Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal eftir mætti reyna að hafa mál mitt stutt og reyna að standa við það samkomulag sem ég gerði á fundi okkar áðan. Ég ætla ekki að fara mjög rækilega í málefni Sigló hf. heldur einbeita mér frekar að öðru í þessu máli sem lýtur að þeim fyrirgreiðslum sem fjmrn. virðist hafa til þess að hygla ákveðnum fyrirtækjum. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. hvar þessar reglur sé að finna, að ganga inn í og semja við einstök fyrirtæki sé eftir því leitað, hvar þær heimildir séu í lögum eða reglum og fá að vita hvort mörgum fyrirtækjum hafi verið synjað um sams konar heimild og þeim fyrirtækjum sem hér um ræðir, þ.e. fyrirtækinu Svart á hvítu og Nútímanum. Ég hef einu sinni reynt að fá fyrir fyrirtæki sams konar fyrirgreiðslu en því var neitað. Að hafa slíkar reglur að fjmrh. geti eftir geðþótta sínum ákveðið að semja við eitt fyrirtæki en ekki annað kallar á að um þessar heimildir verður tortryggni og sem betur fer hefur verið lagt fram hér á Alþingi nú frv. sem hv. þm., forseti Nd., hefur lagt fram og ég vona svo sannarlega að það frv. verði að lögum þar sem vald fjmrh. er takmarkað.
    En það sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. vakti nokkra eftirtekt mína út af því að fyrir fjh.- og viðskn. Ed. kom Guðmundur Vignir gjaldheimtustjóri og sagði það vera meginlínu í innheimtu krafna hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík að þeir neituðu öllum samningum, sama hvort þeir hétu nauðungarsamningar eða aðrir samningar um annaðhvort eftirgjöf á skuldum eða þá að semja um skuldbreytingar. Hann sagði á þessum ákveðna nefndarfundi að hans skoðun væri sú að það ættu ekki að vera til reglur um það að fjmrh. hefði slíka heimild út af því að það mundi vekja upp þá tortryggni og bæri með sér að verið væri að hygla einum á kostnað heildarinnar.
    Um þau tvö mál sem fjallað er um í skýrslu Ríkisendurskoðunar, málefni Svarts á hvítu og Nútímans, ætla ég ekki að fjölyrða. Ég dreg ekki í efa það sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. að þarna hafi verið um það að ræða að verið var að bjarga þeim kröfum sem ríkissjóður átti á hendur þessum fyrirtækjum. En í síðargreinda málinu, varðandi Svart á hvítu, finnst mér þær tryggingar sem gefnar eru mjög vafasamar. Ef semja á um skuldbreytingu, þá hlýtur það að vera meginforsendan að tryggingarnar séu með þeim hætti að það megi byggja á þeim.
    Gagnagrunnur er mjög vafasöm trygging og mig langar í framhaldi af því að spyrja hæstv. fjmrh. hvort lagt hafi verið mat á það hjá fjmrn. hversu mikils virði þessi gagnagrunnur væri og látin fara fram úttekt á því hvort hann sé 25 millj. kr. virði eins og krafan er sem skuldbreytt var. Og einnig hvort í því dæmi hafi verið létt af öðrum eignum veðum eða ábyrgðum. Þetta vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. um. ( Gripið fram í: Hann er ekki í salnum.) Hann hlýtur að heyra það sem hann vill heyra og ég vonast svo sannarlega eftir því að hann svari þessu á eftir og að komið sé til hans boðum um hvað í þessum spurningum felst.
    En það sem hér hefur farið fram í dag er nokkuð

athyglisvert fyrir þeirra hluta sakir að hér hefur verið eins konar málflutningsæfing þar sem tekist hefur verið á um ríkisrekstur og einkarekstur. Þetta minnir mig á umræður sem fóru fram þegar ég var í menntaskóla um það hvort hér ætti að vera kapítalismi eða sósíalismi. Ég held að slíkar umræður geti aldrei verið til góðs. Þegar umræður eru komnar á þetta plan, þá er ekki verið að tala um þann raunveruleika sem við búum við, heldur verið að karpa um stefnur í stjórnmálum og auðvitað í þeim tilvikum verið að tala um ákveðna flokka án þess að málefnið sem slíkt skipti verulegu máli. En ég get ekki annað en harmað það fyrir hönd Siglfirðinga að hér inni á Alþingi skuli verið tekið upp svona mál þar sem þeir eru þolendurnir en flokkarnir eru að berjast sín á milli.