Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Sú málsupptekt sem hér hefur farið fram er með nokkuð einstæðum hætti og þessi umræða hefur þróast að mínu mati fremur ólánlega. Ég tel að það hafi verið einstaklega misráðið af 5. þm. Norðurl. v. að kveikja þessa umræðu í fyrradag eða hvenær það nú var sem hann gerði það og gera þannig hagsmuni Siglufjarðar að bitbeini hér á Alþingi og leika sér að mikilvægum hagsmunum þess bæjarfélags og að fara að færa bæjarmálabaráttu á Siglufirði hér inn á Alþingi. Sem sagt að flytja óhreina þvottinn kratanna norðan af Siglufirði hingað inn í þingsali.
    Sigló hefur verið mikilvægt fyrirtæki fyrir atvinnulífið á Siglufirði og það er mikilvægt að þetta fyrirtæki sé starfrækt. Samkvæmt lögum nr. 26/1984 var Lagmetisiðjan Siglósíld seld Sigló hf. Það er nú rétt að það komi fram vegna þeirra orða sem hér hafa fallið að Lagmetisiðjan var í sjálfu sér ekki í rúst þegar hún var seld. Þetta var fyrirtæki í rekstri sem hafði að vísu gengið misjafnlega vel en upp á síðkastið ekkert sérlega illa. Það var að vísu ekki búið í nýtísku búning en það framleiddi með viðunandi hætti og var í viðunandi rekstri þegar það var selt.
    Ég átti á sínum tíma hlut að þessari lagasetningu og fjallaði um málið í iðnn., mig minnir að ég hafi verið formaður hennar þegar þetta skeði, og ég var nú ekki upphaflega sömu skoðunar um skaðsemi ríkisrekstrar eins og þáv. iðnrh. og ég hafði ekki sömu miklu trúna á einkaframtaki og þáv. hæstv. iðnrh. Ég þekkti til þeirra Siglfirðinga sem gerðust hluthafar í þessu fyrirtæki, þetta eru vænir menn og sanntrúaðir á einkaframtakið, forustumenn Sjálfstfl. í Siglufirði. Ég hafði náttúrlega dálítinn grun um að það gengi ekki allt upp hjá þessum mönnum, þetta eru vænir menn eins og ég sagði, en afskipti þeirra af bæjarmálum á Siglufirði gáfu ekki tilefni til þess að búast við að þarna væru beinlínis séní á ferðinni.
    Ég vildi stuðla að því að þessi hluthafahópur breikkaði og taldi að það mundi styrkja fyrirtækið ef fleiri ráðagóðir menn kæmu þar að rekstri. Þetta gekk nú ekki eftir eins og síðasti ræðumaður tók fram. Hluthafarnir á Siglufirði vildu ekki fleiri Siglfirðinga inn í þetta fyrirtæki og lokuðu að sér. Því miður. Ég held að það hafi verið rétt að selja þetta fyrirtæki þrátt fyrir allt og er ekkert að skorast undan þeirri ábyrgð sem ég ber á því og greiddi því atkvæði hér á þingi.
    Nýir eigendur tóku til við að endurbyggja og þeir gerðu það af miklum stórhug og endurbyggingin varð allt of dýr. Ég er ekki viss um að þeir hafi kunnað sér hóf í framkvæmdagleði sinni en fyrr en varði voru skuldirnar orðnar himinháar. Þetta er að vísu ekki eina fyrirtækið eða einstætt í sögu fyrirtækja á Íslandi að svona gerist. Þessi rekstur fyrirtækis hefur gengið upp og ofan. Þar kom að fyrirtækið gat ekki staðið í skilum og þá var gert nýtt samkomulag með mjög mildum greiðslukjörum eins og Ríkisendurskoðun bendir á. Ég veit ekki hvort það er gagnrýnisvert þetta samkomulag sem þá var gert vegna þess að það var

þýðingarlaust fyrir ríkið að gera stífar endurgreiðslukröfur á hendur þessu fyrirtæki eins og þá var ástatt með það. Og ég held að það hefði ekki verið raunhæft að vænta þess að það gæti endurgreitt ríkinu kaupverð með skjótum hætti eða áfallnar skuldir.
    Ég ætla ekki hér eða nú að ræða í smáatriðum um stjórn þessa fyrirtækis á undanförnum árum. Ég hef gagnrýnt sumt af því sem gerst hefur í þessu fyrirtæki, t.d. eins og það þegar síldarlínan var ásamt með sölusamningi við Rússa seld til Hornafjarðar. Ég held að það hefði verið rétt að gefa heimamönnum kost á að kaupa síldarlínuna og koma upp niðurlagningu eins og þeir óskuðu eftir. Ég er ekki að áfellast í sjálfu sér forráðamenn Sigló þó þeir vildu losa sig við þessa síldarlínu, þeir ráku hana með tapi, en ég er að áfellast þá fyrir að gefa ekki öðrum Siglfirðingum tækifæri til þess að taka við henni ef þeir hefðu og af því að þeir reyndust hafa áhuga á því.
    Það hefur einkennt sumar ráðstafanir þessa fyrirtækis að það hefur verið óheppilegt óðagot á sumum þeim ráðstöfunum sem þetta fyrirtæki hefur staðið í. Stjórn fyrirtækisins hefur starfað nokkuð lokað og allt í einu stendur maður frammi fyrir gerðum hlut sem e.t.v. hefði verið hægt að gera öðruvísi og gera betur.
    Þar var komið í vetur að það var óhjákvæmilegt að gefa fyrirtækið upp í gjaldþrot. Því miður. Ég held að það hafi verið óþarft og eitt dæmið um óðagotið enn að leigja Siglunesi með þeim hætti sem gert var. Ég held að það hefði verið eðlilegra að gefa fleirum kost á að taka Sigló á leigu.
    En það er nú til lítils að ræða um liðna tíð. Það sem máli skiptir er það hvað við gerum í framtíðinni. Það sem ég tel að þurfi að gera er að skapa sterkt fyrirtæki á rústum Sigló, fyrirtæki sem getur tekið við þegar leigutími Sigluness er úti. E.t.v. er það Sunna hf. sem stofnað hefur verið, e.t.v. í samstarfi með einhverjum hætti við núverandi eigendur Sigluness, en þetta fyrirtæki þarf að vera með sterkri aðild heimamanna. Þetta fyrirtæki þarf að vera með ráðagóðum heimamönnum sem hefðu það á valdi sínu að reka traust fyrirtæki í rækjuvinnslu á Siglufirði og starfa hjálparlaust í framtíðinni sem
ein af burðarstoðum undir blómlegu atvinnulífi á Siglufirði.
    Ég sagði áðan að þessi málsupptekt hér hefði verið með nokkuð einstæðum hætti og það er rétt að rekja aðeins söguna. Hv. 5. þm. Norðurl. v. spyr fjmrh. á þskj. 891 um gjaldþrot Sigló og leigu á reytunum. Í spurningunni eru náttúrlega dylgjur og ásakanir sem mér finnast í sjálfu sér vera óviðeigandi, en þegar fjmrh. fór að svara spurningunni þá fór honum eins og öðrum kappa fyrr á tíð, Þorgeiri Hávarssyni, sem líka var mikill kappi eins og hæstv. fjmrh., að honum sýndust sjálfstæðismenn standa vel við höggi og þá náttúrlega gat hann ekki stillt sig og hjó. Hann virðist nú hafa hitt á auman blett því hann skapaði mikla gremju í herbúðum sjálfstæðismanna og viðbrögðin

þar urðu náttúrlega mjög einkennileg. Það var út af fyrir sig ekki óeðlilegt að sjálfstæðismenn bæðu um skýrslu um Sigló, m.a. til þess að hreinsa sig af grófum ásökunum frá hæstv. fjmrh. Nei, þeir höfðu nú meira undir. Þeir fóru um víðan völl, spurðu t.d. um alls óskyld málefni eins og uppgjör á skuldum Nútímans. Að vísu lá nú fyrir að fróðleiksfýsn þeirra yrði svarað því að hv. 1. þm. Reykn. Matthías Á. Mathiesen hafði nokkrum dögum áður lagt fram fsp. um það efni á þskj. 996. Henni var dreift ef ég veit rétt 3. maí og þar óskaði hann ítarlegra svara um gjaldþrot Nútímans og eftirgjöf af opinberum gjöldum, þar með töldum dráttarvöxtum, hvenær þessi eftirgjöf hefði verið veitt og hvaða innheimtuaðgerðir ríkissjóður hefði haft uppi til innheimtu opinberra gjalda fyrirtækjanna áður en eftirgjöf fór fram. Við þessari fsp. fékk 1. þm. Reykn. svar í dag og þeirri fsp. hefur sem sagt verið svarað.
    Ríkisendurskoðun fjallaði um málið í skýrslu sinni. Ég tel að fjmrh. hafi gert það skásta fyrir ríkissjóð sem hægt var að gera í þeirri stöðu og ég held að hann hafi gætt hagsmuna ríkissjóðs með hinum besta hætti. Hann fékk höfuðstól skuldarinnar greiddan en gaf eftir reiknaða dráttarvexti og það var að sjálfsögðu betra fyrir ríkissjóð að fá höfuðstólinn heldur en ekkert því þarna var reyndar ekki feitan gölt að flá í þessu þrotabúi.
    Mér finnst vera ævintýralegt og raunar strákslegt að tengja þessi þrjú mál saman því að auk þess arna var um skuldbreytingu Svarts á hvítu að ræða. Svart á hvítu hefur verið mikill brautryðjandi í menningarlegri bókaútgáfu hér á síðustu árum og ég sé ekki ástæðu til að ámæla fjmrh. fyrir það að breyta skuldum þess fyrirtækis á þann hátt sem hann gerði og það gerir heldur ekki Ríkisendurskoðun. Ég held sem sagt að hér hafi menn farið nokkuð offari og hefðu getað sparað sér sumt af því sem hér hefur verið sagt í umræðum um þessi mál öll á báða bóga.
    En það sem mér sýnist að upp úr standi er það að við þurfum --- ja, fyrst og fremst þingmenn Norðurl. v. allir sem einn að sameinast um það að reyna ásamt með heimamönnum og e.t.v. einhverjum áhugaaðilum utanaðkomandi að koma á fót traustu rækjuvinnslufyrirtæki á Siglufirði.