Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Föstudaginn 12. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Eins og fram kom við umræður við 3. umr. málsins er þetta að nokkru leyti á misskilningi byggt hjá hv. þm. því að í VII. kafla frv., 4. málsl., stendur:
    ,,Alþingi veitir árlega fé í sjóð sem nefnist Íþróttasjóður. Fé úr sjóðnum skal veita til bygginga íþróttamannvirkja á vegum félaga sem um getur í 2. mgr. Íþróttanefnd gerir tillögur til fjvn. um skiptingu fjárins.``
    Og hvað snertir síðari liðinn í tillögunni er gert ráð fyrir því í uppgjörsdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að gera upp skuldir Íþróttasjóðs við íþróttamannvirki, bæði á vegum sveitarfélaga og á vegum almennra félaga í landinu, þannig að tillagan er óþörf. Ég segi því nei.