Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Mál þetta á sér þann aðdraganda að hv. 5. þm. Norðurl. v. bar fram fyrirspurn sem leiddi til þess að hæstv. fjmrh. misnotaði aðstöðu sína með mjög grófum hætti til þess að bera hér fram óréttmætar ásakanir á hendur pólitískum andstæðingum sínum. Það er á hinn bóginn athygli vert hvernig hv. 5. þm. Norðurl. v. Jón Sæmundur Sigurjónsson hefur fjallað um atvinnumál á undanförnum mánuðum. Öll hans framganga hefur miðað að því að grafa undan áliti og trú manna á tilteknum hópi fyrirtækja. Hann hefur jafnvel í tengslum við ferðir sínar erlendis vegna hvalamálsins verið sérstakur boðberi þess að framleiðsla íslenskra fyrirtækja í þessari atvinnugrein væri ekki nógu góð og varan væri gölluð. Óhróðri af þessu tagi hefur hv. þm. verið að dreifa bæði hérlendis og á erlendum vettvangi að því er virðist. Þetta er einkennileg framkoma af þingmanni og ég hygg næsta einsdæmi, ekki síst vegna þess að hv. þm. er nú í flokki hæstv. iðnrh. sem ég hélt að ætti a.m.k. að formi til að hafa fremur hug á því að styrkja stöðu fyrirtækjanna og ekki síst í þessari atvinnugrein.
    Fyrirspurn hv. þm. sem varð tilefni upphlaups hæstv. fjmrh. var greinilega af sömu rót runnin, að reyna að koma illu orði á íslenskan atvinnurekstur. Og jafnvel þó að lund hv. þm. sé nú á þann veg að þetta sé helsta hugsjónamál hans á þessu þingi, þá er það býsna furðulegt að þingmaður skuli með þessum hætti tala til kjósenda sinna sem eiga líka mikið undir því að atvinnufyrirtækin dafni og blómgist og alþingismenn og stjórnvöld séu ekki að leika sér að því að grafa undan rekstrargrundvelli þeirra.
    Í sjálfu sér þurftu æsingaviðbrögð hæstv. fjmrh. ekki að koma á óvart þar sem hann hafði nokkurn tíma til andsvara, en hann vissi að aðrir hv. þm. áttu þess ekki kost að verja hendur sínar. Þetta eru gamalkunn vinnubrögð hæstv. fjmrh. Við þekkjum þau frá fyrri tíð. Allur hans pólitíski ferill einkennist af upphlaupum, ásökunum af þessu tagi. Það má með nokkrum sanni segja að fátt standi upp úr í stjórnmálaferli hæstv. fjmrh. annað en upphlaup þessu lík.
    Auðvitað er það rétt sem hér hefur komið fram að hæstv. ráðherra ætlaði að drepa öðrum málum á dreif með því að henda hér fram í fyrirspurnatíma ásökunum á pólitíska andstæðinga í trausti þess að unnt væri að snúa umræðunni á þann veg og menn gleymdu svo öðrum málum þar sem hann er í erfiðleikum. Við þessu var ekki unnt að bregðast með öðrum hætti en að kalla fram skýrslu um málið og fá hér ítarlegar umræður. Satt best að segja hefur hæstv. ráðherra farið hér hina mestu sneypuför. Við vitum að í stjórnarliðinu liggur hann undir ámæli fyrir þetta frumhlaup sitt og fékk reyndar svona kurteislega ádrepu frá formanni þingflokks framsóknarmanna hér fyrir stundu í þessari umræðu.
    Sannleikurinn er auðvitað sá að hæstv. fjmrh. er sá stjórnmálamaður sem lengst hefur gengið í því að draga atvinnufyrirtæki í dilka út frá pólitískum viðhorfum. Ég hygg að enginn stjórnmálamaður,

jafnvel ekki fyrr og síðar, komist með tærnar þar sem hann hefur hælana í þeim efnum. Menn minnast þess þegar hann hóf herferðina hér gegn Flugleiðum á sínum tíma. Það voru allt saman ótíndir glæpamenn og bófar sem ruddust fram í skjóli Sjálfstfl. og önnur ummæli af því tagi. Það átti að reyna að grafa undan þessu fyrirtæki, helsta samgöngufyrirtæki landsmanna vegna pólitísks ofstækis núv. hæstv. fjmrh.
    Niðurstaðan af þessari umræðu er sú að þetta er enn eitt dæmið um þetta pólitíska ofstæki þar sem fyrirtæki og einstaklingar sem leggja í áhættu í atvinnurekstri eru dregnir í dilka eftir pólitískum skoðunum. Það er nú í raun og veru það sem eftir stendur af þessari umræðu.
    Hér hefur með mjög skýrum hætti verið sýnt fram á það að staðið var á fullkomlega eðlilegan hátt að sölu þessa fyrirtækis svo sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, enda byggist þessi sala á lögum sem samþykkt voru frá Alþingi. Það hefur verið leitt í ljós í þessari umræðu að forsendur breyttust í verulegum atriðum, eins og gerist og gengur, fyrir þessum rekstri. Það leiddi til þess að þáv. fjmrh., Albert Guðmundsson, tók ákvörðun um skuldbreytingu þessu fyrirtæki til handa. Og vafalaust er það rétt sem segir í þessari skýrslu að þar hafi verið um nokkuð óvanalega langa greiðslufresti að ræða. En ég er alveg sannfærður um það að þáv. fjmrh. hefur réttilega metið stöðu fyrirtækisins á þessum tíma á þann veg að með þessu einu móti væri hægt að tryggja hagsmuni ríkissjóðs eins og hv. þm. Páll Pétursson benti á hér í umræðunni. Reyndar sýna svo reikningar fyrirtækisins síðan að þetta hefur verið rétt mat og allt gaspur hæstv. fjmrh. í þessari umræðu um pólitíska spillingu í þessu sambandi er því út í bláinn. Allur aðdragandi málsins á sér mjög eðlilegar forsendur og hefur lagastoð með samþykkt hins háa Alþingis á þeirri ráðstöfun.
    Síðan reyndu bæði hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson og hæstv. fjmrh. að gera úr því einhverja pólitíska aðför að Sjálfstfl. að skiptaráðandi hefði leyft þessum aðilum sem stóðu að rekstri fyrirtækisins áframhaldandi rekstur fyrirtækisins þangað til endanlegar ákvarðanir yrðu teknar um framhaldið. Nú hagar svo til að skiptaráðandi er einn af embættismönnum hæstv. dómsmrh. Hann svaraði því hér á Alþingi fyrir skömmu í beinu framhaldi af upphlaupi hæstv.
fjmrh. að hann hefði ekkert athugavert fram að færa við ákvarðanir síns embættismanns. En að vera að draga Sjálfstfl. inn í þær ákvarðanir er náttúrlega eins fjarstæðukennt og nokkuð getur verið, enda er hæstv. fjmrh. löngu hættur að byggja á þessari forsendu þó að hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson sé að freista þess enn, en sýnir nú auðvitað fyrst og fremst á hversu veikum grunni þessar pólitísku ásakanir eru byggðar.
    Í beiðni þingmanna Sjálfstfl. um skýrslu um þetta mál var óskað eftir því að til hliðsjónar kæmu upplýsingar um ákvarðanir hæstv. fjmrh. í tveimur tilvikum þar sem samið hefur verið um greiðslu

skulda og í öðru tilviki samið um að fella niður 3 / 4 af skuld. Þessi tvö dæmi voru tekin vegna þess að fréttir hafa verið fluttar af þessum ákvörðunum á undanförnum vikum. Í okkar beiðni var ekki óskað eftir því að Ríkisendurskoðun legði mat á þessar ákvarðanir eða gerði sérstakar viðmiðanir við aðrar sambærilegar ákvarðanir. Það var aðeins óskað eftir því að staðreyndir þessara tveggja mála yrðu birtar í tengslum við þessa skýrslu til þess að sýna fram á hvert fleipur hæstv. fjmrh. hefur verið að fara með og hversu illa ígrundaðar og á lélegum rökum ásakanir hans væru reistar.
    Það væri hins vegar athygli vert og kannski alveg nauðsynlegt vegna svara hæstv. ráðherra að fara fram á viðbótarupplýsingar frá Ríkisendurskoðun og biðja hana um sérstakt mat á þeirri ákvörðun hæstv. ráðherra að gefa eftir 3 / 4 af skuldum Nútímans og leggja mat á veðhæfni þess gagnagrunns sem hæstv. ráðherra tók gildan. Ég er ekki að fella neinn áfellisdóm yfir þessum tveimur fyrirtækjum. Þvert á móti. Þau hafa unnið heilmikið þjóðfélagslegt starf. Annað fyrirtækið að gagnmerkri bókaútgáfu, hitt að blaðaútgáfu sem frá mínum bæjardyrum séð er að vísu ekki gagnmerk en alveg nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Og þó að einn af forverum mínum sem formaður Sjálfstfl., Jón Þorláksson, hafi ekki séð ástæðu til þess að lesa Tímann, þá er það lýðræðislegur réttur og lýðræðisleg skylda Framsfl., ef hann kýs svo, að gefa út blað og engin ástæða til að vera með neinar ásakanir uppi í garð þeirra manna sem hafa freistað þess að standa heiðarlega að rekstri þess blaðs. En óhjákvæmilegt var auðvitað vegna fréttaflutnings af þessum málum að taka þau hér til samanburðar. Og vegna lélegra svara hæstv. ráðherra kann svo að fara að það verði nauðsynlegt að biðja Ríkisendurskoðun um mat og viðmiðanir á þessum tveimur ákvörðunum vegna þess að hæstv. fjmrh. óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun legði sérstakt mat á þá ákvörðun Alberts Guðmundssonar þegar hann skuldbreytti í byrjun október 1985 láni Sigló hf. Það kemur þá væntanlega til síðari umfjöllunar.
    En hæstv. fjmrh. sagði af þessu tilefni að hann hefði ekki haft minnstu hugmynd um að selja átti fyrirtækið Nútímann daginn eftir að hann tók ákvörðun um að fella niður 3 / 4 hluta af skuldinni. Hann sagði það vera reglu í tilvikum sem þessum að embættismenn fjmrn. gengju rækilega úr skugga um að viðkomandi fyrirtæki væri gjaldþrota og það hefði verið gert í þessu tilviki. Hæstv. ráðherra sagði að embættismenn fjmrn. gengju rækilega úr skugga um að fyrirtæki væri gjaldþrota og það hefði verið gert í þessu tilviki.
    Nú kom á daginn að þetta fyrirtæki varð ekkert gjaldþrota. Það var bara selt daginn eftir. Þrátt fyrir rækilega athugun embættismanna, þá höfðu hvorki þeir né hæstv. ráðherra minnstu hugmynd um að fyrirtækið yrði selt daginn eftir. Og hæstv. ráðherra viðurkennir hér að einmitt sú staðreynd geri málið gruggugt eða setji það í svolítið gruggugt ljós. En þá hlýtur maður að spyrja fyrst fram fór þessi rækilega athugun

embættismanna, sem ég ber fullt traust til og þykist vita að hafi verið eins rækileg og nokkur kostur var á, þá hlýtur maður að spyrja: Leyndu forustumenn eða forsvarsmenn Nútímans hæstv. fjmrh. því að fyrirtækið átti að selja daginn eftir? Nú eru þetta samráðherrar hans í ríkisstjórn sem fara þar með og fóru þar með áhrif. Ef það er rétt, sem ég rengi ekki, að þessi rækilega athugun embættismannanna hafi ekki leitt það í ljós að selja átti fyrirtækið og hæstv. fjmrh. var með öllu ókunnugt um þá staðreynd, þá hlýtur það að liggja nokkuð ljóst fyrir að forustumenn Framsfl., samráðherrar hæstv. fjmrh., hafa leynt hann þessari staðreynd sem hann sjálfur viðurkennir að setji málið í gruggugt ljós.
    Þetta er nú það sem fram hefur komið eftir ræðu hæstv. fjmrh. og það sem eftir stendur og hlýtur að vekja upp stórar spurningar í þessu máli. Sýnir eitt með öðru, hvers konar frumhlaup það var og hvers konar sneypuför það var sem hæstv. ráðherra fór hér upp þegar hann hóf árásarherferð sína.
    Ég fullyrði að Ríkisendurskoðun muni ekki finna mörg dæmi um það að 3 / 4 hlutar skuldar hafi verið gefnir eftir þó að þó nokkur dæmi séu um það í þeim tilvikum sem hæstv. ráðherra lýsti alveg réttilega að samið sé um greiðslu á eftirstöðvum skulda.
    Hæstv. ráðherra hefur líka tekið ýmsar aðrar ákvarðanir. Það voru birtar um það fréttir til að mynda að hann hefði heimilað að skuldum fyrirtækis, fiskvinnslustöðvar í Súgandafirði, yrði hagrætt á þann veg að kröfum ríkissjóðs, sem hafði yfirtekið kröfur Útvegsbankans gamla, yrði breytt ef ég man rétt í svokallað víkjandi hlutabréfalán sem einungis kæmi til
endurgreiðslu ef fyrirtækið einhvern tíma yrði borgunarmaður fyrir slíku. Ég þykist alveg vita að þarna hafi hæstv. ráðherra verið að taka ákvarðanir í þeim tilgangi að reyna að styðja við bakið á atvinnulífi í Súgandafirði. En það sér það líka hver maður að ef fyrirtækið Siglósíld hefði fengið sambærilega fyrirgreiðslu, víkjandi hlutabréfalán, hver niðurstaðan væri út frá hagsmunum ríkissjóðs í samanburði við það sem gert var. Ég er ekkert að áfellast hæstv. ráðherra fyrir þessa ákvörðun. Ég er aðeins að benda á þessa einföldu staðreynd sem sýnir enn að ráðherrann fór hér af stað í hinu mesta gáleysi og sætir enda ámæli hjá samstarfsmönnum sínum fyrir þetta frumhlaup.
    Frú forseti. Þessi umræða hefur nú staðið alllengi. Öll meginrök málsins eru komin fram. Hæstv. ráðherra stendur hér berskjaldaður. Pólitískar árásir hans hafa verið afhjúpaðar. Hér er aðeins enn eitt upphlaupið sem sannar að hann fyrst og fremst er sá stjórnmálamaður í þessu landi sem hefur dæmt fyrirtæki eftir pólitískum viðhorfum.
    Hæstv. ráðherra reyndi svo í vörn sinni að gera lítið úr mismunandi skoðunum manna að því er varðar ríkisrekstur. Auðvitað kom það fram hjá hæstv. ráðherra að í raun og veru vill hann viðhalda ríkisrekstri alls staðar þar sem hann getur því mögulega komið við. Um þetta er ágreiningur. Á

undanförnum árum hafa ýmis fyrirtæki verið seld. Eignarhlutur ríkisins í hlutafélögum hefur verið seldur. Fyrsta skrefið var stigið í þá veru að breyta ríkisbanka í hlutafélag og fyrir dyrum hefur staðið að selja hann einkaaðilum. Allt er þetta þróun í rétta og eðlilega átt. Í hverju tilviki verða menn svo að meta stöðu þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga. Verðmæti þeirra helgast auðvitað af rekstrarmöguleikum og rekstrarstöðu. Fyrirtæki sem árum saman hefur þurft að taka við greiðslum úr ríkissjóði er í raun og veru gjaldþrota. Ég hygg að það sé alveg rétt sem hv. 2. þm. Norðurl. v. benti hér á að það megi frekar gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa selt þetta fyrirtæki of háu verði miðað við stöðu fyrirtækisins, miðað við það að ríkissjóður hafði þurft með verulegum framlögum að halda því uppi árum saman. Á þetta fyrirtæki voru lagðar ákveðnar kvaðir við söluna sem þýddu að tap fyrirtækisins varð áframhaldandi, sneið stjórnendum ákveðinn stakk sem þrengdi möguleika þeirra til raunverulegrar hagræðingar í rekstrinum. Allt þetta verður að hafa í huga og breyttar forsendur varðandi rekstraraðstæður að öðru leyti eins og hér hefur komið fram í umræðunni verður að hafa í huga þegar mál sem þessi eru skoðuð.
    Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þetta mál miklu lengra svo gjörsamlega sem málflutningur hæstv. ráðherra hefur hér verið afhjúpaður. Öllum röksemdum hefur verið kippt undan stóryrðum hans og grófum ásökunum. Vonandi verður þetta upphlaup honum nokkur lærdómur og vonandi leiðir það til þess að þeim fækkar tilvikunum sem hafa hæst risið á hans stjórnmálaferli, að velja út ákveðin atvinnufyrirtæki í landinu út frá pólitískum sjónarhóli til þess að grafa undan þeim og reyna að gera þau tortryggileg. Vonandi dregur hæstv. fjmrh. þann lærdóm af þessari sneypuför sem hann hefur farið er hann hóf þessa umræðu í fyrirspurnatíma fyrir nokkrum dögum.