Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 12. maí 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Hv. þm. Geir H. Haarde kvartaði undan því að ég hefði ekki rakið í framsögu minni efni frv. í smáatriðum. Ég treysti því nú að þingdeildin hefði kynnt sér málið og vissi allt um það eins og hv. þm. Geir H. Haarde og auk þess vissi ég það að hv. þm. mundi halda hér yfirgripsmikla og upplýsandi ræðu eins og hans var von og vísa. Ég átti reyndar ekki von á því að hann mundi misskilja neitt í þessu máli, en ef svo illa færi hefði ég náttúrlega tækifæri til þess að leiðrétta hann. Út af fyrir sig er ekki margt sem ég þarf að leiðrétta í ræðu hv. þm. Geirs H. Haarde, en nokkrum spurningum beindi hann til mín og það er sjálfsagt að verða við því að svara þeim.
    Í fyrsta lagi vildi hann vita við hvað væri átt með setningunni: ,,Ríkisstjórnin stefnir að því að vaxtamismunur af teknum lánum hjá lífeyrissjóðunum og útlánum Byggingarsjóðs ríkisins í núverandi húsnæðiskerfi verði ekki meiri en 0,5--1,0% og verða vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins lægri sem þeim mismun nemur.`` Þetta held ég að skýri sig nú nokkuð sjálft, og a.m.k. ef hv. þm. les nál. áfram sér hann að neðarlega í nál. segir: ,,Meiri hluti nefndarinnar lítur svo á að fenginni þessari yfirlýsingu að eftir gildistöku laganna verði vextir af byggingarsjóðslánum ekki hærri en að hámarki 4,5%.`` Nú er það að vísu tilfellið að við erum ekki að stofna hér 1000 ára ríkið og það er kannski erfitt að fullyrða hvað verður um langa framtíð, en næstu framtíð gerum við ráð fyrir því í meiri hl. að vextirnir verði með þessum hætti. Það er að sjálfsögðu átt hér við vexti af núverandi kerfi en ekki af húsbréfakerfinu. Það er alveg rétt hjá hv. þm., sem hann hefur komið auga á af skarpleik sínum, að við erum hér með eða verðum hér í nánustu framtíð með tvöfalt kerfi, verðum með núverandi húsnæðiskerfi og húsbréfakerfi þar til hliðar. Þetta húsbréfakerfi er tilraun. Upphaflega vildi hæstv. félmrh. að húsbréfakerfið tæki við af núverandi húsnæðiskerfi. Málið hefur þróast þannig að það verður ekki, heldur er farið af stað með húsbréfakerfi á takmörkuðu sviði. Okkur þótti ýmsum glannalegt að taka húsbréfakerfið alfarið upp. Við viljum lofa því að þróast. Það er bundið við kaup á eldra húsnæði og bundið við ákveðna upphæð. Síðan verður kerfið endurskoðað og hafi það sannað sig og reynst eins og hæstv. félmrh. og við fleiri vonum, þá er rétt að taka skrefið til fulls, en ef ekki, eins og sumir hv. þm. hafa óskað, þá er heldur ekki allt í hers höndum. Það er ekki búið að eyðileggja núverandi kerfi. Og ég held að hér hafi verið valinn skynsamlegur millivegur og að eðlilegt sé að feta þessa slóð.
    Það er rétt hjá hv. 17. þm. Reykv. að vextirnir verða nokkuð niðurgreiddir. Það er ekki um stórfellda niðurgreiðslu að ræða með þessu móti. Hann vitnaði til dæma sem prentuð eru í grg. frv. Þessi grg. er náttúrlega samin við frv. áður en það fór að taka breytingum og þau eiga ekki lengur við og það er alveg rétt hjá hv. þm. að það þarf að reikna þetta upp

á nýtt til þess að menn hafi þetta fyrir sér í smáatriðum. Þetta gjörbreytir hins vegar ekki málinu með þeim hætti að ástæða væri til að fresta afgreiðslu þess hér. Við seinkuðum gildistöku frv. Við vísum því til milliþinganefndar til athugunar, náttúrlega öllu frv. og þessum útreikningum en þó sérstaklega tekju- og eignaviðmiðuninni. Þess vegna held ég að það hafi verið eðlileg málsmeðferð að afgreiða málið úr nefnd þó að endanleg dæmi liggi ekki fyrir og eftir sé að skoða ákveðin atriði, bæði í húsbréfakerfi og eins í þessu fylgifrumvarpi.
    Ég vil líka upplýsa hv. 17. þm. Reykv. um hvar ég lærði þessi vinnubrögð. Það gerði ég þegar við vorum í góðu samstarfi í fjh.- og viðskn. að afgreiða lög um virðisaukaskatt. Þá var fundin sú viturlega aðferð að setja milliþinganefnd í málið. Það var lögfest, stefnan var tekin, menn vissu á hverju þeir ættu von og gátu farið að undirbúa sig undir kerfisbreytingu, en málinu var vísað til milliþinganefndar sem hefur það verkefni að útfæra í smáatriðum atriði sem voru óljós og óákveðin og binda enda sem voru lausir.
    Ég vil láta það í ljósi að ég er ákaflega ánægður með þróun þessa húsbréfamáls. Ég held að við höfum fundið skynsamlegan lendingarstað. Við gerum þarna afmarkaða tilraun. Hún hefur að vísu þá ókosti að við búum um sinn a.m.k. við tvöfalt kerfi, en kostirnir eru þeir að það er gerð þarna athyglisverð tilraun sem vonandi leiðir til heppilegs fyrirkomulags, en tilraunin er gerð án þess að fórna fyrir fram því sem fyrir er. Ég held hins vegar að það hafi verið slys að hv. deild skyldi samþykkja hér um daginn brtt. hv. þm. Geirs H. Haarde þar sem nú er farið að hlaða undir stóreignamenn sem ekki var meining meiri hl. nefndarinnar eða var ekki í huga okkar þegar þetta frv. var samþykkt. Þegar frv. um tekju- og eignarskatt var afgreitt frá fjh.- og viðskn. var það ekki í huga okkar að deildin tæki þá stefnu að hlaða undir stóreignamenn og afhenda þeim niðurgreitt fé eins og raun ber vitni eftir að brtt. hv. 17. þm. Reykv. voru samþykktar.
    Mér finnst satt að segja afstaða sumra hv. þm. vera órökrétt, afstaða þeirra sem þykjast hvað mestir vinir þeirra sem minna mega sín en geta ekki þolað það að biðlistar séu styttir, takmarkaður sé aðgangur að húsnæðiskerfinu, t.d. með því að setja ákveðnar hömlur á þá sem eru með mjög stórar íbúðir eða með mjög miklar eignir.
    En allt um það, þrátt fyrir að frv. hafi verið skemmt fyrir tilverknað hv. þm. Geirs H. Haarde lít ég svo á að það sé ekki það alvarlegt mál að við getum ekki með góðri samvisku ákveðið að láta þetta frv. til laga um tekju- og eignarskatt ná fram að ganga. Ég verð að segja það að þegar við ákváðum að niðurgreiða vexti reiknuðum við með að verið væri að gera það eingöngu fyrir þá sem þyrftu verulega á því að halda, þ.e. þá sem ekki hefðu efni á því að borga háu vextina, en ekki handa stóreignamönnum eins og því miður koma til með að slæðast í þann hóp sem kemur til með að njóta þessarar fyrirgreiðslu.