Framhaldsskólar
Föstudaginn 12. maí 1989

     Frsm. meiri hl. menntmn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. til l. um breyting á lögum um framhaldsskóla sem er 454. mál þingsins. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á þskj. 1116. Brtt. er við 7. efnismgr. 10. gr. laganna og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við gildistöku laganna skal gerður samningur milli menntmrn. og hvers skóla um tilhögun á greiðslum til skólanna af fjárlagalið þeirra í þeim tilgangi að skólarnir taki á sig aukna rekstrarábyrgð. Rekstrarframlag, annað en kennslulaun, laun fastra starfsmanna og meiri háttar viðhalds- og stofnkostnaður, skal greitt hverjum skóla fyrir fram. Heimilt er menntmrh. að semja við hvern skóla um aðra tilhögun ef aðilum þykir ástæða til.``
    Þessi brtt. er flutt eftir ábendingu Skólameistarafélagsins og í fullu samráði við þá ágætu menn.
    Að öðru leyti ætla ég ekki efnislega að ræða hér um frv. Flestar þær breytingar sem hér er um að ræða eru til að gera málið skýrara og taka af tvímæli. Nokkrar breytingar eru líka varðandi skólanefndir og má vera að þar sýnist sitt hverjum. Ýmsir aðilar komu til viðræðu við nefndina. Málið var sent til umsagnar m.a. til kennarasamtakanna sem ekki gáfu umsögn vegna verkfalls.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð en meiri hl. nefndarinnar leggur til að málið verði samþykkt með þeirri brtt. sem ég hef nú gert grein fyrir.