Svör ráðherra um þinghaldið
Föstudaginn 12. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég er auðvitað ánægður yfir því að það skuli vera efnt til fundar með forsetum þingsins og formönnum þingflokka um starfshætti Alþingis og hefði auðvitað verið nær fyrir þá sem stjórna þessu þinghaldi að reyna að skipuleggja þingstörfin eitthvað fyrr en gert hefur verið. Hér áðan stóð menntmrh. upp og svaraði í engu mikilvægum spurningum sem fyrir hann voru lagðar og virðist ætla að halda þeim skikk að ráðherrar svari ekki einföldustu spurningum þingmanna og síðan er fundarhaldið með þeim hætti að það á að draga þingmenn hér fram á stórhátíðir og hefur verið boðað að verði jafnvel kvöldfundur.
    Ég vil biðja hæstv. forseta í fyrsta lagi að nota þennan fund sem verður með forsrh. á eftir til þess að reyna að fá ríkisstjórnina og ráðherra til að svara þeim spurningum sem lagðar eru fyrir. Þetta er náttúrlega alveg óþolandi, þeirra óvirðing fyrir þinginu.
    Ég lagði hér fram beina spurningu til hæstv. ráðherra um það með hvaða hætti niðurskurður yrði í framhaldsskólanum af því að við erum að fjalla hér sérstaklega um framhaldsskólamálin. Hann vék ekki að því einu einasta orði. Ég spurði hann í öðru lagi spurningar í sambandi við það hvernig hann hygðist hefja skólastarf á næsta hausti. Hann vék ekki að því einu einasta orði og svo er um fleiri atriði sem nauðsynlegt er að rifja upp á eftir eða þegar næsti fundur verður.
    Ég vil þess vegna biðja forseta í fyrsta lagi að reyna að brýna fyrir ráðherrum að svara efnisspurningum sem fram koma og ekki út í hött heldur efnislega og í öðru lagi vil ég biðja hæstv. forseta að gæta þess að stórhátíð er að ganga í garð. ,,Hin heilaga helgi, hin heilaga hvítasunnuhelgi er að ganga í garð,,, segir Matthías Jochumsson á einhverjum stað. Ég vil biðja hæstv. forseta að hafa það í minni.