Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 12. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst til að fyrirbyggja misskilning biðja forláts á því að mér hættir stundum til að grípa fram í fyrir ræðumönnum Sjálfstfl. þegar þeir standa hér í pontu. Sökin er nú ekki á þann veg að ég sé að sýna þeim einhverja sérstaka vanvirðu eða vilji trufla þeirra málflutning, heldur held ég að þetta sé óhjákvæmileg afleiðing af þeirri nýju hönnun innréttinga hér í salnum sem tekin var upp fyrir nokkru síðan og gerir það að verkum að það eru einungis u.þ.b. tveir metrar frá ræðustólnum hér yfir í það sæti sem mér hefur verið ætlað. Hefði nú hin gamla skipan, þegar fjmrh. sat miklu aftar í salnum og ekki í augsýn við ræðumenn og allra síst Sjálfstæðisflokksins, verið mun betur til þess fallin að koma í veg fyrir framíköll af þessu tagi. (Gripið fram í.) Það getur vel lagast, hv. þm. Friðrik Sophusson. Þó held ég að þessi ákvörðun húsameistara ríkisins að breyta innréttingunni með þessum hætti hafi m.a. haft þetta í för með sér.
    Hins vegar er það þannig að þessar ræður, sem hv. þm. Sjálfstfl. flytja fyrst í húsbréfamálinu og nú undir þessum dagskrárlið, og þetta er víst alltaf sama ræðan, eru farnar að minna mig bæði skemmtilega og stundum óþyrmilega á persónur í hinni merku bók hins ágæta ítalska fræðimanns og rithöfundar Umberto Eco. Þessi bók ber þar að auki hið ágæta nafn, eins og hv. þm. flestum er vonandi kunnugt, Nafn rósarinnar. Nafn rósarinnar hefur hlotið mikla útbreiðslu, verið þýdd á fjölda þjóðtungna, m.a. er hún til í frábærri íslenskri þýðingu eftir Thor Vilhjálmsson. Í þessu skemmtilega og merka skáldverki eru aðalpersónurnar munkar nokkrir sem sitja einangraðir á fjöllum uppi og eru þar að rýna í alls konar texta og reyna að lesa út úr þeim eitt í dag og annað á morgun, aðallega til þess að hafa eitthvað að gera þarna hátt uppi í einangrun fjallsins. Svo taka þeir að vísu upp á því skömmu eftir að sagan hefst að fara að myrða hver annan, en ég vona nú að þm. Sjálfstfl. taki það ekki upp heldur haldi sér frekar áfram við þann þátt sögunnar sem felst í þeirri iðju latínumunka að rýna og rýna í textann og reyna að lesa út úr honum eina túlkun í dag, aðra á morgun, eina túlkun í ár, aðra næsta ár, eina túlkun á þessari öld, aðra á þeirri næstu. Hin merka saga Ítalíu geymir þá staðreynd að í nærri 700 ár fengust munkarnir við lítið annað en þetta. Umberto Eco klæðir þetta í mjög skemmtilegan búning í þessari ágætu bók og hafi menn ekki lesið hana mæli ég eindregið með hinni ágætu þýðingu Thors Vilhjálmssonar. Þar geta menn fengið djúpstæðari skilning á þessum ræðuhöldum sjálfstæðismanna í þessu máli.
    Það vill þar að auki svo skemmtilega til að nafn þessarar bókar, Nafn rósarinnar, má í tvíþættri merkingu heimfæra upp á hæstv. félmrh. án þess að ég ætli að útlista þá merkingu nánar hér, önnur er pólitísk og hin er persónuleg eins og menn hljóta að skilja. Sjálfstfl. leitar þess vegna hér í þingsalnum að þessu nafni í ræðu eftir ræðu, hvort sem það heita húsbréf eða vextir, og fletta skræðum, nál. og ræðum

ráðherra og þingmanna til þess að fá í þetta botn.
    Um þessar mundir eru þeir staddir þar í iðju sinni, í að skrifa þetta skáldverk, að nú hafa þeir komist að þeirri merku pólitísku niðurstöðu að annars vegar sé hæstv. fjmrh. sammála hæstv. félmrh. en hins vegar sé hæstv. sjútvrh. sammála hv. 2. þm. Austurl. sem sé hins vegar ósammála flokksbróður sínum fjmrh. sem einnig sé ósammála hæstv. starfandi forsrh. og þannig koll af kolli, leikfléttu af leikfléttu.
    Málið er náttúrlega hins vegar eins og í öllum latínutextum mjög einfalt, þarf ekki að setja á langar ræður í þeim efnum, og sá einfaldleiki hefur verið settur á þrykk af hinum orðhaga húnvetnska bónda sem er hér formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar, enda kominn af annáluðu Guðlaugsstaðakyni sem hefur nú þegar getið sér þjóðfrægð fyrir það að geta orðað betur en aðrir menn skýrar hugsanir. En í þessu nál. sem hv. þm. Páll Pétursson mælti hér fyrir stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin stefnir að því að vaxtamismunur af teknum lánum hjá lífeyrissjóðunum og útlánum Byggingarsjóðs ríkisins í núverandi húsnæðiskerfi verði ekki meiri en 0,5--1,0% og verði vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins lægri sem þeim mismun nemur.
    Vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins hækka ekki fyrr en húsbréfakerfið tekur gildi og verða þá ekki hærri en 4,0--4,5%.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækkun vaxta hjá Byggingarsjóði ríkisins verði ekki afturvirk.``
    Fyrir okkur sem höfum ekki týnt okkur í munkalatínu miðalda, sem þingmenn Sjálfstfl. hafa tileinkað sér í anda þeirrar iðju sem frá er greint í hinu merka skáldverki Nafn rósarinnar, er þetta ósköp skýr og ljós texti og þarf í raun og veru ekkert meira um málið að segja. Þar breytir engu hvað margar ræður þingmenn Sjálfstfl. kjósa að flytja hér og reyna að þylja einhverja texta fram og aftur til að benda á annað. Málið liggur alveg ljóst fyrir út frá öllum þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar, m.a. vegna þess, eins og ég gerði grein fyrir á sínum tíma og mun skýrar má lesa í hinu merka blaði
Morgunblaðinu í gær, að þegar hefur verið gerður samningur við lífeyrissjóðina þar sem ákveðnir eru vextir á ákveðnum hluta þeirra bréfa sem lífeyrissjóðirnir hafa ákveðið að kaupa. Nú veit ég vel að allir þingmenn og sérstaklega þingmenn Sjálfstfl. lesa Morgunblaðið mjög vandlega. Þess vegna get ég líka sparað mér að endursegja þennan þátt málsins hér enn á ný, sem ég gerði í ræðu, ég held næturstund hér fyrir skömmu, því að á bls. 20 í Morgunblaðinu í gær er að finna mjög greinargóða og skýra grein þar sem allt þetta er sett fram á augljósu og rökföstu máli. Það er grein eftir Má Guðmundsson hagfræðing sem um þessar mundir er efnahagsráðgjafi fjmrh. en var um langa hríð samstarfsmaður hv. þm. Geirs H. Haarde í Seðlabankanum. Og ég veit að hv. þm. Geir H. Haarde hefur það mikið faglegt sjálfstæði og það mikinn faglegan metnað að hann leyfir sér ekki að draga í efa faglegar niðurstöður Más Guðmundssonar

á þessu sviði þótt hann geti kannski leyft sér sem alþm. hér að draga orð mín í efa og er frjálst og sjálfsagt að hann geri það. En sem betur fer er það einu sinni þannig að þeir sem þjálfaðir eru í sömu fræðigreinum setja sér ákveðin takmörk fyrir því hvað menn leyfa sér gagnvart starfsbræðrum sínum vegna þess að þótt hagfræðin og félagsvísindin séu ekki alveg jafnnákvæmar fræðigreinar og sumt í raunvísindunum, þá gilda þar engu að síður, sem betur fer, ákveðin fræðileg og fagleg lögmál. Og ég veit að þegar hv. þm. Geir H. Haarde les þessa grein sem hagfræðingurinn Geir H. Haarde, fyrrv. starfsmaður Seðlabankans Geir Haarde, þá sér hann auðvitað að það er hárrétt sem haldið hefur verið fram að á þeim hluta sem keypt eru af lífeyrissjóðunum, hinum svokallaða ECU-hluta, verða vextirnir, hvað sem gerist hér innan lands, á þeim hluta þessa samnings sem tengdur er hinu endurmetna mati á vöxtunum í lok ársins um eða innan við 5%.
    Á bls. 20 í Morgunblaðinu er að finna mjög ítarlegan rökstuðning, fræðilegan rökstuðning Más Guðmundssonar, fyrir þessari niðurstöðu. Lokaorð þess kafla greinarinnar eru á þessa leið: Að öllu samanlögðu eru því ekki rök til að miða við annað en að raunvextir ECU-bréfanna verði í kringum 5%. Þar með er ljóst, hvað sem líður vaxtaþróun innan lands, að 15--40% af skuldabréfakaupum sjóðanna verða með um 5% raunvöxtum. Það er þess vegna rangt sem hv. þm. Geir H. Haarde sagði hér áðan að samningarnir við lífeyrissjóðina komi þessu máli ekkert við. Þeir eru bara grundvallarþáttur málsins vegna þeirrar nýjungar sem í samningunum felst og tekur til þessa hluta samningsins. Það sem hv. þm. Sjálfstfl. hafa hins vegar sagt um þann hlutann sem felur í sér hina endurskoðuðu vaxtaviðmiðun innan lands í lok ársins er allt saman rétt í stórum efnisatriðum og enginn ágreiningur um það mál, en þeir gleyma alltaf annaðhvort að skoða nægilega vel eða ræða þennan þátt samningsins sem er hin stóra nýjung í þessum samningi og mun örugglega þegar fram líða stundir verða talin mestu tímamótin í samningum ríkissjóðs og lífeyrissjóðanna um langt árabil. ( GHH: Þar með er fullyrðingin í yfirlýsingunni röng.) Þar með er fullyrðingin í yfirlýsingunni rétt vegna þess að þegar horft er á þróunina á þessum erlenda markaði sem þarna er vísað til er að vísu í ,,teoríunni`` hugsanlegt að á næstu árum verði þar einhverjar stórvægilegar raunvaxtabreytingar en öllum hagfræðingum, öllum sérfræðingum í viðskiptum, öllum sérfræðingum í peningamarkaði sem mér er a.m.k. kunnugt um að hafi tjáð sig um þetta efni og þeim sérfræðingum sem ég hef leitað til ber saman um að það séu þá frekar líkur á því að á næstu missirum og árum muni þessir raunvextir lækka frekar en að þeir hækki. ( GHH: Það er enginn að tala um ECU-vexti.) Nei, það er nefnilega alveg rétt að hv. þm. Sjálfstfl. kjósa að tala ekki um ECU-vextina vegna þess að þar er, svo að ég haldi mér áfram við hina ágætu bók Nafn rósarinnar, einmitt hið foðboðna ritverk sem veldur því að ef þeir opna það þá brennur þeirra málflutningur allur upp

eins og munkaklaustrið sjálft brann upp í þessu góða skáldverki þegar hin forboðna bók hafði verið opnuð. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm. Friðrik Sophusson? ( Forseti: Ég vil biðja hv. þingdeildarmenn að stunda hér ekki frammítökur. Það gildir jafnt um þingmenn sem ráðherrana.) Munurinn er sá að ég fagna ávallt frammítökum frá Sjálfstfl. en þeir eru eitthvað skapvondir yfir frammíköllum frá mér. Hvað sagði hv. þm.? ( Forseti: Það vill svo til að það fer ekki eftir ræðumönnum hvort þeir fagna frammítökum eða ekki, heldur er það almenn regla hér á fundum.) ( FrS: Ég skal gjarnan taka þátt í þessum leik.) Já, ég þakka hv. þm. Friðriki Sophussyni fyrir það. ( PP: Getið þið ekki farið út á Borgina?) Hv. þm. Páll Pétursson er hér á mælendaskrá þannig að þó að ég skilji vel að hann vilji blanda sér í þennan frammíkallaleik, eins og því Guðlaugsstaðakyni, svo að ég haldi mér nú áfram við þær líkingar sem ég var með hér áðan, er títt, þá skal ég reyna að ljúka máli mínu.
    Ég get svo sem komið hingað eins oft í salinn og þingmenn Sjálfstfl. vilja. Ég get tekið hérna til máls eins oft og þingmenn Sjálfstfl. vilja. En það breytir engu um það að ég segi nákvæmlega það sama í þessari ræðu og ég sagði í síðustu ræðu og hve oft sem þingmenn Sjálfstfl. kjósa að fara yfir málið, þá er niðurstaðan alltaf eins. Eins og málið liggur efnislega fyrir, bæði hvað snertir samkomulagið innan ríkisstjórnarinnar og með hliðsjón af hinni merku
nýjung í samningum ríkisins við lífeyrissjóðina er málið eins ljóst og hábjartur dagur. Það er þess vegna enginn ágreiningur um málið innan ríkisstjórnarinnar. Málið liggur efnislega alveg ljóst fyrir. Það skal ég segja næst þegar ég verð beðinn að taka til máls, bara í fáeinum setningum, en vildi hér hins vegar reyna að útskýra í aðeins lengra máli. Síðan ber ég fram þá frómu ósk til þingmanna Sjálfstfl. að þeir lesi Morgunblaðið.