Launavísitala
Föstudaginn 12. maí 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Þegar þetta mál var síðast til umræðu hér í hv. deild kom fram ósk um það frá hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophussyni sem jafnframt var studd af hæstv. forsrh. að fjh.- og viðskn. tæki þetta mál til athugunar enn og aftur vegna hugsanlega breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Við héldum fund um þetta mál, kölluðum á fund okkar hagstofustjóra, Hallgrím Snorrason, og einnig Gunnar Hall. Það varð niðurstaða þess fundar að ekki væri efni til að breyta, það hefði ekkert það gerst sem gæfi ástæðu til að við breyttum afstöðu okkar.
    Það er rétt að það komi fram sem reyndar var staðfest hér af hæstv. forsrh. þegar málið var síðast til umræðu að hagstofustjóri leggur á það áherslu að málið verði lögfest, þ.e. sett verði lög um launavísitölu, því hann telur miklum vandkvæðum bundið að reikna út launavísitölu öðruvísi en að hún eigi stoð í lögum. Það er sem sagt niðurstaða fjh.- og viðskn. að halda við fyrri afstöðu og leggjum við til að málið verði samþykkt.