Svör ráðherra um þinghaldið
Föstudaginn 12. maí 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það er nauðsynlegt til að greiða fyrir þingstörfum að ræða hér ítarlega um ýmis mál undir liðnum um þingsköp og ég er tilbúinn til að taka þátt í því, enda hef ég verið sjaldgæfari gestur í þeirri umræðu hér í hv. þingi í vetur en stundum áður þannig að það er svo sem ágætt að rifja það upp að tala dálítið um þingsköp. Og eitt af því sem kemur þingsköpum við að mati hv. 2. þm. Norðurl. e. eru skattamálin. Ég verð að viðurkenna það að ég tel að það sé helsti gallinn á þessum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar sem voru tilkynntar á dögunum að menn ætla að fara að lækka skatta á fyrirtækjum og ég fagna því mjög ef Sjálfstfl. er tilbúinn til að taka þátt í því með Alþb. að verja samneysluna, þar með talið skólakerfið, fyrir skattalækkunarveikinni sem herjar nú á menn á ólíklegustu stöðum hér á hv. Alþingi. Mér þykir satt að segja mjög vænt um það að þessi rödd skuli koma frá Sjálfstfl. og lýsir næmum skilningi hv. 2. þm. Norðurl. e. á vanda hins íslenska skólakerfis.