Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Finnur Ingólfsson:
    Virðulegi forseti. Ég kem nú ekki hér upp til að ræða um aðalefni þeirrar skýrslu sem hérna liggur fyrir frá Ríkisendurskoðun, þ.e. skýrsluna um Sigló hf. og er meginástæðan fyrir umræðunni hérna í dag. Mitt erindi hingað er til þess að fjalla um það sem hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson og hv. 2. þm. Reykv. Birgir Ísl. Gunnarsson gerðu að aðalumræðuefni sínu hér í þessari umræðu og ég vildi gjarnan fá þá í salinn. ( Forseti: Hv. 2. þm. Reykv. var hér fyrir andartaki svo það er áreiðanlegt að hann er ekki langt undan, og kemur hann hér í salinn.)
    Aðalinntakið í þeirra ræðum hér fyrr í dag er eftirgjöf sú sem fjmrh. framkvæmdi á dráttarvöxtum og vöxtum af opinberum gjöldum Nútímans hf. Það hefur nú verið upplýst í umræðunni að þessi samningur milli fjmrn. og Nútímans hf. er ekkert einsdæmi. Eins og fjmrh. sagði þá hafa á þessum áratug verið gerðir yfir 170 slíkir samningar. Og ég trúi því nú ekki ... ( BÍG: Þetta er rangt.) Ef þetta er rangt, þá hefur hæstv. fjmrh. farið með rangt mál hér áðan. ( BÍG: Og ekki í fyrsta sinn.) Þetta eru í raun þau orð sem hann viðhafði hér og ég tek fyllilega trúanleg.
    Þessi 170 fyrirtæki, sem hafa fengið svipaða meðferð og Nútíminn hf. fékk fyrir síðustu áramót, hafa komið á slíkum samningi vegna þess að þau voru í sömu erfiðleikum og það hlutafélag. Það hefur verið tvennt sem þessi fyrirtæki stóðu frammi fyrir. Þ.e. að ganga frá sínum opinberu gjöldum með þeim hætti sem Nútíminn gerði eða fara í gjaldþrot. Án þess að ég viti það nákvæmlega, þá trúi ég ekki öðru en mörg af þessum 170 fyrirtækjum hafi fengið þessa fyrirgreiðslu í tíð fjmrh. Sjálfstfl. á þessum áratug. Og það væri fróðlegt að fá það upplýst hve mörg af þessum 170 fyrirtækjum sem slíka fyrirgreiðslu hafa fengið hafa fengið hana í tíð fjmrh. Sjálfstfl. Ég skil því ekki hvers vegna þessir tveir hv. þm. Sjálfstfl., Friðrik Sophusson og Birgir Ísl. Gunnarsson, gerðu þetta atriði í skýrslu Ríkisendurskoðunar að aðalumræðuefni sínu hér fyrr í dag.
    Framsfl. gaf út dagblaðið Tímann þar til 31. mars 1984. Í janúar 1984 var Nútíminn hf. stofnaður, hlutafélag sem hafði það að markmiði að gefa út dagblað sem hét NT hf. og hóf göngu sína 1. apríl 1984. Þetta blað var gefið út frá 1. apríl 1984 til ársloka 1985. Þá hafði fyrirtækið komist í þá miklu rekstrarerfiðleika að menn sáu að ekki varð lengur haldið áfram. Og það vil ég taka fram að þetta félag, Nútíminn hf., var hlutafélag og Framsfl. átti ekki nema 42% í þessu hlutafélagi. ( BÍG: Það er lítið.) Já, það er lítið og það voru þær eignir og skuldir sem flokkurinn hafði látið inn í hlutafélagið sem hann tók yfir af gamla Tímanum þegar hann var lagður niður. Það er því ekki rétt, sem fram kom bæði í máli hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteins Pálssonar og hv. 2. þm. Reykv. Birgis Ísl. Gunnarssonar, að þetta hlutafélag væri alveg í eigu Framsfl. Það er bara ekki rétt sem þeir héldu fram hér áðan. ( FrS: Voru hinir eigendurnir í Framsfl.?) Það voru milli 1500 og 1600

eigendur að Nútímanum hf. (Gripið fram í.) og þeir þurfa ekki að hafa nein flokksskírteini, Friðrik Sophusson, til þess að gerast hluthafar í slíku fyrirtæki. ( FrS: Voru einhverjir þeirra í flokknum?) Já, ég býst við því að það hafi verið nokkrir þeirra í flokknum.
    Ég vil hins vegar árétta það að allar þær dagsetningar, sem hv. þm. Friðrik Sophusson viðhafði hér áðan um eigendaskipti á Fargi og Vífilfelli, hvenær fjmrn. ákvað að veita þessa eftirgjöf á vöxtum og dráttarvöxtum vegna opinberra gjalda Tímans, eru réttar. Þær eru bara réttar. Merkilegt nokk voru þær alveg réttar, enda ekkert við þessar dagsetningar að athuga. Og ég get líka staðfest þau orð hæstv. fjmrh. hér áðan að hann hafi ekkert vitað um það að stjórn Nútímans hf. hafi haft það í hyggju að selja hlutafélagið Vífilfelli. Um það vissi hann ekki neitt, enda sá ágæti maður ekki í stjórn fyrirtækisins Farg hf. sem áður var Nútíminn. Um það vissu aðeins stjórnarmenn í því fyrirtæki. Það voru samningar á milli stjórna þessara fyrirtækja, Nútímans hf. og Vífilfells, og þeir sem þar áttu sæti voru þeir einu sem vissu um það að slíkt kæmi til greina. ( Gripið fram íi: Hvert var söluverðið til Vífilfells?) Söluverðið til Vífilfells er trúnaðarmál milli þessara tveggja hlutafélaga. (Gripið fram í.)
    Hefði fjmrh. hins vegar hafnað því að ganga til samninga við Nútímann hf., þá hefði hann í raun verið að mismuna fyrirtækjum og það hefur komið hér fram að hann hefði verið að mismuna fyrirtækjum vegna þess að slíkir samningar hafa verið gerðir við 170--180 önnur fyrirtæki sem eins er ástatt fyrir. En það sem meira er, hefði hann hafnað þessum samningi, þá hefði hann beitt sér fyrir því að ríkissjóður hefði tapað 13,2 millj. kr. Hann fékk þó hins vegar greitt út af þessum samningi 4,6 millj. Og auðvitað hefðu það verið ámælisverð vinnubrögð af fjmrh. að hafna slíku. (Gripið fram í.) Auðvitað hefðu það verið ámælisverð vinnubrögð. Ég er ekki með reikninga Nútímans hf. hér fyrir framan mig, hv. þm. Geir Haarde, þannig að þessu get ég ekki svarað. Því miður. Um leið og þetta fyrirtæki, Nútíminn hf., hefði orðið gjaldþrota, og því stóðu stjórnendur þess fyrirtækis frammi fyrir, að gera fyrirtækið gjaldþrota eða að
ná þessum samningum við fjmrn. og við Vífilfell hf., þá hefði ekki aðeins ríkissjóður tapað. Ríkisbankarnir hefðu tapað peningum. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja sem áttu kröfur á Nútímann hefðu tapað verulegum fjármunum. Og þrátt fyrir það að Framsfl. ætti ekki nema 42% í þessu fyrirtæki, þá ákvað hann þegar fjmrh. hafði gengið frá þessum samningi, samningurinn hafði verið gerður við Vífilfell, að taka það sem út af stóð í skuldum og ganga í ábyrgð fyrir það þrátt fyrir það að þetta fyrirtæki væri hlutafélag með takmarkaða ábyrgð. Og auðvitað hefði Framsfl. ekki haft neinar skyldur við þetta fyrirtæki fram yfir aðra hluthafa í því. En hann ákvað samt að ganga til þess verks að ganga í ábyrgðir fyrir því sem út af stóð.

    Ég er ekki viss um að aðrir stjórnmálaflokkar hefðu gert þetta. Ég er ekki viss um að Sjálfstfl. hefði verið tilbúinn til að ganga í ábyrgðir fyrir Árvakur hefði hann verið í slíkri stöðu. Ég er ekki viss um það. En þetta gerði flokkurinn vegna þess að hann vildi koma í veg fyrir að ríkissjóður tapaði peningum, að bankarnir töpuðu peningum og margir einstaklingar hefðu tapað verulegum fjármunum. ( FrS: En tapaði ríkissjóður peningum?) Ríkissjóður tapaði að vísu peningum, en hann kom þó betur út úr þessu heldur en að hafa ekki gengið til samninganna og það er auðvitað aðalatriðið.