Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Frsm. 1. minni hl. félmn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég skal ekki misnota þolinmæði og lipurð forseta sem frestaði umræðunni í nótt.
    Það sem upp úr þessari umræðu stendur er að hæstv. félmrh. hefur verið beygður í tvígang í þessu máli. Hæstv. starfandi forsrh., Halldór Ásgrímsson, lýsir því yfir að túlkun hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar á vaxtasamkomulagi stjórnarsamkomuflokkanna sé hin rétta, þ.e. vextir verði aðeins 4,5%. Með öðrum orðum: sú túlkun sem hæstv. félmrh. hefur haldið fram með stuðningi fjmrh. í nótt um að vextir eigi að vera 0,5--1% undir þeim vöxtum sem Byggingarsjóðurinn greiðir er röng samkvæmt þessum úrskurði. Þar hefur hæstv. félmrh. þurft að víkja, hennar túlkun er dæmd ómerk. En það þýðir það, virðulegi forseti, og vil ég þá vitna til ummæla forseta sjálfs hér í nótt, að hér er ekki lengur verið að tala um neitt húsbréfakerfi. Hér er verið að tala um vexti í hinu almenna lánakerfi sem yrðu hugsanlega langt undir markaðsvöxtum, en það hefur verið margsýnt fram á það, síðast af forseta sjálfum í nótt, að húsbréfakerfið stenst ekki með þeim formerkjum.
    Í öðru lagi, herra forseti, hefur hæstv. starfandi forsrh. lýst því yfir að hér eigi að vera 10% mark eða sem svarar 1700 millj. á þeim kaupum sem viðskipti með húsbréf megi nema, 10% af ráðstöfunarfé í lífeyrismálum. Þetta er það sama og hæstv. heilbrmrh. hefur haldið fram og þetta er sú túlkun sem hv. 1. þm. Vesturl. hefur flutt í þessu máli. En þetta er ekki það sem hæstv. félmrh. hefur verið að segja okkur í málinu því að hæstv. félmrh. hefur sagt að með því samkomulagi sem gert hafi verið við Framsfl. um 1. gr. sé verið að ganga lengra en milliþinganefndin upphaflega lagði til. Hér er stigið skrefinu lengra í að afnema kaupskylduna en var í frv., sagði ráðherrann í umræðum, og bætti við með leyfi forseta: ,,Auðvitað er svo ekkert sem kemur í veg fyrir það, ef lífeyrissjóðirnir svo kjósa, að keypt séu húsbréf fyrir meira af ráðstöfunarfénu en hér kemur fram,,, ekkert sem kemur í veg fyrir það, ekkert. Ef túlkun hæstv. starfandi forsrh. fær staðist er verið að dæma þessi ummæli dauð og ómerk. En það er í samræmi við það samkomulag sem gert var um þetta mál um að eyðileggja það frá byrjun.
    Með því að setja slíkt ákvæði inn er verið að búa til nýja skömmtun. Það er ekki verið að búa til nýja fjármögnun. Það verður sama heildarfjárhæðin til ráðstöfunar í samanlagt húsbréfakerfið og í almennu lánakerfi. Það verður enginn sjálfvirkur aðgangur að afgreiðslu í þessu húsbréfakerfi. Þetta þýðir það, vegna þess að lánin eiga að vera hærri í húsbréfakerfinu, að afgreiðslunum fækkar. Það verða færri sem komast að í heildina tekið. Færri afgreiðslur þýða að sjálfsögðu lengri biðröð í núverandi kerfi, í hinu almenna lánakerfi. Niðurstaðan er sú, hvað sem líður hártogunum fjmrh. og hvað sem líður mótmælum félmrh., að þetta mál er í hinu mesta skötulíki, reyndar hvorki fugl né fiskur miðað við það sem lagt var upp með, og því ber að sjálfsögðu að vísa til

ríkisstjórnarinnar eins og 1. minni hl. félmn. hefur lagt til.