum tíma. En hæstv. ráðherra er hér með sakaður um þetta vegna þess að það er ekkert sem bendir til annars því að þetta gerist á nákvæmlega sama tíma og þegar ráðherra er að vinna að þessu máli. Þessu verður hæstv. ráðherra

auðvitað að svara.
    Ég sagði áðan og það eru vissulega getgátur: Það gæti verið skýringin að þarna ætti að stofna fordæmi fyrir dagblað í bænum til þess að hægt væri síðar að koma með annað dagblað sem væri á kúpunni og gera slíkt hið sama. Ég viðurkenni, virðulegur forseti og virðulegu þingmenn, að þetta eru getgátur. En einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því að hæstv. ráðherra ,,gaf`` pólitískum samstarfsmönnum sínum 8,5 millj. svo óvenjulegt sem það er. Og af hverju er verið að gera veður út af þessu? Það er vegna þess að hvergi í greiðsluskilmálum við Sigló hf. var gefið eftir af dráttarvöxtum eða vöxtum.
    Þetta verður hæstv. ráðherra að skýra og þetta er í raun og veru stærsta málið sem við erum að fjalla um í dag. Það er hvernig núv. hæstv. ráðherra fer að þegar hann semur við þá sem skulda ríkissjóði. Hann verður að gera hreint fyrir sínum dyrum og væri það best við hæfi að hann sjálfur legði fram á Alþingi skýrslu um allar slíkar ráðstafanir sem hann hefur gert. Hann væri þá maður að meiri. Skora ég á ráðherra að gera það en vera ekki að ráðast á aðra menn og vera svo sjálfur af fullum krafti í sukki eins og þessu að bjarga Nútímanum og slíkum samstarfsmönnum núna í ríkisstjórninni en það er alveg óskiljanlegt satt að segja.
    Annað mál sem er í þessari skýrslu fjallar um Svart á hvítu. Ég ætla ekkert að vera langorður um það mál. Það sem er sérstakt við það er að fjmrn. fer nú inn á þær brautir að taka veð í gagnagrunni sem ekki er búið að vinna. Eins og kemur fram í skýrslunni er þarna um mjög óvísa eign að ræða og óvissar tekjur af þessari eign. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé venjuleg aðgerð af hálfu fjmrn. Geta menn, og það eru kannski spurningar sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Mega menn sem skulda hæstv. ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs dráttarvexti vegna vanskila á opinberum gjöldum vænta þess að þeir fái sömu meðferð og Nútíminn? Get ég sagt þeim sem koma og spyrja hvort þetta sé hægt að snúa sér til ráðherra, þetta sé almenn regla í ráðuneytinu? Ef þetta er ekki almenn regla fyrir hvaða menn er þetta gert? Er það gert fyrir
gæðinga? Hvers konar gæðinga þá? Svarta eða hvíta? Flokksgæðinga eða öðruvísi gæðinga? Ég held að hæstv. ráðherra ætti aðeins að skoða það þegar hann lemur á öðrum úr þessum ræðustól í umræðum sem koma ekki þessu máli við hvað hann sjálfur hefur verið að bauka í sínum ráðherradómi. Þetta er auðvitað stóra málið. Annars vegar er fyrirtæki sem hefur orðið að taka á sig erfið ytri skilyrði, fara á höfuðið eins og mörg önnur fyrirtæki, m.a. vegna stefnu þessarar ríkisstjórnar. Hins vegar er fyrirtæki sem fær beinlínis í gjöf peninga frá ráðuneytinu og þegar það er skoðað virðist það vera gert í samhengi við annað hjá þessu fyrirtæki til að bjarga ákveðnum mönnum þar frá stórskuldum. Og ég segi: Ef eitthvað er alvarlegt mál þá er þetta alvarlegt mál.
    Nú kann vel að vera að hæstv. ráðherra geti svarað fyrir sig og hann komi með skýr svör við þessu öllu

saman og ég mundi fagna því af því að hæstv. ráðherra, þrátt fyrir að vera ekki kjörinn á Alþingi þar sem honum var hafnað í síðustu kosningum, hefur málfrelsi á hinu háa Alþingi og getur auðvitað svarað fyrir sig. Hann hefur staðið hér í ræðustól og ráðist á fjarstadda menn sem hafa ekki málfrelsi hér lengur eða hafa það ekki vegna þess að þeir hafa aldrei verið kjörnir á þing. Þetta er kjarkur og þor þessa ráðherra sem stýrir einu og öllu í þeirri hæstv. ríkisstjórn sem hér situr um stundarsakir.
    Það er ekki ástæða til þess, virðulegur forseti, að fara mörgum orðum um einkavæðingu, út á hvað hún gengur. Það þekkja allir þeir sem fylgjast með umræðum hér á landi og annars staðar. Það er ljóst og almennt viðurkennt og ég býst við að hæstv. ráðherra viðurkenni það sjálfur að það er aukin hagkvæmni að því að fyrirtæki séu rekin til að mynda í hlutafélagsformi. Undir það hefur ráðherra skrifað. Hann er sem ráðherra meðflm. frv. til að breyta ríkisprentsmiðjunni Gutenberg í hlutafélag og í greinargerðinni koma fram mjög góðar röksemdir fyrir því hvers vegna það er gert. Ég hygg að þær röksemdir geti hæstv. ráðherra gert að sínum, enda er þar um stjfrv. að ræða.
    En það er annað sem skiptir máli í einkavæðingu og það er að með henni er hægt að koma völdum og efnahagslegum áhrifum frá ríkinu og til annarra aðila, þ.e. að koma á valddreifingu í stað miðstýringar. Á þessu er mikill skilningur víðast hvar. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta því að rétt áður en ég hóf þessa ræðu mína var ég að flytja ræðu um að auka og efla viðskipti á hlutabréfamarkaði og fór þar vandlega í saumana á þeim rökum. Aðalatriði málsins er, að ríkisstjórnin, þrátt fyrir að hafa nú betra tæki en ríkisstjórnirnar á undan höfðu þar sem hún hefur skýrslu frá Enskilda Securities, getur, ef henni sýnist, komið á alvöru hlutabréfamarkaði og breytt þannig hlutfallinu í íslenskum fyrirtækjum frá því að vera of hátt lánsfjárhlutfall í að vera hærra eiginfjárhlutfall. Hér hafa verið fluttar tillögur í vetur, bæði af hv. 10. þm. Reykv. og eins af þingmönnum Sjálfstfl. sem mundu auka eftirspurn og framboð á hlutabréfum og hvetja þannig til aukins sparnaðar í hlutafélögum og koma þannig inn sem bæði nýr sparnaður, en þó umfram allt sem nýtt fé sem fer ekki úr félögunum sjálfum. Ég hefði talið það maklegra að hæstv. ráðherra hefði stutt þessar tillögur, ef hann er áhugamaður um eðlilegan og góðan rekstur hér á landi, annan en ríkisreksturinn. Ekki ætla ég að lá honum það að þykja vænt um ríkið. Það hefur komið fram í umræðum á þessu þingi. En ef hann hefði haft raunverulegan áhuga á því að koma með gott framlag í þessum efnum hefði hann til að mynda getað stutt þessar tillögur. Hann hefði líka getað farið að þeim ráðum, sem margoft hafa verið gefin, að skapa eðlileg rekstrarskilyrði fyrir útflutningsgreinarnar.
    Hann hefði einnig getað notað tíma sinn í gær miklu betur með því að reyna að gera kjarasamning við þá sem hann er að semja við og segir að hlæi að Sóknarkonum í stað þess að eyða heilum degi í að

ráðast gegn frv. sem var samkomulagsfrv. í nefnd og sitja svo undir þessari umræðu hlæjandi að því að hafa gefið 8,5 millj. úr ríkissjóði. Það sýnir best hvernig ,,húmor`` þessi ágæti ráðherra hefur að hverju hann hlær og að hverju hann vill að aðrir hlæi. Ég vek hins vegar athygli á því fyrir þá sem koma til með að lesa þessar umræður að nú hlær hæstv. ráðherra ekki.
    Ég held að hæstv. ráðherra þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum. Það sem er athyglisverðast við þessa skýrslu er það hvernig hæstv. ráðherra sjálfur hefur gengið frá sínum hnútum við samstarfsmenn sína í ríkisstjórninni, hvernig hann í lok síðasta árs hagaði sér þegar hann var að gera upp við Nútímann. Ég hygg að þessum tíma sé vel varið í dag ef hæstv. ráðherra getur hreinsað sig af þeim áburði sem ég hef borið á hann með þessum orðum mínum því annað verður ekki séð en hæstv. ráðherra hafi vitað af því í hvaða samkrulli hann var þegar hann gaf þessar 8,5 millj. Það er aðalatriði þess máls sem við erum að fjalla um vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar í dag.