Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Út af orðum hv. 1. þm. Suðurl. í sambandi við það að áhugavert væri að gera alla banka að hlutafélagsbönkum eða koma þeim í það form, vil ég segja þetta: Þessir bankar, þ.e. hlutafélagsbankarnir, hafa tekið upp kjörvexti sem ríkisbankarnir hafa ekki gert. Það hefur verið auglýst að þessir kjörvextir geti verið allt upp í 3% hærri en hinir skráðu vextir eru. Og eftir því sem fyrirtækin eða einstaklingarnir standa verr, eftir því eru vextirnir hærri. Er þetta það markmið sem hv. sjálfstæðismenn vilja koma á? Ríkisbankarnir hafa ekki tekið þetta upp. En ríkisbankarnir sjá fyrst og fremst um að þjóna atvinnulífinu í landinu. Hinir gera það að nokkru, en fyrst og fremst eru það þeir. Hlutfallslega mikið meira heldur en ríkisbankarnir. (Gripið fram í.) Ég var ekki að tala um það, ég er ekki að verja það. Ég var að segja hvert mundi stefna ef leið Sjálfstfl. í þessum málum yrði farin. Hún er alveg vörðuð. Það var Verslunarbankinn sem byrjaði á þessum kjörvöxtum og síðan tóku hinir þetta upp.
    En ég ætla að láta þetta nægja um þetta efni og ekki fara að halda hér langa ræðu. Mér finnst þessi umræða orðin allt of löng. Ég fæ a.m.k. ekki fyrir mína parta mikið út úr henni, en hitt liggur alveg fyrir að ef atvinnurekstur úti á landi, sem hefur verið blóðmjólkaður á undanförnu hálfu öðru ári, ef það endar svo með gjaldþrotum, þá er illa komið fyrir þessari þjóð, ekki einungis fyrir þessum stöðum heldur fyrir þjóðinni í heild. Ég vil segja það hér og nú að ég ætlaðist til af hæstv. ríkisstjórn að hún tæki mikið ákveðnar á þessum málum heldur en hún hefur gert og það yrði ekki farið, eins og ég sagði einhvern tíma, í hjólförum fyrrv. ríkisstjórnar. Ég vildi komast upp úr þeim hjólförum og ég ætlast til þess að ríkisstjórnin geri það.
    En mitt aðalerindi hér upp í ræðustól er að átelja þau vinnubrögð sem Ríkisendurskoðun hefur haft í frammi. Ég hélt að endurskoðun ætti fyrst og fremst að vera endurskoðun. Ríkisendurskoðun er enginn dómstóll eins og mér virðist hennar vinnubrögð benda til og ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni að það er alls ekki ætlast til þess að slíkir dómar séu kveðnir upp eins og t.d. var gert yfir fyrrv. landbrh. í skýrslu Ríkisendurskoðunar um búvörulögin.
    Ég vil að það komi alveg skýrt fram hér að við hv. þm. Halldór Blöndal sendum þremur virtum lögfræðingum nokkur atriði sem var deilt um í nefndum og vildum fá þeirra svör við þeim ágreiningi. Þetta voru engir smákarlar. Það er núverandi umboðsmaður Alþingis, Benedikt Blöndal hæstaréttardómari og Jón Þorsteinsson lögfræðingur, fyrrv. alþm., sem ég tel vera með virtustu lögfræðingum landsins. Þeir svöruðu öllum okkar spurningum og í niðurlagi þeirrar skýrslu sem þeir skrifa allir undir, eða sitt álit á þessum búvörulögum, var um lögin almennt, þegar þeir voru búnir að svara öllum spurningum nema einni og það var um hver ætti Grænmetisverslun ríkisins. Til þess að hægt sé að kveða upp dóma, eins og mér virðist

Ríkisendurskoðun hafa gert yfir fyrrv. landbrh., þá kemur það í ljós að Ríkisendurskoðun hefur ekki kynnt sér þetta mál og hefur ekki kynnt sér þær umræður sem fóru fram á Alþingi þegar fjallað var um þetta mál. Þar kemur fram t.d. í ræðu sem ég flyt þegar ég fylgi brtt. eftir að ég líti þannig á að þegar þetta tímabil sé liðið, þ.e. fjögurra ára tímabilið sem átti að greiða í Framleiðnisjóð, þá væri það tryggt að útflutningsbæturnar yrðu 4% af heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarins þangað til endurskoðun á lögunum hefði farið fram og ég liti svo á að það væri líklegra að það væri langt í það þá að það yrði búið að byggja upp eitthvað annað í staðinn fyrir þá framleiðsluminnkun sem menn sáu fyrir og það mundi þurfa frekar að auka þessa aðstoð heldur en hitt. Þetta stendur í þingtíðindum frá 14. júní 1985 á bls. 6590--6591.
    Þegar verið er að kveða upp dóma eins og gert er af fjölmiðlum og eftir því sem ég skil þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar, þá náttúrlega verða menn að athuga öll málsatvik og Ríkisendurskoðun er ekki réttur aðili til þess að kveða upp dóm yfir einu eða neinu. Því segi ég þetta að ef enginn hreyfir þessu hér á hv. Alþingi, þá verður litið á það úti í þjóðfélaginu á þann veg að þögn sé sama og samþykki, að hv. alþm. líti þannig á að þessi skýrsla sé einhver niðurstaða aðila sem eru færir og hafi verið falið að kveða upp dóma.
    Mér er kunnugt um það að forsetar Alþingis hafi verið beðnir um að útvega gögn sem þeir vilja ekki láta af hendi frá Ríkisendurskoðun og ég vona að hæstv. forsetar sjái til þess að þessi gögn berist þeim aðila sem á þar hlut að máli.
    Ég ætla að láta þetta duga. Ég vil bara endurtaka að það þarf að skoða það mjög hvernig hægt er að bjarga atvinnurekstrinum, sérstaklega þar sem hann er aðaluppistaðan í atvinnulífi á þessum stöðum. Leiðin að fara út í gjaldþrot eftir þá meðferð sem fyrrv. ríkisstjórn fór með þennan rekstur og núverandi ríkisstjórn hefur ekki, því miður, getað kippt í lag, það finnst mér ekki líðandi.