Svör ráðherra um þinghaldið
Föstudaginn 12. maí 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Varðandi þær fyrirspurnir sem hv. 2. þm. Norðurl. e. bar hér fram í þingskapaumræðu, þá skal því svarað varðandi framhaldsskólann og sparnað þar að með hann verður farið með sama hætti og aðrar opinberar stofnanir samkvæmt þeim ákvörðunum sem Alþingi tók þegar fjárlög voru afgreidd. Ég varð ekki var við það þá að Sjálfstfl. þætti of langt gengið í sparnaði. Það er ánægjulegt ef svo er og reynir þá á skattlagningarvilja Sjálfstfl. þegar þessi mál verða lögð fyrir í haust.
    Varðandi framhaldsskólann að öðru leyti, þá veit ég ekki betur en það standi til núna eftir nokkrar mínútur þegar hv. þm. Halldór Blöndal hefur talað nægju sína hér í þessari deild, þá standi til að ræða þessi mál ítarlega við utandagskrárumræður í hv. sameinuðu þingi.
    Ég tek svo eindregið undir það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði að það er nauðsynlegt að semja um þingstörfin. Þá er mjög brýnt að þingflokkarnir séu aðilar að því og allir þingmenn í einstökum þingflokkum.