Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Þorsteinn Pálsson (frh.) :
    Herra forseti. Þegar þessari umræðu var frestað í gær voru það einkum tvö atriði sem upp úr stóðu í þessum umræðum, atriði sem lúta að grundvallarágreiningi sem fram hefur komið á milli þeirra aðila sem standa að því frv. sem hér er til umræðu. Í fyrsta lagi lá fyrir að mismunandi túlkun var á hugmyndum aðstandenda frv. um vaxtastefnu. Hæstv. félmrh. hafði lýst því yfir að vaxtamismunur í húsnæðiskerfinu yrði 0,5--1%. Í ljósi þess að hæstv. fjmrh. hefur gert samninga við lífeyrissjóðina um skuldabréfakaup með þeim hætti að vextirnir ákvarðast eftir á á næsta ári með hliðsjón af því sem í raun verður á markaðnum og engir samningar hafa verið gerðir sem binda vexti í raun og veru á þessu ári bendir flest til þess að vextir verði í þessum viðskiptum ekki lægri en 6--7%. Því er nokkuð einsýnt ef fram heldur sem horfir og farið verður að skilgreiningu hæstv. félmrh. að vextirnir þurfi í reynd að verða hærri en þau 4,5% sem hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson hefur lýst sem skilyrði Alþb. og nokkuð ljóst að sú forsenda sem er í nál. stjórnarmeirihlutans fyrir fylgifrv. með húsnæðisfrv. þar sem byggt er á því að búið sé að fastsetja 5% vexti stenst ekki.
    Hæstv. fjmrh. hefur svo lýst því yfir í þessari umræðu að enginn ágreiningur sé í ríkisstjórninni um vaxtamálið, með öðrum orðum að allir ráðherrarnir og þar á meðal allir ráðherrar Alþb. séu þeirrar skoðunar að forsendan fyrir þessu frv. sé sú að því er vextina varðar að vaxtamismunur verði aldrei meiri en 0,5--1% og vextirnir geti þannig hækkað ef markaðsvextir verða hærri.
    Hæstv. fjmrh. lýsti því enn fremur yfir að um þetta væri full samstaða í ríkisstjórninni og þar á meðal á milli allra ráðherra Alþb. Það væru einungis einstaka þingmenn stjórnarliðsins sem væru að gera ágreining þar um og með því vísaði hæstv. fjmrh. til þeirra yfirlýsinga sem hér hafa verið gefnar af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og gaf til kynna að slíkur ágreiningur einstakra þingmanna stjórnarflokkanna hefði ekkert að segja um forsendur málsins að þessu leyti þar sem full samstaða væri milli ráðherra í hæstv. ríkisstjórn. Þetta er í sjálfu sér athygli verð staðreynd en enn stendur þó að af hálfu aðstandenda frv. er um að ræða misvísandi túlkanir í þessu efni og þess vegna er ástæða til þess að hæstv. starfandi forsrh. geri nánari grein fyrir málinu áður en það heldur lengra áfram. Í annan stað höfðu komið upp misvísandi túlkanir um ákvæði 1. gr. frv. að því er varðar kaupskyldu lífeyrissjóðanna. Því ákvæði var breytt í grundvallaratriðum í samningum hæstv. félmrh. um framgang málsins hér á þinginu. Tillögum nefndarinnar sem samdi frv. um að lækka kaupskyldu lífeyrissjóðanna og síðan afnema hana í áföngum var hafnað, en öllum sem til málsins þekkja er ljóst að það var forsenda fyrir því að eiginlegt húsbréfakerfi gæti orðið virkt.
    Það hefur komið fram í máli hv. 1. þm. Vesturl. að það væri skilyrði Framsfl. fyrir stuðningi við málið

að 1. gr. frv. eins og henni var breytt í þessum samningum þýddi að búið væri að takmarka útgáfu á húsbréfum við þau 10% af kaupskyldunni sem þar er fjallað um. Hæstv. félmrh. hafði á hinn bóginn lýst því yfir að möguleikar lífeyrissjóðanna í þessu efni væru ótakmarkaðir og í reynd þýddi þetta ákvæði það eitt að búið væri að rýmka möguleika sjóðanna meira en gert var ráð fyrir í tillögum nefndarinnar því að í fyrsta áfanga átti samkvæmt tillögum nefndarinnar aðeins að lækka kaupskylduna um 8 prósentustig.
    Nú sé ég að frá því að við frestuðum umræðunni í nótt hefur verið lögð fram hér tillaga til skýringar nánast á 1. gr. frv., vafalaust í þeim tilgangi að fá fram hver er hin eiginlega afstaða í þessu efni. Öllum má vera ljóst að hér er um að ræða grundvallaratriði varðandi húsbréfakerfið, hvort menn eru í raun og veru að fara af stað með húsbréfakerfi sem á að geta verið virkt eða hvort menn eru bara að samþykkja pappír. Þess vegna er það ósk mín að hæstv. starfandi forsrh. geri Alþingi áður en málið kemur til lokaafgreiðslu hér í þinginu nánari grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar og hinum raunverulega skilningi ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Það er með öllu ófært að Alþingi sé knúið til að greiða atkvæði um málið þegar uppi er slíkur ágreiningur í þessu efni og án þess að á honum fáist nánari skýringar. Kjarni málsins er sá að stjórnarflokkarnir eru að setja hverjir öðrum skilyrði af ýmsu tagi um framgang málsins og það er ekkert einkamál þeirra hver þessi skilyrði eru og hverjar þessar forsendur eru vegna þess að niðurstaðan ræðst af þessum skilyrðum og Alþingi hlýtur að krefjast þess að fá að vita hver niðurstaðan er í raun og veru og hvers konar frv. er verið að samþykkja. Flest bendir til þess eins og málum er komið og eins og hæstv. félmrh. hefur kyngt öllum skilyrðum andstæðinga eða velflestum skilyrðum andstæðinga húsbréfanna að í raun og veru sé húsbréfahugmyndin fallin á Alþingi vegna þess að hæstv. félmrh. hefur greinilega engan áhuga á húsbréfum heldur einungis því að fá hér samþykktan pappír á Alþingi og það er fyrst og fremst vegna áhuga eða skilningsleysis hæstv. ráðherra að sjálf húsbréfahugmyndin er dauð. Þó að eitthvert frv. með einhverju nafni verði samþykkt hér sýnast þessi misvísandi skilyrði í raun og veru hafa gert það að verkum að eiginlegt húsbréfakerfi kemst ekki á við svo búið.
    En erindi mitt var fyrst og fremst að óska eftir því varðandi ágreining um þessi tvö meginatriði að hæstv. starfandi forsrh. gerði þinginu nánari grein fyrir því hver væri skilningur hæstv. ríkisstjórnar og á hvaða forsendum væri í raun og veru verið að keyra málið í gegnum þingið.