Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Við 2. umr. þess máls sem nú eru greidd atkvæði um, þ.e. hið svokallaða húsbréfafrumvarp, lagði hv. þm. Geir Haarde fram brtt. við 1., 2. og 3. gr. frv. sem við kvennalistakonur studdum. Afstaða okkar leiddi til þess reginmisskilnings í fjölmiðlum og í máli margra þingmanna að með því hafi kvennalistakonur stuðlað að því að allar hömlur á lánveitingum í almenna húsnæðiskerfinu væru af lagðar eða eins og það er ranglega orðað í fjölmiðlum vilji kvennalistakonur styðja að stóreignamenn geti fengið lán til jafns við aðra. Hið sanna í málinu er að synjunar- og skerðingarheimildir standa óbreyttar í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, skerðingar- og synjunarákvæði sem við kvennalistakonur studdum í atkvæðagreiðslu á Alþingi í fyrra. Eina sem í raun var fellt niður voru ákvæði þess efnis að skerðingarákvæðin næðu líka til þeirra sem ættu aðrar eignir en íbúðir sem metnar væru jafnverðmætar. Það má eflaust halda því fram með nokkrum rökum að einhverjir ranglátir rati í þennan hóp, en hitt er þó mikilvægara að útiloka ekki þá réttlátu.
    Það er ævinlega svo að um leið og verið er að reyna að loka glufum til að verjast þeim sem hafa til þess geð, aðstöðu eða nennu að svindla á kerfinu skapast sú hætta að það útiloki fleiri en til var ætlast. Við kvennalistakonur metum meira að þeir réttlátu komist í gegnum nálaraugað en að hindra fáeina rangláta.
    Þessar brtt. vörðuðu ekki húsbréfamálið sjálft og breyta því engu um það samkomulag sem Kvennalistinn gerði við ríkisstjórnina um framgang þessa máls og því segi ég já.