Svör ráðherra um þinghaldið
Föstudaginn 12. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Á fundi deildarinnar í gær vorum við að fjalla um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem fól í sér lækkun á ýmsum sköttum sem að vísu gengur ekki öll fram strax. Það er rangt sem hæstv. iðnrh. sagði í Morgunblaðinu núna einhvern daginn þegar hann var að tala um það að vörugjaldið yrði fellt niður meðan þetta þing stæði. Það var auðvitað rangt. Vörugjaldið verður ekki fellt niður fyrr en 1. september. En aðalatriðið er að í þeirri yfirlýsingu sem fylgdi frv., bæði til atvinnurekenda og launþega, gaf ríkisstjórnin fyrirheit um skattalækkanir, frekari skattalækkanir en fólust í frv. sjálfu og lúta annars vegar að tekju- og eignarskatti á fyrirtæki og hins vegar að skattlagningu á tekjur manna í sambandi við lífeyrissjóðsgreiðslur o.fl.
    En hér áðan talaði ráðherrann um að á hausti komanda mundi reyna á skattlagningarvilja sjálfstæðismanna. Hann talaði eins og ríkisstjórnin hefði þegar ákveðið nýja skattheimtu á haustdögum. Hann var að amast við því að við sjálfstæðismenn vildum ekki leggja á þyngri skatta og boðaði skattaþyngingar í haust. Það kemur mér auðvitað ekkert á óvart. Eins og ég sagði áðan, þá er það oftast svo um fyrirheit þeirra alþýðubandalagsmanna, fyrirheitin eru með 36% launaskatti, 36% afföllum, 6x6% afföllum á meðan lántökugjald á erlend lán er ekki nema 6%. Enda gat þjóðin aldrei búist við því að hún kæmist gratís frá því að hafa þessa menn í ríkisstjórn.