Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég hafði ekki verið viðbúinn því nú á þessum morgunfundi að hæstv. menntmrh. héldi hér framsöguræðu fyrir frv. til l. um þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, hélt satt að segja að það væru önnur frv. sem hæstv. ríkisstjórn legði áherslu á að kæmust til nefndar, annaðhvort hér í Ed. eða þá kæmust til Nd., en ég er mjög ánægður yfir því, herra forseti, ef þessi mikla áhersla sem menntmrh. þannig leggur á að þetta frv. skuli sitja fyrir, endurspeglar það að hann ætli að vera duglegri eftirleiðis en hann hefur verið hingað til að ná fram þeim málum og þeim markmiðum sem þetta frv. fjallar um.
    Ég vil byrja á því að ræða sérstaklega þjóðarbókhlöðumálið. Það er rétt sem fram kemur í þessu frv. að margar heitstrengingar og viljayfirlýsingar hafa komið fram af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar allt frá því að samþykkt var vorið 1970 þál. um að hús þetta skyldi reist í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar 1974. Það vantar ekki að menn hafa á hátíðarstundum verið að tala um nauðsyn þess að hin mikla bókaþjóð, Íslendingar, reyndi að standa við það með því að byggja góða bókhlöðu auðvitað vegna þess að sú bókhlaða sem nú stendur við Arnarhvál er reist af Dönum en samtímis því sem við unnum lokasigurinn í baráttunni fyrir handritunum heim mátti ekki minna vera en við sýndum einhvern dugnað og einhvern skörungsskap í þjóðarbókhlöðu okkar Íslendinga sem nú er að rísa þar sem áður var íþróttavöllurinn, Melavöllur kallaður.
    Öll þau litverpu og litauðugu fjöll sem blasa við í suðri eru sögufróðustu fjöll Íslands, sagði Sigurður Guðmundsson magister í ræðu á íþróttavellinum á Melum hinn 17. júní 1918 sem eitt af okkar skáldum orti um síðar merkilegt kvæði sem kemur upp í hugann innan skamms.
    Ég man eftir því þegar Ragnhildur Helgadóttir var menntmrh. --- en hæstv. núv. menntmrh. hefur mjög gaman af því að bera sig saman við Ragnhildi Helgadóttur. Hann gerði það t.d. á kennarafundi um daginn. Þá var hæstv. menntmrh. að bera sig saman við Ragnhildi Helgadóttur og sagði við kennarana: Ég er í það minnsta betri heldur en Ragnhildur Helgadóttir. Ég held að það séu nú ekki margir sem taka undir þetta. A.m.k. er ég viss um það að ef Ragnhildur Helgadóttir væri menntmrh. núna mundi henni ekki detta í hug að láta þau orð falla um frammistöðu sína nú í vetur og nú síðustu mánuðina að hún sæti í sæti menntmrh. með fullri reisn eins og þessi hæstv. menntmrh. talar og er áreiðanlega ekki mat þeirra barna sem nú geta ekki lokið sínum prófum né þeirra kennara sem ekki fá samið um sín launakjör. --- En það var á þeim tíma sem Ragnhildur Helgadótttir var menntmrh. sem fundur var haldinn uppi í Háskóla einmitt út af þjóðarbókhlöðunni. Þá voru stjórnmálamenn spurðir um það hver væri vilji þeirra til þess að standa vel að því að þjóðarbókhlaðan yrði reist og henni yrði flýtt. Ég man ekki hver var fulltrúi Alþb. Það getur vel verið að

Svavar Gestsson geti upplýst hér í deildinni hver var formaður Alþb. á þeim tíma. Hitt er a.m.k. dagljóst og morgunljóst að hæstv. núv. menntmrh. var formaður Alþb. á þeim tíma. Á þeim fundi lýsti Alþb. því yfir að þjóðarbókhlaðan mundi hafa algjöran forgang og á þeim fundi lýsti Alþb. yfir að þau markmið sem við sjálfstæðismenn settum okkur í því máli væru fyrir neðan allar hellur og Alþb. mundi standa betur að málum ef það kæmist að völdum. Þá þótti þeim gaman að miða sig við Sjálfstfl. í menntamálunum þegar ekki var hægt að bregða mælistiku á þá sjálfa. En ég held að þessi hæstv. menntmrh. geri sér ekki grein fyrir því að nú er hægt að bregða mælistikunni á hann. Nú er hægt að fara að mæla hvað það er raunverulega sem Alþb. vill gera í menntamálum.
    Og hvernig hefur Alþb. staðið við stóru orðin í sambandi við þjóðarbókhlöðuna? Hvað var hann að segja núna, hæstv. menntmrh.? Hann var að segja að það yrði myndarlega staðið að málum nú með því að þjóðarbókhlöðunni yrði lokið á næstu fjórum árum að þessu ári sem við lifum nú meðtöldu. Það væri eitthvert myndarlegt átak! Þetta hús sem við stöndum í núna var byggt á harðasta ári, mesta kreppuári og harðindaári síðustu aldar. Hafísinn fór ekki úr Eyjafirði fyrr en í ágústmánuði. Á þessu eina ári byggðu Íslendingar sér Alþingishús. Á harðasta ári sem yfir þjóðina gekk á 19. öldinni og voru þó mörg ár hörð, einkum í kringum 1880. Nú er hann að tala um það að hann ætli að ljúka verkinu, ljúka við þjóðarbókhlöðuna á næstu fjórum árum. Og við vitum að við megum taka með afföllum ummæli ráðherrans til framtíðarinnar. Það er lántökuskattur á fyrirheitum þessarar ríkisstjórnar og hann er ekki 6% heldur 6x6%, lántökuskatturinn á fyrirheitum þessarar ríkisstjórnar.
    Við sjálfstæðismenn lögðum á og höfðum algjöra forustu um að leggja á þann sérstaka eignarskatt sem nú gengur aftur í því frv. sem hér liggur fyrir. Þessi eignarskattsviðauki var á sínum tíma lagður á vegna þess að þegar núv. hæstv. menntmrh. skildi við húsnæðismálin, þá var svo komið fyrir okkur Íslendingum að við urðum að taka erlend lán til húsnæðismála, til þess að við gætum nokkurn veginn haldið í horfinu með húsnæðismálin. Þó voru lánin sem á þeim tíma voru veitt út á nýbyggingar úr Byggingarsjóði ríkisins að raungildi rétt í kringum 10 eða 11% síðasta árið sem þesssi hæstv. ráðherra var
húsnæðisráðherra. Eitthvað svo, 10--11%, þegar tekið var tillit til hinnar miklu verðbólgu sem þá geystist í landinu. Þó má segja um ríkisstjórnina sem hann sat í þá að hún hafi haft þá afsökun fyrir verðbólgunni að það voru þó umtalsverðar launahækkanir á milli hækkananna, milli gengisbreytinganna og milli vöruhækkananna. En núna? Launin hafa naumast hækkað um eina einustu krónu síðan í maí í fyrra, 1,25% samanlagt í febrúar og mars, sitt pundið af hvoru hvorn mánuðinn, 0,625% hvorn mánuð og svo eitthvert lítilræði í síðasta mánuði. En hver var verðbólgan fyrstu fjóra mánuði þessa árs? Verðbólgan fyrstu fjóra mánuði þessa árs er í kringum 30%.

Þannig skildi þessi hæstv. ráðherra við húsnæðismálin.
    Þá gerðum við það, herra forseti, að við sjálfstæðismenn beittum okkur fyrir því að þessi sérstaki 0,25% eignarskattur yrði lagður á og rynni hann allur til Byggingarsjóðs ríkisins til þess að við kæmumst hjá því að standa undir húsnæðislánum með erlendum lántökum. Síðan þegar því marki var náð og með öðrum hætti var búið að treysta eiginfjárstöðu Byggingarsjóðs ríkisins á nýjan leik eftir að vinstri flokkarnir höfðu farið um hann hendi, eftir að við vorum búnir að byggja þó nokkurt fé upp í Byggingarsjóði ríkisins beittum við sjálfstæðismenn okkur fyrir því að þessi sérstaki eignarskattsviðauki yrði framlengdur og nú skyldi hann renna til byggingar þjóðarbókhlöðu. Því miður var það svo í síðustu ríkisstjórn að Alþfl. kom í veg fyrir að þessi skattur gæti allur runnið til þjóðarbókhlöðunnar og það er sorglegt að það skuli hafa verið formlegur Alþfl. sem stóð fyrir því að ekki væri hægt að standa við fyrirheitið um þjóðargjöfina í þeirri ríkisstjórn, að það skyldi verða deiluefni í ríkisstjórninni hvort staðið yrði við lög um eignarskattsauka sem allur rynni til þjóðarbókhlöðunnar. Það var auðvitað mjög ömurleg niðurstaða og sár okkur sjálfstæðismönnum.
    Síðan kemur núv. hæstv. menntmrh. sem hefur fjmrh. úr sama flokki. Samnt heldur áfram sú ósvinna að þjóðarbókhlöðuféð er dregið frá menningunni og inn í ríkishítina. Þó er nú sá munur á að Alþb. getur engum um kennt nema sjálfu sér. Engum. Það kom enginn annar að þessu máli nema ráðherra Alþb. í fjmrn. og ráðherra Alþb. í menntmrn. Það er þess vegna algjörlega út í hött og raunar móðgandi þegar núv. hæstv. menntmrh. kemur hér upp í pontu og fer að halda því fram að hann hafi haft einhvern sérstakan áhuga fyrir þjóðarbókhlöðumálinu, algjörlega út í hött og í fullu ósamræmi við fortíðina.
    Mér þykir líka, hæstv. forseti, mjög dapurlegt að sjá það í 3. gr. frv. að ekki skuli hafa verið tekið tillit til þess frv. sem ég hef flutt hér í Ed. og hefur hlotið hér brautargengi í sambandi við eignarskattsaukann. Sú grein hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sérstakur eignarskattur er rennur til sjóðsins, sbr. 2. gr., skal frá og með gjaldárinu 1990 lagður á eignarskattsstofn, sbr. lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og skal hann vera þannig:
    a. 0,25% á þann eignarskattsstofn, sbr. 80.--82. gr. laga nr. 75/1985, sem er umfram 4 millj. 250 þús. kr. Skattskylt mark til sérstaks eignarskatts skal breytast samkvæmt skattvísitölu, sbr. 121. gr. greindra laga, í fyrsta sinn á gjaldárinu 1990, samkvæmt skattvísitölu gjaldársins 1990. Þó skal ekki leggja sérstakan eignarskatt á eignir manna sem orðnir eru 67 ára eða eldri fyrir upphaf hlutaðeigandi gjaldárs.``
    Nú hefur fallið um það úrskurður í ríkisskattanefnd að ef um öryrkja er að ræða sem ekki hafa náð 67 ára aldri en eru á hinn bóginn --- ég biðst afsökunar. Í breytingum Nd. hefur verið tekið tillit til þess sem ég er að tala um og er ég þakklátur menntmrh. fyrir að koma því að. Ég sé að orðalag frv. míns er hér

tekið upp þannig að fullnægjandi er að rétt er með farið, enda er það samið af ríkisskattstjóra til þess að girða fyrir þau mistök sem áttu sér stað í hinni upphaflegu lagasetningu eins og fram kemur í úrskurði ríkisskattanefndar.
    Ég vil, herra forseti, vona að þetta sérstaka frv. hér megi verða til þess að ríkisstjórnin standi við það að þessar tekjur allar renni til byggingar þjóðarbókhlöðunnar. Við sjálfstæðismenn höfum sérstaklega beitt okkur fyrir þessu máli hér í þinginu. Fyrrv. menntmrh., Sverrir Hermannsson, gekk þar vasklegast fram og auðvitað þykir okkur sárt hversu hægt hefur miðað í því máli. Það hefur ekki einungis almennt menningarlegt gildi að frá þjóðarbókhlöðunni verði gengið, henni verði lokið og hún tekin í notkun. Það er líka gífurlegt atriði fyrir Háskóla Íslands, bæði þá lærdómsmenn sem þar starfa og þá nemendur sem þar leggja stund á hin dýpstu fræði, að þjóðarbókhlöðunni ljúki og hægt sé að sameina Landsbókasafn og Háskólabókasafn þannig að þarna geti komið fullkomlega vísindalegt safn með öllum þeim kostum sem því fylgja sem auðvitað er löngu, löngu tímabært fyrir okkur Íslendinga.
    Um 1. gr. er það að segja, herra forseti, að ýmsir hafa lagt hönd á plóginn til þess að reyna að stuðla að því að gömlum byggingum sé sæmilega við haldið, gömlum menningarverðmætum sé ekki á glæ kastað og var Þjóðhátíðarsjóðurinn m.a. stofnaður í því skyni sem hefur komið að mjög góðum notum og bjargað byggingum sem að öðrum kosti hefðu grotnað niður. Ég get rifjað upp í
Eyjafirði hús eins og Grundarkirkju. Það má minna á verkstæði Þorsteins á Skipalóni og á mörgum öðrum stöðum hefur Þjóðhátíðarsjóðurinn komið við sögu. Ýmsir aðrir hafa lagt fé af mörkum til þess sama og loks hefur nokkru fé verið varið samkvæmt fjárlögum hverju sinni til endurbóta og viðhalds á gömlum byggingum sem nauðsynlegt er að vernda að mati Þjóðminjasafnsins. Byggðasjóður hefur sérstaklega varið fé til Sjóminjasafnsins í Hafnarfirði og þannig mætti lengi telja.
    Ég sé hér sem fskj. skrá yfir gömul hús sem eru helstu viðfangsefni Þjóðminjasafnsins nú á þessu ári á sviði varðveislu húsa. Auðvitað er þessi upptalning okkur þingmönnum mikil áminning að standa okkur betur á því sviði heldur en við höfum gert. Ég sé hér t.d. Bakkakirkju í Öxnadal, timburkirkju frá 1843 eftir Þorstein á Skipalóni. Þetta er elsta kirkjan í Eyjafirði og er í furðugóðu ástandi, en auðvitað þarf að huga vel að henni eins og öllum öðrum kirkjum sem Þorsteinn á Skipalóni smíðaði og eru nokkrar enn til. Ég held að það sé ekki nema ein sem rifin hefur verið af þeim kirkjum sem Þorsteinn á Skipalóni byggði. Þá eru einnig á þessari skrá prestssetrið á Sauðanesi á Langanesi, sæluhúsið við Jökulsá og í öðrum kjördæmum getum við talið upp önnur hús sem síst eru ómerkari en þessi.
    Ég fullyrði það að veruleg ástæða er til að taka jafnvel enn betur á þessum málum en gert er ráð fyrir hér í þessu frv. og væri ég reiðubúinn til þess ef

hæstv. menntmrh. vildi íhuga það að ganga enn lengra í sambandi við það að tryggja fjáröflun til þessa verkefnis sem hér er um talað, þjóðarbókhlöðu og endurbóta menningarbygginga. Ég tel að það þurfi að ganga enn lengra en hér er gert því að enginn vafi er á því að mörg af þeim húsum sem hér eru talin upp eru í eyðileggingarhættu. Á mörgum stöðum er svo komið að það eru síðustu forvöð að forða húsunum frá eyðileggingu.
    Kjarni minnar ræðu, herra forseti, er sem sagt þessi: Ég brýni hæstv. menntmrh. að hann ásamt flokksbróður sínum fjmrh. reyni nú einu sinni að standa við það að þjóðarbókhlaðan fái sitt. Það mun ekki standa á okkur sjálfstæðismönnum að fylgja því eftir. Við skulum eggja þá lögeggjan eins og við reyndum að eggja kratana lögeggjan. En það er nú svo kalt blóðið í þeim að það þarf meiri hita til en við höfum í okkar æðum til þess að hreyfa við þeim. En það er kannski einhver pínulítill hiti annað slagið í Alþb. ( KP: Já. Það er svo.) því hvað sem um Alþb. annars má segja og þó að það sé fljótt að gleyma sínum hugsjónum og sínum fyrirheitum í faðmlaginu við framsókn þar sem hæstv. ráðherra Svavar Gestsson kann best við sig, enda er Steingrímur Hermannsson hans uppáhaldsstjórnmálamaður, þá er það nú samt svo að það er stundum hægt aðeins að brýna þá alþýðubandalagsmennina. Og það vitum við þó að þeir taka ekki meira mark á öðrum andstæðingum sínum í pólitík en sjálfstæðismönnum þannig að það er þó einhver von til þess að okkur megi takast, ef við verðum iðnir við kolann, að fá hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. til þess að standa betur að þjóðarbókhlöðunni á næsta ári en þeir hafa gert fram að þessu.
    Ég ítreka að við sjálfstæðismenn erum líka til viðtals um það að taka myndarlegar á í sambandi við verndun gamalla bygginga en gert er með þessu frv.