Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 12. maí 1989

     Þórður Skúlason:
    Herra forseti. Ræðumönnum í þessari umræðu hefur orðið tíðrætt um vaxtamálin í tengslum við það mál sem hér liggur fyrir og í sjálfu sér er það ekki óeðlilegt vegna þess að vaxtaþátturinn er einn stærsti og afdrifaríkasti þáttur þessa máls. En það er eins og sumir hv. ræðumenn hafi ekki áttað sig á því að það er komin niðurstaða í þetta mál. Sú niðurstaða liggur fyrir alveg hreint og klárlega. Hæstv. fjmrh. las hér yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi þennan þátt, vaxtaþáttinn, og hann er prentaður hér í nál. meiri hl. nefndarinnar og ég þarf auðvitað ekkert að endurtaka úr þeirri yfirlýsingu. Mig langar hins vegar til þess að ítreka hérna og árétta eina setningu úr nál. þar sem vitnað er til þessarar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Meiri hluti nefndarinnar lítur svo á að fenginni þessari yfirlýsingu að eftir gildistöku laganna verði vextir af byggingarsjóðslánum ekki hærri en að hámarki 4,5%.``
    Þetta er niðurstaða meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. og hún liggur alveg hreint og klárlega fyrir hér í nál. og raunverulega er það endanleg niðurstaða hvað þennan vaxtaþátt varðar í sambandi við þetta mál. Og það atriði vildi ég árétta hér og ítreka.